Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.10.2012, Qupperneq 6
HEIMURINN
EL SALVADOR
SAN SALVADOR Rúmlega 29
þúsund morð hafa verið framin
í El Salvador á undanförnum
sjö árum. Morðaldan á landinu
virðist þó í rénun því að á fyrstu
átta mánuðum þessa árs hafa
tvö þúsund morð verið framin.
Morðum á dag fækkaði úr 14
í 5,5 eftir að öflugustu glæpa-
gengin í landinu gerðu með sér
vopnahlé í mars. Sérfræðingar
óttast að vopnahléð geti verið
brothætt.
ÍRAN
TEHERAN Mótmæli brutust út í miðborg Teheran
í Íran vegna hruns íranska gjaldmiðilsins, ríalsins, sem
undanfarna viku hefur fallið um 40%
gagnvart Bandaríkjadollar. Hundruð
lögreglumanna voru í viðbragðsstöðu.
Vesturlönd beita nú Írana refsiaðgerðum
vegna kjarnorkuáætlunar þeirra.
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans,
kallaði gjaldmiðilskreppuna „sálrænt stríð“ af hálfu
vestursins gegn gjaldeyrismarkaðnum.
FILIPPSEYJAR
MANILA Gloira Arroyo,
sem var forseti Filippseyja frá
2001 til 2010, var handtekin
á fimmtudag fyrir fjársvik.
Henni er gefið að sök að
hafa dregið sér 8,8 milljónir
dollara úr ríkislottói landsins.
Ágóði þess rennur til góð-
gerðarmála. Arroyo, sem situr
á þingi, á einnig yfir höfði sér
kærur vegna kosningasvika í
kosningunum 2007 og spillingu
vegna breiðbandssamnings við
Kínverja sem fór út um þúfur.
GEORGÍA
TÍFLIS Framboðið Georgíski draumurinn
með auðkýfinginn Bidzina Ivanishvili í
fararbroddi sigraði óvænt í þingkosningum í
Georgíu í vikunni. Mikheil Saakashvili forseti
játaði sig sigraðan og hefur hlotið hrós fyrir
að taka ósigrinum með reisn. Þetta yrðu
fyrstu friðsamlegu valdaskiptin í sögu Georgíu.
Mitt Romney þótti ná sér á
strik í fyrstu kappræðum for-
setaframbjóðendanna á mið-
vikudag og standa sig mun
betur en Barack Obama.
„Romney náði að slá
Obama út af laginu með því
að seilast inn á miðjuna og
tala um hlutverk ríkisins í
samfélaginu,“ sagði Michael
Corgan, dósent í stjórn-
málafræði. Nú væri spurn-
ingin hvaða áhrif þetta
hefði á hægri væng
Repúblikanaflokksins,
hvort hann myndi kyngja
gallinu og mæta á
kjörstað eða
sitja heima.
H
versu lýðræð-
islegar eru kosn-
ingar í Bandaríkj-
unum? Eru áhrif
peninga komin út
fyrir öll mörk? Er reynt að hafa
áhrif á úrslit kosninga með því að
letja menn til að kjósa? Þessar
spurningar voru meðal efnis fyr-
irlestrar, sem Michael Corgan, dós-
ent í alþjóðasamskiptum við Boston
University í Bandaríkjunum, setti
fram í fyrirlestri í Háskóla Íslands á
föstudag.
Corgan sagði að kostnaður við
framboð yxi stöðugt. Til marks um
mikilvægi peninganna rifjaði hann
upp að Ronald Reagan hefði fyrstu
þrjú árin í embætti aðeins haldið
þrjá fjáröflunarfundi. Obama hefði á
fyrstu þremur árunum í embætti
haldið 194 slíka fundi. Romney hefði
meira að segja haldið fjáröfl-
unarfund í Ísrael.
Corgan sagði að allar flóðgáttir
hefðu opnast eftir að hæstiréttur
Bandaríkjanna úrskurðaði 31. jan-
úar 2010 að fyrirtæki, stéttarfélög
og hugmyndafræðileg samtök
mættu eyða að vild í auglýsingar
fyrir kosningar í máli sem höfðað
var eftir að samtökunum Citizens
United var meinað að sýna áróð-
ursmynd gegn Hillary Clinton í
kapalsjónvarpi. Í raun hefði meiri-
hluti dómsins sagt að fyrirtæki
væru fólk sem gæti eytt peningum
til að koma skoðunum sínum á
framfæri. „Fyrirtæki eru hinir nýju
kjósendur,“ sagði Corgan.
Peningarnir koma í gegnum svo-
kallaðar pólitískar aðgerðanefndir,
skammstafaðar PAC, og er talað
um áhrif slíkra ofurnefnda, Super
PAC. Corgan sagði að fyrir þing-
kosningarnar árið 2010 hefðu 84
hópar eytt 65 milljónum dollara.
Það sem af væri þessu ári hefðu 797
hópar eytt 349 milljónum dollara.
60% þeirrar upphæðar hefðu komið
frá 100 gefendum. Búast mætti við
því að aðgerðanefndirnar hefðu eytt
allt að milljarði dollara áður en
yfir lyki. Einu höftin á áróð-
ur þeirra væri að þær
mættu ekki lýsa yfir beinum
stuðningi við frambjóðendur
og yrðu að vera aðskildar frá
framboðinu. „Er þetta
lýðræði?“ spurði
Corgan.
Hann sagði að
til marks um peningana í pólitík
væri að sjónvarpsstöðin CBS gerði
ráð fyrir að tekjur hennar myndu
aukast um 180 milljónir dollara
vegna pólitískra auglýsinga í kring-
um kosningarnar.
Gert erfitt fyrir að kjósa
Corgan rakti einnig hvernig hreyf-
ingin True the Vote hefði sett svip
sinn á aðdraganda kosninganna með
kröfunni um að enginn fengi að
kjósa nema hann gæti sannað hver
hann væri með opinberum gögnum.
„Þeir hafa áhyggjur af kosninga-
svikum, en þó hafa engin alvarleg
tilfelli verið skráð,“ sagði hann.
Hingað til hafa þær reglur gilt að
kjósendur verði að skrá sig nokkru
fyrir kjördag til að geta kosið á
kjördag. Í Bandaríkjunum eru engin
opinber nafnskírteini og ekki eru
allir með ökuskírteini, sérstaklega
ekki í kjörnum stórborganna þar
sem íbúarnir hafa minnst á milli
handanna. Samtökin hafa verið sök-
uð um að hrella kjósendur í hverf-
um blökkumanna og íbúa af suður-
og mið-amerískum uppruna.
„Hverjum er verið að halda frá
kjörklefanum?“ spurði Corgan.
„Þessi herferð er líklegust til að
koma í veg fyrir að fátækir kjós-
endur fari á kjörstað og þeir eru
líklegri til að kjósa demókrata.“
Í flestum ríkjum Bandaríkjanna
eru úrslit kosninganna í raun ráðin
og þar verða kjósendur vart varir
við kosningabaráttuna. „Aðeins 13
ríki skipta máli og þar fer öll kosn-
ingabaráttan fram,“ sagði Corgan.
„Af þeim beinist mest athygli að
Ohio. Enginn repúblikani hefur unn-
ið í forsetakosningum án þess að
sigra í Ohio. Í raun er verið að
kjósa forseta Ohio.“
Peningar í
bandarískri
pólitík
DÓMUR HÆSTARÉTTAR BANDARÍKJANNA OPNAÐI FLÓÐ-
GÁTTIR FYRIR FYRIRTÆKI OG SAMTÖK TIL AÐ BEITA ÁHRIF-
UM SÍNUM Í BANDARÍSKUM STJÓRNMÁLUM. „ER ÞETTA
LÝÐRÆÐI?“ SPURÐI MICHAEL CORGAN DÓSENT Í FYR-
IRLESTRI UM KOSNINGARNAR.
Michael
Corgan
ROMNEY Á MIÐJUNA
Mitt Romney og Barack Obama heilsast í upphafi kappræðna þeirra í Denver í Colorado á miðvikudag. Þetta var
fyrsta viðureign þeirra af þremur og þótti Romney hvass og beittur, en Obama annars hugar og óundirbúinn.
AFP
* „Ofuraðgerðanefndir kunna að vera slæmar fyrirBandaríkin, en þær eru góðar fyrir CBS.“ Les Moonves, framkvæmdastjóri bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS, sem
gerir ráð fyrir 180 milljóna dollara tekjuauka vegna pólitískra auglýsinga.
Alþjóðamál
KARL BLÖNDAL
kbl@mbl.is
6 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 07. 10. 2012