Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.02.2013, Page 28
*Matur og drykkir Nú þegar hillir undir bolludag getur verið gott að glugga í gamlar og góðar bolluuppskriftir »32
Ó
löf Erla Ingólfsdóttir matartæknir ræður
ríkjum í eldhúsinu á Iðavelli, þar sem eld-
að er fyrir nærri 100 manns á dag, eftir
sameiginlegum matseðlum skólaeldhús-
anna á Akureyri. „Lýðheilsustöð hefur lagt línurnar til
að hollur og góður og ferskur matur sé á borðum.
Reynt er að halda sykri og salti í lágmarki, einnig
unninni matvöru. Þess er líka gætt að börnin fái pró-
tein, kolvetni og fitu í réttum hlutföllum,“ segir hún.
Fiskur er tvisvar í viku og kjötmáltíð jafn oft.
Fimmta daginn er eitthvað létt; skyr, pasta eða græn-
metisréttur. „Suma daga er maturinn orkuríkari en
aðra; það er hægt að leika sér með þetta á ýmsan
hátt, en hlutfall próteins, kolvetna og fitu jafnast út.“
Ólöf Erla hóf störf á Iðavelli 2006 og hóf þá að skrá
allt hráefni sem þurfti og allar uppskriftir. „Þá er
maður miklu fljótari að elda þegar fram í sækir, held-
ur en að smakka hlutina alltaf til! Þetta spurðist út og
skólayfirvöld vildu fá uppskriftirnar og nú eru þær
notaðar í öllum skólum og leikskólum.“
Börnin eru mjög dugleg að borða og fúlsa ekki við
neinu. Boðið er upp á morgunverð, hádegismat og síð-
degiskaffi. Ólöf segir að í hádeginu sé soðinn fiskur
með kartöflum og smjöri líkast til vinsælastur. „Ég er
líka dálítið með fiskrétti sem börnin eru mjög ánægð
með.“ Ólöf segir þau dugleg að borða grænmeti og
ávexti, og hún eldar nánast allt frá grunni. „Ég fæ að
vísu fiskfars hrært í hús af því að ég veit að það er
gott. Annars fæ ég allan fisk ferskan, líka kjöt og við
bökum sjálfar nánast alla brauð,“ segir Ólöf Erla.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
HOLLUR MATUR Í LEIKSKÓLUM Á AKUREYRI
Gott og næringarríkt
LEITAST ER VIÐ AÐ HAFA HOLLAN MAT Á BORÐUM Á IÐAVELLI EINS OG ÖÐRUM LEIK-
SKÓLUM AKUREYRAR. SYKUR, SALT OG UNNIN MATVARA ERU Í ALGJÖRU LÁGMARKI.
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is
Karen Irani og Lúkas Máni tóku hraustlega til matar síns í Iðavelli í vikunni.
Þegar blaðamaður kom í heimsókn á
Iðavelli í hádeginu á þriðjudaginn var
boðið upp á mexíkóskar kjötbollur sem
börnin borðuðu með bestu lyst. Voru
þó að smakka þær í fyrsta skipti. „Þetta
er ekki ósvipað öðrum bollum nema
hvað ég nota kanil og negul í þessar,“
segir Ólöf Erla matráður.
Mexíkóskar kjötbollur
500 g hakk
100 g laukur
50 g brauðmylsna
5 g hveitiklíð
1-2 tsk. salt
1 tsk. negull
1 tsk. kanel
Örlítill pipar
Örlítið vatn til að mýkja hakkið.
Öllu hrært saman, bollurnar mótaðar,
settar á bökunarpappír og bakaðar í
ofni. Borið fram með kartöflustöppu og
tómatmauki.
Ýsa með mangó og karrí
Þetta er dæmi um fiskrétt sem eru í
uppáhaldi hjá börnunum á Iðavelli:
2 ýsuflök roð- og beinlaus
Flökunum velt upp úr heilhveiti og sett í
eldfast fat.
Sósa á fiskinn:
1 dós sýrður rjómi
4 msk. mangómauk
1 tsk. hvítlauksmauk
1 tsk. karrí
½ tsk. salt
5 g kjúklingakraftur (½ teningur)
½ dl rjómi
Örlítið maísenamjöl til að þykkja
sósuna.
Kjúklingakrafturinn og annað krydd hit-
að í rjómanum, þá er mangómaukinu
bætt út í og sýrða rjómanum. Sett ofan á
flökin og bakað í ofni.
Borið fram með hrísgrjónum, salati og
e.t.v. hvítlauksbrauði.
Mexíkóskar
kjötbollur