Nýtt Helgafell - 01.11.1957, Qupperneq 28
122
HELGAFELL
Unaður sumarsins, náttúrunautnin veitir
Jónasi hér álíka lífsfyllingu og styrk og
trúartraustið Hallgrími Péturssyni, sem
lýkur á svipaðan liátt og Jónas sumar-
sálmi sínum greftrunarsálminum Allt eins
og blómstrið eina, þar sem hann segir við
dauðann: „Kom þú sæll, þá þú vilt.“ Og
getur ekki verið, að í samruna skáldlegrar
upphafningar og óspilltrar barnsskynjunar,
sem Jónasi öðlaðist að varðveita, birtist
dýpsta vizka — og í samvitund Jónasar við
náttúruna séu fólgin hreinustu trúarbrögð?
En hjá Jónasi hafði það hér verið skil-
orðsbundið að geta gengið glaður til drott-
ins hið dimma fet (og takið eftir, að það
sem er náttúruskáldinu erfitt spor, þungt
skref, heitir á þess máli „hið dimma fet“),
og skilyrðið var: að mega una sér enn eitt
sumar við náttúruna. Og þessi síðasta
sumarbæn hans á Islandi var heyrð. Hann
fékk að dveljast hér til hausts.
VII
Eftir rúmlega þriggja ára Islandsdvöl
bjó Jónas nú síðasta hálft þriðja ár æv-
innar aftur í Danmörku. Þar yrkir hann
margt og vel, þó varla eins mikið og hann
hafði gert heima. Meginhluti yrkisefnanna
er sprottinn upp af endurminningum frá
íslandi, ferðaminningar að heiman, mynd-
ir af íslenzkri náttúru (Dcilvísa, Vorvísa)
eða íslenzku þjóðlífi (Sláttuvísa, For-
mannsvísur), tregablandin heimþrá (Eg
bið að lieilsa) og fornar, ljúfsárar ásta-
minningar (Ferðalok (?) — Enginn grœtur
Islending, sem ort er á einu skammdegis-
dægri, 21. des. 1844).
Þarna bjó Jónas tæpt ár (1843—44) í
boði vinar síns Japetuss náttúrufræðings
Steenstrups við Akademíuna í Sórey á Sjá-
landi og leið þar einstaklega vel, umgekkst
menntaða gáfumenn, ýmsa skáldgefna, lifði
algeru reglulífi, sem mjög vildi á bresta,
bæði fyrr og síðar, og er þetta eitthvert
bezta skeið ævi hans, bæði líkamlega og
andlega, enda orti hann þar tiltölulega
mest, og bezt, og er meiri hýra og birta yfir
skáldskap hans frá þessum tíma en næst
á undan og einkum á eftir. Þá gleði, sem
lífið rétti hér að honum, endurgalt hann
því ríkulega. En hann yrkir þarna ekki
um danska beykiskóga og næturgalaklið,
heldur um smáragrundina heima og vinda,
bárur og fugla, sem þangað stefna, —
kvæði eins og Fíjilbrekka, gróin grund og
Nú andar suðrið sœla.
Jónas dvaldist upp undir áratug af
manndómsaldri sínum í Danmörku, og
þótt stundum væri hann þar miður sín og
haldinn þunglyndi, ekki síður en heima á
Islandi, hefur hann því aðeins ílenzt þar,
að hann hefur metið menntun þá og menn-
ingu, sem þar var að fá og njóta, og blíða
og þýða landsins hljóta að hafa verið
Jónasi hugljúf, svo næmur sem liann var
á þau náttúrueinkenni. Þeim mun athyglis-
verðara er, að í öllum kveðskap hans skuli
ekki finnast nema hálf vísa, þar sem ör-
ugglega er lýst danskri náttúru, og er það
miklu eldra en hér er komið sögu, eða frá
fyrri Hafnarárum Jónasar (1839), í kvæð-
inu Nú er vetur úr bœ („Kveðju Islendinga
til séra Þorgeirs Guðmundssonar“, er hann
var nýorðinn prestur til Glólundar á Lá-
landi). En það er líka fallegt:
Þegar lauf skrýðir björk,
þegar Ijósgul um mörk
rennur lifandi kornstanga móða,--------
— takið eftir myndinni af akrinum, þar
sem kornöxin bærast í blænum, svo að öll
breiðan verður sem bylgjandi árstraumur,
ljósgulur ölduflaumur, lifandi fljót:
Þegar lauf skrýðir björk,
þegar ljósgul um mörk
rennur lifandi kornstanga móða,
þá mun farið af stað,
þá mun þeyst heim í hlað
til hans Þorgeirs í lundinum góða.
Ekki hefði sízt mátt búast við dönskum
unaðsmyndum frá velsældardvölinni í Sór-
ey. En því er sem sagt ekki að heilsa.