Læknablaðið - 15.01.1987, Qupperneq 30
16
LÆKNABLAÐIÐ
nokkrar stöðvar eru þar reknar af læknum
sjálfum. Þeir fá þó bágt fyrir hjá kerfismönnum
sem ekki fást til að trúa því að læknar geti unnið
sjálfstætt.
Sjúkrahúsrekstur er einnig kominn í hendur
ráðuneytis og hagsýslustofnunar án tillits til þess
hver skráður eigandi er. Eftir eru þá aðeins
sérfræðingar sem vinna á eigin stofum. Hve lengi
þeir fá til þess leyfi er óvíst. Töluverður áhugi er á
því að færa þessa starfsemi inn á göngudeildir
sjúkrahúsanna og banna mönnum að starfa
sjálfstætt.
En er þetta þá ekki fyrirmyndarskipulag?
Landsmenn allir skyldutryggðir hjá ríkinu sem
síðan sér um og stjórnar þeirri
heilbrigðisþjónustu sem það borgar fyrir.
Lítum nú aðeins á hverjir eiga hér hagsmuna að
gæta. Fyrst og fremst tryggingatakinn,
sjúklingurinn. Fyrir hann er kerfið gert. í öðru
lagi tryggingasalinn, ríkið, sem greiðir
kostnaðinn. í þriðja lagi læknar og aðrar
heilbrigðisstéttir sem sjá um framkvæmdina og
loks mætti bæta við fjórða aðilanum, ríkinu, í
hlutverki eftirlitsaðilans sem fylgjast á með hæfni
heilbrigðisstétta og gæðum þjónustunnar.
Hverjir eru svo hagsmunir neytandans hér? í
fyrsta lagi að nægjanlegur fjöldi hæfra lækna og
sjúkrastofnana sé fyrir hendi. í öðru lagi frelsi til
að velja sér lækni og sjúkrastofnanir. í þriðja lagi
að fá sannvirði þjónustu fyrir skattana sína.
Hagsmunir ríkisins sem tryggingataka eru
einfaldir. Sem sé að fá sem mesta þjónustu fyrir
sem minnst fé. Þeir stangast á við hagsmuni
ríkisins í eftirlitshlutverkinu sem á að sjá um að
gæði þjónustunnar séu ávallt í hámarki.
Hagsmunir lækna eru margþættir. Góð menntun,
góð vinnuaðstaða með greiningar- og
lækningamöguleikum í Iandinu, góð laun og frelsi
til starfa og ákvarðanatöku með hag sjúklings
fyrir brjósti.
Öll þessi atriði stuðla að því að hæft fólk fáist í
læknastétt og uppfylli þannig fyrsta skilyrði
sjúklingsins um nægjanlegan fjölda góðra lækna.
Hvort haldið þið að líklegra sé að þessi skilyrði
verði uppfyllt undir stjórn lækna sjálfra eða
annarra? Heilsugæslulæknar hafa nýverið fengið
forsmekkinn af vinnubrögðum
Tryggingastofnunar ríkisins í sambandi við
námsferðir sínar. Hvorir haldið þið að séu líklegri
til þess að gera sér fljótt grein fyrir hvar skórinn
kreppir í rannsókna- eða lækningaaðstöðu,
læknar eða embættismenn? Hvort er frelsi
læknisins til ákvarðanatöku meira á stofnun sem
Iæknar stjórna eða þar sem enginn læknir situr í
stjórn?
Hvað launin snertir þarf ekki að fjölyrða um kjör
þeirra stétta sem eingöngu eru ríkisstarfsmenn.
Koðnun kennarastéttarinnar er það fordæmi sem
bíður okkar, kollegar góðir, verði haldið áfram á
sömu braut. Ég leyfi mér í þessu sambandi að vísa
til skýrslu launanefndar sjúkrahúslækna í
ársskýrslu L.í. 1986.
Hvað þá með frelsi sjúklinga til að velja sér lækna
eða sjúkrastofnun? í lögum um
heilbrigðisþjónustu er smuga fyrir sjúklinga til að
leita annarra heilsugæslustöðva en selstöðuvaldið
hefur skráð hann hjá. Lög um almannatryggingar
má hins vegar túlka þannig að fólki sé óheimilt að
leita sér sérfræðiaðstoðar að eigin vali. Þarna er
um lagaákvæði að ræða sem óháð eru
rekstrarfyrirkomulagi. Mér finnst þó sem flestir
sjúklingar séu þeirrar skoðunar að fremur kjósi
þeir að leita ákveðins læknis en stofnunar þar sem
þeir vita ekki fyrirfram hvern þeir muni hitta.
Og þá komum við að síðasta þættinum í þessu
spjalli. Sameiginlegu markmiði tryggingataka og
tryggingasala. Hvernig nýtist best það fjármagn
sem til heilbrigðismála fer? Þarna er um verulegar
upphæðir að ræða. Árið 1984 6,5% af vergri
þjóðarframleiðslu. Hvernig er arðsemi þessarar
þjónustu háttað? Er arðsemismunur á hinum
ýmsu rekstrarformum? L.í. hefur tvívegis gert
tilraun til að grafast fyrir um þetta. í fyrra skiptið
var fenginn til þess sérmenntaður
heilbrigðisrekstrarfræðingur. í seinna skiptið
nefnd á vegum félagsins. Árangur varð enginn.
Ómögulegt reyndist að fá hjá opinberum aðilum
efnivið í rekstrar- eða efnahagsreikning. Virtist
svo sem enginn hefði yfirsýn yfir þessa hluti.
Við verðum þvi að láta okkur nægja að dæma af
líkum hvort skila muni betri nýtingu opinber
rekstur eða einkarekstur. Finnst ykkur sennilegt
að ríkinu gangi betur að reka heilbrigðisstofnanir
en til dæmis þörunga- eða
heykögglaverksmiðjur? Ég held ekki. Skyldu
sjúkrastofnanir reknar af sveitarfélögum vera
jafn mikil fyrirmyndarfyrirtæki og
bæjarútgerðirnar? Ekki finnst mér ólíklegt að svo
sé. í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum af
opinberum rekstri á íslandi og með mörg viti til
varnaðar hjá þjóðum sem búa við þjóðnýtt
heilbrigðiskerfi sýnist mér að tímabært sé orðið
að snúa við. Láta það fólk sem þekkir eðli