Morgunblaðið - 09.11.2011, Side 4
4 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 9. NÓVEMBER 2011
VIÐTAL
Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
„Það er afskaplega ánægjulegt að
lögreglu tókst að upplýsa ránið og
endurheimta þýfið, þó að tjón okkar
sé mikið. Þetta er vissulega mikið
högg fyrir okkur. Mestu skiptir samt
að við sluppum öll heil frá þessu og
enginn slasaðist, það er alltaf hægt
að kaupa ný úr. En lögreglan og toll-
gæslan eiga mikið hrós skilið fyrir
þeirra þrotlausu vinnu í níu sólar-
hringa eftir ránið, dag og nótt,“ segir
Frank Michelsen, úrsmiður við
Laugaveg, sem endurheimt hefur öll
úrin sem tekin voru í ráninu 17. októ-
ber sl.
Lögregla hefur lokið við rannsókn
á úrunum og hefur Frank náð að yf-
irfara þau öll. Hann segir úrin lang-
flest hafa eitthvað rispast og laskast
í meðförum ræningjanna, mismikið
þó, og ekki sé hægt að selja þau aftur
á fullu verði. Verða úrin þó seld með
fullri ábyrgð. „Ég er kannski ekki að
tala um útsölu en eigum við ekki að
segja að þau verði á niðursettu
verði,“ segir Frank en fyrir ránið var
dýrasta úrið, sem tekið var, verðlagt
á 1,7 milljónir króna, Rolex Daytona.
Til viðbótar við þau 49 úr sem Pól-
verjarnir tóku þá skemmdust 12
önnur dýrmæt úr í skápunum er
glerbrotum rigndi yfir þau í ráninu.
Upprunalegt tjón Franks og fjöl-
skyldunnar nemur rúmum 60 millj-
ónum króna, að meðtöldum
skemmdum í versluninni. Þar af var
verðmæti úranna, sem var stolið,
rúmar 50 milljónir króna, m.a. Ro-
lex-úr sem fást hvergi annars staðar
í heiminum í dag. Trygging verslun-
arinnar bætir tjónið hins vegar að-
eins að hluta og með því að hafa end-
urheimt úrin segist Frank vonast til
að geta dregið úr högginu og minnk-
að heildartjónið.
Með stærri úraránum í Evrópu
„Við vorum nýbúin að taka upp
jólasendinguna þegar þetta gerðist,
ég hef aldrei verið jafn fljótur að
klára slíka sendingu,“ segir Frank
og reynir að sjá spaugilegu hliðarnar
á þessu. Erlendir ferðamenn eru
fjölmennir í hópi viðskiptavina hans,
og höfðu þeir pantað mörg af þeim
úrum sem stolið var. Íslendingar
kaupa einnig þessi verðmætu úr og
þá fyrst og fremst sem fjárfesting-
arkost, að sögn Franks.
Hann er nýkominn heim frá Sviss
þar sem hann átti fund með yfir-
mönnum Rolex í Evrópu. Þar á bæ
sé mikil ánægja ríkjandi með að rán-
ið upplýstist, sem er með þeim
stærri í Evrópu í seinni tíð hvað
fjölda úra varðar. Hvert úr hefur
sína kennitölu, ef svo má segja, og
lista yfir þau var strax komið á fram-
færi til Rolex. Úrarán hafa verið
nokkuð tíð á Norðurlöndunum seinni
árin, yfirleitt framin af mönnum frá
A-Evrópu. Ljóst sé að um skipu-
lagða glæpastarfsemi sé að ræða.
Öryggisráðstafanir hertar
Í kjölfar ránsins verða öryggisráð-
stafanir í versluninni á Laugavegi 15
hertar enn frekar en áður, í sam-
starfi við Rolex, og aðgengi að úr-
unum takmarkað. Frank Michelsen
hefur verið á þessum stað í nær 20 ár
en var þar áður lengst af á Lauga-
vegi 39. Þetta var þriðja ránið sem
framið hefur verið í versluninni en
tjónið aldrei verið meira. Misheppn-
uð tilraun var gerð árið 2008 en árið
2001 óku ræningjar bíl sínum inn í
verslunina og tókst að hafa á brott
með sér nokkur úr.
Morgunblaðið/Júlíus
Úrin Frank Michelsen skoðar úrin eftir að hafa fengið þau öll frá lögreglunni. Úrin eru metin á rúmar 50 milljónir króna en fleiri skemmdust líka í ráninu.
„Mikið högg fyrir okkur“
Frank Michelsen úrsmiður hefur endurheimt ránsfenginn eftir fyrstu rannsókn
lögreglunnar Upphaflegt tjón metið á um 60 milljónir Úrin til sölu á lægra verði
„Við erum að
reka smiðshöggið
á frumvarp sem
afnemur fyrir-
vara sem við höf-
um haft á sam-
komulagi á
vegum Evrópu-
ráðsins, um fram-
sal fanga. Fyrir-
vari okkar hefur
snúið að því að
við erum ekki skuldbundin að fram-
selja eigin ríkisborgara og hið sama
gildir þá gagnvart ríkjum sem eiga
aðild að samkomulaginu,“ segir Ög-
mundur Jónasson innanríkis-
ráðherra.
Varðandi úraræningjana þrjá í
Póllandi segir hann að óskað hafi
verið eftir því að þeir yrðu hand-
teknir og framseldir. Ef þeir verði
ekki framseldir þá sé samkvæmt
fyrrnefndu samkomulagi heimilt að
leggja til við pólsk yfirvöld að réttað
verði í máli mannanna í Póllandi.
Öllu þessu sé verið að reyna að koma
í kring sem allra fyrst. bjb@mbl.is
Frumvarp
um framsal
á lokastigi
Óskað eftir handtöku
pólsku ræningjanna
Ögmundur
Jónasson
Jón H. B.
Snorrason, að-
stoðarlög-
reglustjóri á
höuðborgar-
svæðinu, segir
lögregluna hér
á landi áfram
vera í samstarfi
við lögreglu-
yfirvöld í Pól-
landi vegna
rannsóknar á úraráninu, þó að
tveimur mannanna hafi verið
sleppt í síðustu viku. Það sé yf-
irvalda í Póllandi að reka málið
þar áfram og fá fram fangels-
isdóma. Vopnað rán sé alvarlegt
brot. Jón segir það hafa verið
nauðsynlegt að lýsa eftir mönn-
unum þó að framsalssamningur
sé ekki í gildi milli Íslands og
Póllands. Hefðu mennirnir náðst í
Danmörku eða Þýskalandi hefðu
þeir verið framseldir hingað. Tel-
ur Jón það eðlilega kröfu að
samningurinn við Pólverja verði
virkjaður.
„Ekki mun þessum málum
fækka, heldur fjölga ef eitthvað
er. Ef það eru hnökrar á þessu
þá munu glæpagengi færa sér
það í nyt. Svo vel halda þau sér
upplýstum um málin,“ segir Jón.
bjb@mbl.is
Pólskra
yfirvalda að
reka málið
Jón H. B.
Snorrason
„Ég segi fyrir mitt leyti að munurinn á kostn-
aði við að leggja háspennulínur í jarðstrengjum
í stað loftlína er enn of mikill til þess að hægt
sé að réttlæta það, nema stuttar vegalengdir í
þéttbýli þar sem þröngt er um línustæði,“ segir
Kristján L. Möller, formaður atvinnuvega-
nefndar Alþingis. Forstjóri Landsnets var kall-
aður á fund nefndarinnar í gær til að veita upp-
lýsingar um kostnað við lagningu háspennulína
í framhaldi af umræðu sem varð vegna ákvörð-
unar Sveitarfélagsins Voga um að breyta aðal-
skipulagi í þá veru að Suðurnesjalína verði lögð
í jörðu.
Kristján sagði að Þórður Guðmundsson, for-
stjóri Landsnets, hefði veitt gagnlegar upplýs-
ingar og svarað fyrirspurnum nefndarmanna.
Kristján tekur undir þau orð forstjórans að
Landsnet geti ekki eitt og sér markað þá
stefnu að fara með jarðstrengi almennt í jörðu,
eins og staðan er nú. Það muni leiða til stór-
hækkaðs raforkuverðs í landinu, jafnt atvinnu-
lífs sem heimila, og leiða til hækkunar á verð-
lagi.
Fram hefur komið í áliti sem unnið var fyrir
Sveitarfélagið Voga að munur á kostnaði við
loftlínu og jarðstreng sé mun minni en Lands-
net hefur haldið fram enda gefnar aðrar for-
sendur um verð á landi. Kristján tekur fram að
fyrirhugað sé að óska eftir að fulltrúar Voga og
Almennu verkfræðistofunnar komi á fund
nefndarinnar til að skýra sína hlið.
helgi@mbl.is
Kostnaðarmunur enn of mikill
Atvinnuveganefnd Alþingis ræðir lagningu háspennulína í jarðstreng eða loft-
línu Formaður nefndarinnar segir jarðstrengi leiða til hækkunar á raforkuverði
Morgunblaðið/Einar Falur
Háspenna Alþingismenn ræða nú mismunandi
leiðir við flutning raforku hér á landi.
Saga verslunar Franks Michelsen á
sér langa sögu, sem hófst á Sauð-
árkróki 1909 þegar afi Franks og
alnafni hóf þar rekstur úraversl-
unar og -vinnustofu. Þrátt fyrir
ránið, og hið mikla tjón sem það
olli fyrirtækinu, segir Frank að fjöl-
skyldan ætli ekki að gefast upp.
Þriðji og fjórði ættliður Michelsen-
úrsmiða starfar á Laugavegi. Einn
sona Franks er úrsmiður og hinir
tveir starfa við verslunina.
Til marks um
þrautseigjuna
þá náði Frank
að ljúka viðgerð
á úri sem hann
vann við daginn
sem ránið var
framið. Lauk
samsetning-
unni um kvöldið
og skilaði hann úrinu af sér morg-
uninn eftir, eins og um var samið.
Láta ránið ekki stöðva sig
ÞRIÐJI OG FJÓRÐI ÆTTLIÐUR MICHELSEN-ÚRSMIÐA
Frank Michelsen
Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði og
Hornafjarðarbær verða hvort með
sína kröfuna um björgunarlaun vegna
björgunar flutningaskipsins Ölmu.
„Ég býst við að við verðum sitt með
hvora kröfuna, bærinn með sinn lög-
mann og við okkar. En þetta er rétt að
fara af stað,“ sagði Gísli Jónatansson,
framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar,
spurður út í málið. Loðnuvinnslan er
útgerð Hoffellsins sem dró Ölmu til
Fáskrúðsfjarðar. Laun vegna björg-
unar skipsins gætu numið háum fjár-
hæðum en um borð eru um 3.000 tonn
af frosnum fiski og hleypur verðmæti
hans á nokkrum hundruðum milljóna
kr.
Von var á mönnum frá erlendu
trygginarfélagi Ölmu til landsins í
gærkvöldi. Munu þeir líklega skoða
tjónið á skipinu í dag. ingveldur@mbl.is
Hvort með sína kröf-
una fyrir björgun