Bændablaðið - 12.12.2013, Blaðsíða 33

Bændablaðið - 12.12.2013, Blaðsíða 33
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. desember 2013 Forystufé – ritgerðasamkeppni um einstaka hæfileika í íslenska sauðfjárstofninum Ég ætla hér á eftir að segja sögu af forystusauð sem ég umgekkst mikið og tamdi. Þetta var höfðinginn Skeggi. Móðir hans var hvít forystuær, róleg og athugul en fór vel á undan. Faðirinn var móhosóttur og hafði gefið góðar forystukindur. Skeggi en svo var hann skírður var svarhosóttur, hnýfilhyrndur með sívöl bogin horn. Tvílembingurinn á móti honum var hvítur og kemur hann ekki frekar við þessa sögu. Þetta voru vorgeldingar sem svo var nefnt. Skeggi var vænt lamb um haustið er hann kom í mína umsjá. Setti ég strax bjöllu í horn á honum sem hann bar svo alla tíð. Augun voru stór og greindarleg, upplitið djarflegt og þegar hann var fyrst rekinn með fénu fór hann strax á undan en þó fumlaust. Fljótlega fór ég að hæna hann að mér og tala við hann. Ótrúlega fljótt gat ég farið að kalla í hann, kom hann þá til mín og fékk umbun. Einnig kenndi ég honum að hlýða hvort hann ætti að beygja til hægri eða vinstri með því að rétta út viðeigandi hönd. Um haustið þegar Skeggi var að byrja sinn annan vetur var kominn töluverður snjór þegar féð var tekið á hús. Hörð skel var á snjónum en rifið á milli. Ég hafði fengið af því fréttir að við ættum tvær ær á bæ sem er skammt frá. Þangað eru um 5 km. Ég rak féð til beitar og ætlaði að því búnu að fara og sækja ærnar. Mér datt í hug að taka Skeggja með mér, þess vegna gekk ég fram fyrir féð er það var komið á þann stað er ég ætlaði því. Kallaði þá í Skeggja að koma með mér heim sem hann gerði og labbaði með mér til baka. Ég setti þá á mig skíði og hélt af stað og Skeggi hljóp með mér. Er ekki að orðlengja það að svona hljóp hann með mér ýmist við hlið eða á eftir. Þegar þangað kom var bóndi út á hlaði. Honum fannst mjög undarlegt að sjá sauðinn elta mig eins og hund. Bóndinn bauð mér í kaffi sem ég ætlaði að þiggja en sagði að ég þyrfti að setja sauðinn í hús á meðan. Það vildi bóndinn ekki en bað mig að ganga inn í eldhús og sjá hvað sauðurinn gerði. Ég gekk svo inn en sá að hann dokaði aðeins við í dyrunum en gekk svo inn á eftir mér og inn í eldhús þar sem ég settist við eldhúsborðið en hann fór undir borðið. Þetta þótti hjónunum svo skemmtilegt að þau sögðu að þau færu ekki að hrekja hann út. Sótti bóndinn svo hey og gaf honum undir borðinu sem hann át auk þess fékk hann kleinur með mér. Þegar kaffidrykkju lauk fórum við út og hleyptum ánum út, rann þá Skeggi slóðina sína til baka og ærnar á eftir og þurfti ekki að hafa áhyggjur að rekstrinum. Margar slíkar ferðir fórum við Skeggi en þó er þetta víst í eina skiptið sem hann fékk mat sinn undir eldhúsborði. Tveimur árum seinna var það á þorranum að ég hleypti fénu út að morgni. En það var vani minn að ég opnaði húsin og taldi féð þegar það kom út. Í þetta sinn vantaði eina uppá töluna svo ég fór inn í húsið en þá stóð Skeggi inn við vegg sem annars var vanur að koma út með þeim fyrstu. Í asnaskap mínum rak ég hann út og sagði við hann að vera ekki með neina vitleysu. Ég var vanur að tala við hann eins og mann og ég held að hann hafi skilið mig að mestu. En þarna skildi ég hann ekki. Ég rek svo féð til beitar en fór svo heim og inn í hlöðu að taka til hey. Þegar ég var þarna inni heyri ég allt í einu hvin á þakinu, lít þá út en þá er komin glórulaus norðan stórhríð. Um morguninn var þokkalegt veður en rysjulegt loft mér datt ekki í hug nema smá él. Ég hef getið um það fyrr að Skeggi var með bjöllu í horni sem sett var í strax á lambsvetri. Bjöllu þessa notaði hann til að stjórna fénu þannig að ef hann vildi eitthvað stjórna þá hristi hann hausinn og lét hvína í bjöllunni. En nú var eins og fyrr segir brostin á grenjandi stórhríð. Þá var ekki til setu boðið og nú varð að leggja út í hríðina og reyna að finna féð. Færi var nokkuð gott hafði verið hláka en svo fryst og snjóað í logni þar ofan á svo nóg var til að renna og svo mikil ofankoma til viðbótar. Ég lagði nú af stað út í hríðina og hafði veðrið á hlið að mestu en þó að nokkru á eftir. Gekk ég æði lengi í hríðinni og vissi ekki nákvæmlega hvert stefna skyldi. Heyrði ég þá allt í einu í bjöllunni og gekk á hljóðið. Þarna var þá Skeggi búinn að smala fénu saman upp á holt og hljóp í kring um það og hristi hausinn og lét hvína í bjöllunni. Þegar hann sá mig kom hann til mín, þá sagði ég við hann. Jæja Skeggi minn nú skulum við reyna að komast heim. Hann lét ekki segja sér það tvisvar heldur lagði af stað og ég rak á eftir. Gekk svo um hríð en svo var hríðin dimm að ég var ekkert viss um hvert stefndi en treysti á Skeggja. Allt í einu er allt stopp og svo kemur Skeggi aftur fyrir hópinn og til mín . Mér leist nú ekkert á ástandið og datt í hug að sauðurinn væri búinn að gefast upp en þá tók ég eftir að hann var orðinn svo klakaður um hausinn að hann var að mestu hættur að sjá. Klóraði ég af honum klakann svo hann gæti séð og var hann þá fljótur að fara fram fyrir svo nú þokaðist allt í áttina. Svona gekk þetta í áttina og næsta stopp var heim við húsdyr. Þá varð ég feginn og ekki var sparað deigið við Skeggja það kvöldið. Fleiri slíkar stundir lifðum við saman. Skeggi gekk jafnan á heiðinni heima á sumrin og sást ekki að jafnaði frá bæjum. Þó brá út af þessu einu sinni. Þá var verið við heyskap skammt frá túngirðingu tók ég þá eftir að Skeggi var kominn heim að girðingu og jarmaði. Nú bjóst ég við að eitthvað væri að, hann kannski veikur. Ég gekk því út fyrir girðinguna og kom hann þá til mín. Sagði þá við hann. „Hvað gengur að þér Skeggi minn“? Þá hristi hann hausinn og horfði á mig. Tók ég þá eftir að ekkeri heyrðist í bjöllunni og sá við frekari skoðun að kólfurinn var týndur úr henni. Opnaði ég túnhliðið og kallaði á hann með mér inn í hús. Þar tók ég úr honum bjölluna og smíðaði og setti í nýjan kólf og setti hana í hornið á ný. Þá hristi hann hausinn og var sýnilega ánægður. Hleypti honum svo út af túni og var hann fljótur að skila sér til heiðarinnar. Margt fleira gæti ég sagt af samskiptum okkar félaganna en læt hér staðar numið. Ég tel það gæfu að hafa fengið að vera með og kynnast svona forystukind. (Skegglaus) Jón Hólmgeirsson Í aftakaveðri hinn 11. september 2012 hraktist fé víða norðan- lands og fjölda fjár fennti í kaf og þúsundir drápust. Þrátt fyrir að fé dræpist þúsundum saman tókst að bjarga enn fleira fé og voru kindur að finnast á lífi undir sköflum vikum og mánuðum seinna. Þótti oft undrum sæta hversu lífseigar íslensku kindurnar eru. Fjöldi fjár bjargaðist þó við ótrúlegar kringumstæður í óveðrinu og fullyrða menn að þar hafi á stundum notið sín ratvísi og hæfileiki forystukinda til að leiða hópinn í skjól. Um hæfileika forystukinda eru til margar sögur, en þessar einstöku kindur eru öðruvísi í vexti en annað fé, mjóslegnari, háfættari og skara fram úr öðru fé hvað vit og dugnað áhrærir. Ekki hefur eins mikið reynt á hæfileika forystufjár á seinni tímum eins og áður fyrr þegar fé var haldið til beitar í hvaða veðrum sem var. Sem endapunktur í aðgerðum til stuðnings bændum sem illa urðu úti í óveðrinu í september 2012 var efnt til tvíþættrar samkeppni meðal landsmanna. Samkeppni var um hönnun „óveðurspeysu“ úr íslenskri ull og hins vegar var ritgerðasamkeppni í samvinnu við Bændablaðið til að varðveita sögur um forystufé. Var ákveðið að þrjár bestu sögurnar í keppninni yrðu birtar í Bændablaðinu. Í reglum um ritgerðina var skilyrt að sagan væri að hámarki 1.000 orð og fjallaði um eina ákveðna kind sem með atferli sínu og gerðum sannaði yfirburði sína og einstaka hæfileika gagnvart varasömum aðstæðum. Kind sem brygðist rétt við aðstæðum og hagaði sér þannig að telja mætti víst að hún hefði vitað hvað fram undan var. Túlkun viðfangsefnis var að öðru leyti gefin frjáls. Sérstök dómnefnd var skipuð. Þar sátu Jón Aðalsteinn Baldvinsson, fyrrverandi vígslubiskup á Hólum, Sif Jóhannesdóttir, forstöðumaður Safnahússins á Húsavík, og Hákon Sigurgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneytinu, en hann var jafnframt formaður nefndarinar. 39 ritgerðir, sögur og ljóð Alls bárust 39 ritgerðir, sögur og ljóð í keppnina. Fyrstu verðlaun hlaut ritgerð nr. 23 undir fyrirsögninni Skeggi, en dulnefni höfundar var Skegglaus. Höfundur þessarar sögu reyndist vera Jón Hólmgeirsson, Álfabyggð 7 á Akureyri. Önnur verðlaun hlaut ritgerð númer 12 undir fyrirsögninni Leitir, en dulnefni höfundar var Salómon Svarti. Þar reyndist höfundur vera Birgir Rúnar Davíðsson, Oddeyrargötu 24b á Akureyri. Þriðju verðlaun hlaut ritgerð númer 18 undir fyrirsögninni Forystufé, en dulnefni höfundar var Golsa. Höfundur þessarar sögu reyndist vera Áslaug Jóhannsdóttir, Neshaga 14 í Reykjavík, og kýs hún að birta söguna undir fyrirsögninni Golsa. Allir vinningshafarnir hlutu vegleg verðlaun fyrir verk sín. Dómnefnd vakti athygli á því að einungis fáar af þeim ritgerðum sem bárust í keppnina hefðu borið það með sér að vera eftir börn eða unglinga. Þetta benti til þess að með breyttri búsetu í landinu og breyttum búskaparháttum færi þekking á eiginleikum forystufjár þverrandi og væri í raun bundin við takmarkaðan hóp fullorðins fólks. Taldi nefndin því mikilvægt að vekja athygli á þessum þætti menningararfsins og lagði til að auk ritgerða sem verðlaun hlytu yrði úrval annarra ritgerða sem barst í samkeppninni einnig birt opinberlega. Mun ritstjórn Bændablaðsins taka það til skoðunar. /HKr. Forystufé. Sagan sem lenti í fyrsta sæti: Skeggi Jón Hólmgeirsson
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.