Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.03.2014, Page 50

Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.03.2014, Page 50
Menning 50 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 30.3. 2014 D ans- og tónlistarverkið Á vit… var upphaflega samið og sýnt á Listahátíð í Reykjavík vorið 2012. Að sögn Sigrúnar Lilju Guðbjartsdóttur og Katrínar Hall, sem fylgdu hópnum utan, var tilurð Rússlandsfararinnar sú að tveir ólíkir aðilar höfðu bókað sýningar á verkinu. Var þar ann- ars vegar um að ræða listahátíð í borginni Norilsk, í hinu afskekkta Krasnoyarsk Krai- héraði í Síberíu, og hins vegar einkaklúbb efnameiri einstaklinga í Moskvu, en GusGus nýtur þar töluverðra vinsælda. Það voru því miklar andstæður sem biðu hins 15 manna hóps sem hélt héðan til Síberíu með viðkomu í Litháen. Ein mengaðasta borg í heimi og fyrrum hluti Gúlagsins Um 170 þúsund íbúar byggja Norilsk, sem liggur á 69° breiddargráðu jarðar. Svæðið er með eindæmum harðbýlt en vetur ríkir þar ríflega 2/3 hluta árs. Borgin er einnig ein sú mengaðasta sem fyrirfinnst, einkum sökum viðamikillar nikkelvinnslu á svæðinu, í bland við aðra málma og gas úr jörðu. Á tímabilinu 1935 og framundir 1960 náði hluti vinnubúða Stalíns, Gúlagið, inn til Norilsk. Er talið að um 500 þúsund fangar hafi látið þar lífið, ým- ist á leið sinni til svæðisins, af völdum vos- búðar eða erfiðisvinnu. Eftirlaunaaldur í borginni er í dag um 40- 45 ár að sögn Sigrúnar Lilju, og elliheimili fá sem engin. Var hópnum sagt að þegar fólk lætur af störfum, á fyrrnefndum aldri, flyst það oftar en ekki annað. Á meðan það er vinnufært getur það hins vegar þénað betur þarna en víða annars staðar í Rússlandi, sem kemur sér vel þegar haft er í huga að aðgangi til borgarinnar er mjög stýrt, sökum heilsu- spillandi aðstæðnanna. Ekki er hverjum sem er hleypt þangað inn.Varð hópurinn strax var við aukið eftirlit á flugvellinum í Moskvu en þar voru allir pappírar, vegabréfsáritanir og sérstök leyfi til Norilsk skoðuð gaumgæfilega, til viðbótar við hefðbundið eftirlit. „Þar áttaði maður sig fyrst vel á að maður var að fara eitthvað óvenjulegt,“ segir Sigrún og tekur fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi veitt hópnum ferðastyrk til Síberíu. Þær stöllur bera heimamönnum hins vegar vel söguna. „Við veltum svolítið fyrir okkur hverjir kæmu á sýninguna en maður sá ekki margt fólk á götum úti, enda 16 stiga frost,“ segir Katrín. Sigrún bætir við þeim hafi líka verið svolítið brugðið á leið sinni frá flugvell- inum, þar sem vart sáust merki um líf en yf- irþyrmandi fjöldi gasleiðslna og krana tók smám saman að birtast í kring, mitt í meng- unarmekki. Uppselt reyndist á báðar sýningar hópsins og viðtökur heimamanna fóru fram úr vonum. „Viðtökurnar í leikhúsinu voru alveg ótrúleg- ar. Verkið var sett upp tvisvar, fyrir fullu húsi, og áhorfendur þyrptust að sviðinu í lok hvorr- ar sýningar um sig, líkt og á tónleikum,“ segir Katrín. Alls dvaldist hópurinn í fjóra daga í Norilsk, við þokkalegt atlæti. Matur var reyndar fá- brotinn að sögn Sigrúnar og Katrínar – mikið til takmarkaður við soðið kjöt, rauðrófur og slíkt. Komu harðfisk- og hnetusmjörsbirgðir sem sumir höfðu haft með sér að heiman þar í góðar þarfir. Gestgjafarnir buðu hópnum upp á skoðunarferð þar sem m.a. var farið á safn um merka sögu Síberíu. Þá var einnig farið upp á hæð fyrir ofan borgina, þar sem finna má minnisvarða um öll trúarbrögð þeirra sem létu lífið þar í Gúlaginu. Verður sögunnar þar áþreifanlega vart að sögn Sigrúnar og Katr- ínar, og hafði borgin mikil áhrif á hópinn. GusGus-liðar segja annars langar og góðar stundir, sem hópurinn átti saman á hótelinu, í þar til gerðum hægindahornum með gervi- plöntum og pastellituðum gluggatjöldum, eft- irminnilegar. „Þar hlógum við og grétum ofan í vodkaflöskurnar og átum hreindýrapylsur. Svo blésum við lífi í harðgert menningarland Síberíufrerans,“ segja þeir Stephan, Högni og Daníel Ágúst. Bæta þeir við að Norilsk sé harðbýlasti staður sem þeir hafi komið til: „Ógeðsleg mengun og gufustrókurinn minnti okkur á Sultartanga í hundraðasta veldi.“ Farið öfganna á milli Eftir fjóra daga í Norilsk lá leið hópsins aftur til Moskvu, þar sem fyrirhugaðar voru tvær sýningar í glæsilegum einkaklúbbi þar í borg. Kvað þar við allt annan tón en í Síberíu og var ekkert til sparað, hvort sem varðaði aðbún- að, aðstoð við uppsetningu, mat, drykk eða ann- að. „Við höfðum sem dæmi beðið um aðstoð við að strauja búningana, en þá mætti ungur maður sem kom í ljós að starfaði sem búningahönnuður í Bolshoi-leikhúsinu,“ segir Sigrún létt í bragði. Að sögn Sigrúnar voru báðar sýningarnar í Moskvu boðssýningar. Var þeim síðar sagt að á meðal gesta hefðu verið margir þekktir ein- staklingar úr menningarlífi Rússa. Var gerður afar góður rómur að verkinu líkt og í Norilsk og það þótt áhorfendur hefðu verið af allt öðr- um toga og heldur tortryggnari í byrjun. Við- brögðin voru hins vegar ósvikin í lokin. Lýstu margir yfir ánægju sinni eftir á en Stephan úr GusGus þeytti skífum eftir sýningu langt fram eftir nóttu. Andhverfur í austri Á VIT…- HÓPURINN, SEM SAMANSTENDUR AF NOKKRUM GUSGUS-LIÐUM, DÖNSURUM ÚR REYKJAVÍK DANCE PRODUCTIONS OG FLEIRI AÐILUM, KYNNTIST TVEIMUR ANDSTÆÐUM HLIÐUM RÚSSLANDS Í OKTÓBER SÍÐASTLIÐNUM, ÞEGAR HÓPURINN KOM FRAM Í BORGUNUM NORILSK Í SÍBERÍU OG MOSKVU. HAFÐI HEIMSÓKNIN MIKIL ÁHRIF Á HÓPINN, EKKI SÍST SÍBERÍA, ÞAR SEM DANSAÐ VAR Á SLÓÐUM GÚLAGS STALÍNS, Í EINNI MENGUÐUSTU BORG VERALDAR. Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir gunnhildur@mbl.is Ljósmyndir/Ásgeir Helgi Magnússon PI PA R\ TB W A • SÍ A • 1 4 0 4 7 2

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.