Morgunblaðið - 04.07.2014, Qupperneq 26
26 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. JÚLÍ 2014
Þegar ég kynntist
Svend-Aage Malm-
berg fannst mér
sjórinn við landið
vera spennandi.
Jakob fann síldina, Eggert og
Garðar veiddu hana, í verstöðvum
vann fjöldi ungs fólks við hana og
ég var sumarstarfsmaður á Haf-
rannsóknastofnun, kominn í leið-
angur á Maríu Júlíu. Þar var
Svend með nýstárleg tól sem slak-
að var í sjó. Þetta voru bjartir
dagar. Við vorum samstarfsmenn
allt þar til hann lét af störfum,
reyndar hvor á sinni fræðaslóð en
oft lágu slóðirnar saman. Svend
nam fræðin í Kiel hjá Günter
Dietrich, einum þekktasta haf-
fræðingi eftirstríðsáranna. Að
loknu námi hóf hann störf hjá
Unnsteini Stefánssyni á Hafrann-
sóknastofnum. Í farteski hans
voru nýjar aðferðir og tæki til
rannsókna á litbrigðum sjávar.
Svend hóf einnig mælingar á
straumum við landið með ýmsum
tækjum, straumrekum (öndvegis-
súlum), straummælum sem
kenndir voru við frumkvöðulinn
Ekman og síðar með nútíma tækj-
um. Segja má að mikil tíðindi hafi
orðið í hafinu við Ísland á fyrstu
starfsárum Svend þegar hafís bar
að landi og aðstæður í sjónum
gjörbreyttust. Veðurfar snarkóln-
aði. Þetta tímabil, 1965-1970, er
nefnt hafísárin. Norðurlands-
síldin hvarf af miðunum og þjóð-
artekjur hrundu. Hafísárin komu
óvænt eftir um 45 ára hlýskeið og
ástand sjávar, sem og áhrif þess á
lífríkið í sjónum, varð þungamiðj-
an í rannsóknum Svend þó að
hann kæmi vissulega víðar við.
Ástandi sjávar lýsti Svend á
grundvelli mælinga á seltu og
sjávarhita, en þessir eiginleikar
ráða eðlismassa. Hann beitti í
raun klassískum aðferðum sem
uppruna eiga hjá þeim Fridtjof
Nansen og Björn Helland-Han-
Svend-Aage
Malmberg
✝ Svend-AageMalmberg
fæddist 8. febrúar
1935. Hann lést 25.
júní 2014. Útför
Svend-Aage fór
fram 3. júlí 2014.
sen. Þarna naut
þekking á sjógerð-
um og innsýn Svend
sér vel. Dag einn ár-
ið 1969 bauð Svend
mér að koma í kvöld-
kaffi í Hafnarfjörð
til þeirra Elísabetar.
Honum var mikið
niðri fyrir. Hann
hafði hugljómun um
það hvernig selta
sjávar ræður því
hvort ís myndast við kælingu
sjávar norðan Íslands eður ei.
Þetta skýrði hann fyrir mér ákaft
og ítarlega og niðurstöðuna: Að
öllu skipti hvort seltan væri ofan
eða neðan markanna 34,7. Mörg-
um árum síðar heyrði ég erlendan
haffræðing ræða lofsamlega þess-
ar skýringar og framsetningu
Svend. Minningin um kvöldstund-
ina í Hafnarfirði er mér ljúf og
ekki síður þótti mér gott að þiggja
bók frá Svend fyrir skemmstu,
það var ópus þeirra Helland-Han-
sen og Nansen frá 1909 um Nor-
egshaf. Svend hafði brennandi
áhuga á því hvernig eðlislægt
ástand í sjónum getur mótað líf-
fræðilegt samspil og haft áhrif á
útbreiðslu mikilvægra fiska, ný-
liðun í stofnum þeirra og afrakst-
ur. Hann skrifaði fjölmargar
greinar um efnið í blöð og tímarit.
Hann vildi að tekið væri mið af
ástandi sjávar við úttektir á fiski-
stofnum við landið. Hann sá hafið
við Ísland í stóru samhengi og var
alla tíð öflugur og vel metinn í sjó-
fræðinefnd Alþjóða hafrann-
sóknaráðsins, ICES. Sá vettvang-
ur var hornsteinn í starfi hans og
veitti ICES honum viðurkenn-
ingu í Edinborg haustið 2001. Nú
er kveðjustundin runnin upp. Við
Sigrún vottum fjölskyldu Svend
dýpstu samúð og deilum með
henni minningu um góðan dreng.
Vertu sæll og ljósinu falinn.
Jón Ólafsson
Mér var verulega brugðið er
Gunnar tjáði mér að vinur og fyrr-
um samstarfsmaður okkar á
Hafró, Svend, væri látinn, en
hann lést þá um nóttina. Þeir
Svend, Gunnar og Guðni heitinn
höfðu allir hlotið sína menntun í
Þýskalandi og höfðu þekkst lengi
áður, en ég kynntist þeim fyrst er
ég fór að vinna á Hafró, frábærir
drengir. Að vísu hafði ég hitt
Svend í Bergen í Noregi er ég
stundaði þar nám og hvatti hann
mig til að sækja um starf á Hafró
að því loknu, sem ég og gerði og
fékk starfið. Við náðum vel saman
og unnum okkar starf með vin-
semd og virðingu hvor fyrir öðr-
um. Svend var mjög víðsýnn mað-
ur, viðkvæmur í lund, en gat þó
verið þrjóskur þegar við átti og
vildi standa við sitt. Hann var létt-
ur í skapi, félagsvera og gat hlust-
að og leitað þekkingar til annarra
þegar við átti. Hann var frábær
vísindamaður, skrifaði fjölmargar
vísindagreinar, tók þátt í mörgum
nefndum á vegum ICES og fékk
þar viðurkenningu, enda með
þeim betri í sínu fagi sem haf-
fræðingur, án þess að varpa
skugga á aðra. Svend hlaut einnig
Fálkaorðuna fyrir störf sín og var
vel að henni kominn. Svend og
eiginkona hans Elisabeth eignuð-
ust þrjú glæsileg börn er hlutu
góða menntun og voru ætíð hjálp-
leg föður sínum eftir að móðir
þeirra lést. Tekið var eftir því
hvað Svend var duglegur að heim-
sækja börnin þó að um langan veg
væri að fara og nú í ár ferðaðist
hann til Svíþjóðar að heimsækja
dóttur sína sem þar býr. Ég
hringdi í Svend síðasta daginn
sem hann lifði og ræddum við
lengi saman um ýmislegt sem
varðar lífið og tilveruna. Þá sagð-
ist hann hafa verið í brúðkaupi og
útskrift og væri að fara daginn
eftir til Akureyrar í skírnarveislu.
Hann komst ekki þangað því hann
kvaddi þennan heim þá um nótt-
ina. Þetta viðtal okkar á ég í minn-
ingu um góðan dreng og vin og
mun varðveita það.
Svend var ekki við góða heilsu
undir lokin, átti erfitt með gang,
en var alltaf bjartsýnn og vildi lifa
lífinu lifandi og sagði stundum við
mig: „Ég skal ná því að vera 80
ára Sóli minn, sannaðu bara til,“
en örlögin gripu hér inn. Maður er
víst kominn á þann aldurinn að
margir vinir og ættingjar hverfa á
braut og þetta er víst gangur lífs-
ins, en samt kemur það manni
alltaf að óvörum og harmurinn því
samfara og því getur góð vinátta
hjálpað til.
Spámaðurinn Kahlil Gibran
segir: „Hin leynda uppspretta sál-
arinnar á að brjótast fram og
renna til sjávar. Og perlur þinna
ómælisdjúpa eiga að birtast í aug-
um þínum. En leggðu hina
óþekktu dýrgripi þína ekki á
metaskálar. Og kanna þú ekki
dýpi þekkingar þinnar með staf
eða kvarða, því að haf sálarinnar á
sér engin takmörk.“
Við vottum börnum, ættingjum
og vinum Svend innilegustu sam-
úð okkar við fráfall hans og megi
minning um góðan dreng lengi
lifa.
Sólmundur og Astrid.
Merkur vísindamaður hefur nú
kvatt okkur. Ég kynntist Svend-
Aage í starfi mínu sem ungur
maður á Hafrannsóknastofnun
fyrir mörgum árum. Það voru
einkum sjóferðirnar á rannsókna-
skipinu Bjarna Sæmundssyni
sem gáfu tækifærið að læra á
strauma og sjógerðir hafsins við
landið undir leiðsögn Svend-
Aage. Í hafrannsóknaleiðöngrum
umhverfis Ísland og langt norður
af landinu kom fram viðamikil
þekking hans á náttúrunni sem
hafið er og einnig var fátt sem
kom honum á óvart í því efni.
Hann hafði fágætan skilning á
eðlisfræði hafstrauma og var
áræðinn í skipulagningu og fram-
kvæmdum leiðangra til þess að
kanna fáfarnar slóðir með nýjum
tækjum með það fyrir augum að
auka skilning á eðli hafsins um-
hverfis landið. Það voru mikil for-
réttindi að starfa með Svend-
Aage í slíkum ferðum. Innsýn
hans var rík og skapaði alltaf frjó-
ar umræður um náttúru hafsins
og umhverfi lífríkis og fiskjar.
Djúpsjávarmyndun norður af
Íslandi er hluti af straumakerfi
heimshafanna og framlag Svend-
Aage til aukins skilnings á þeim
ferlum var mikilvægt. Nákvæmar
og reglulega endurteknar sjó-
mælingar hafa sagt sögu náttúr-
unnar sem Svend-Aage var sífellt
að segja okkur hinum og túlka í
margvíslegum útgáfum. Trúlega
merkasta framlag hans til hafvís-
indanna var sú uppgötvun að
rekja mátti sveiflur í seltulág-
marki í straumkerfi norðurhafa í
mörg ár, eða miklu lengri tíma og
vegalengdir en menn áður héldu.
Þannig setti hann ströng takmörk
á hugmyndir manna um blöndun-
arhæfni hafsins sem voru að þróa
reiknilíkön til að skýra strauma
heimshafanna á sínum tíma.
Svend-Aage hefur fengið marg-
víslegar viðurkenningar frá al-
þjóðasamfélagi hafvísindamanna
fyrir frumkvöðlastarf sitt á norð-
urslóðum.
Mér veittist sú ánægja að fá að
starfa með Svend-Aage í mörg ár
og margs er að minnast sem gerir
lífið svo miklu stærra og ríkara en
annars hefði orðið og er ég þakk-
látur fyrir það. Guð blessi minn-
ingu Svend-Aage.
Stefán Sólmundur
Kristmannsson.
Kveðja frá
Hafrannsóknastofnun
Svend-Aage Malmberg haf-
fræðingur er fallinn frá. Hugur-
inn hvarflar til liðinna áratuga
með þessum gengna eldhuga sem
helgaði haffræðinni og þekkingar-
leit um eðli strauma og lífríkis á
Íslandsmiðum alla starfsævi sína.
Svend-Aage var sannkallaður
þjónn síns litla lands, hafði hug-
fast hve mikilvægt er að þekkja
umhverfi hafsins og aðstæður svo
land okkar geti eflst og þróast.
Svend-Aage Malmberg fædd-
ist í Reykjavík 8. febrúar 1935.
Hann útskrifaðist frá Mennta-
skólanum í Reykjavík 1955, hélt
utan til náms og lauk doktorsprófi
í hafeðlisfræði við hHáskólann í
Kiel árið 1961. Áður hafði hann þá
átt þess kost að starfa í hlutastarfi
við hafrannsóknir við fiskideild
Atvinnudeildar Háskóla Íslands
og þar réð hann sig til starfa árið
1962. Hann var síðar í hópi starfs-
manna Hafrannsóknastofnunar
þegar hún var sett á stofn árið
1965 og starfaði þar uns hann lét
af störfum fyrir aldurs sakir.
Eftir að undirritaður kom til
starfa í yfirstjórn Hafrannsókna-
stofnunar tókum við Svend oft tal
saman um sérsvið hans, hafeðlis-
fræðina, sem sannarlega hafði
tekið miklum framförum þar und-
ir hans forystu. Gagnstætt við
fiskirannsóknirnar eiga hafeðlis-
fræði og aðrar rannsóknir á vist-
kerfi hafsins sér færri talsmenn
en útheimta þó mikil útgjöld. Var
því oft á brattann að sækja að
koma verkefnum í kring á þessu
sviði. Staðfesta Svend og áhersla
hans á gildi haffræðinnar fyrir
skilning okkar á auðlindinni fól í
sér þarfa áminningu um að ekki
verður hjá því komist fyrir
sjávarútvegsþjóð að verja tíma og
fjármunum til vöktunar og rann-
sókna á þessu sviði.
Svend-Aage miðlaði ötullega af
þekkingu sinni í ræðu og riti og
var hann afar virkur þátttakandi í
alþjóðlegu samfélagi hafeðlis-
fræðinga. Athuganir hans á
breytingum sem urðu á hafísár-
unum og árunum þar á undan
nutu mikillar athygli. Slíkar rann-
sóknir gera okkur m.a. betur
kleift að henda reiður á þeim
miklu umhverfisbreytingum sem
orðið hafa á Íslandsmiðum nú á
síðustu árum.
Svend-Aage gegndi ýmsum
trúnaðarstörfum hér heima og er-
lendis og naut hann viðurkenning-
ar samstarfsmanna og hlaut ridd-
arakross hinnar íslensku
fálkaorðu árið 2003 fyrir framlag
sitt til haffræðirannsókna. Fyrir
okkur á Hafrannsóknastofnun
var hann líka afar góður félagi og
þær voru ófáar hugvekjurnar um
hafið og önnur mál sem Svend
flutti okkur samstarfsfólkinu sem
efldu andann og settu ánægjuleg-
an blæ á starfsumhverfi okkar.
Samstarfsfólkið og viðfangsefnin
á Hafrannsóknastofnun voru hon-
um hugleikin enda kom hann
þangað daglega löngu eftir að
formlegu starfi lauk.
Svend verður minnst fyrir mik-
ilvægt framlag til þekkingar á
haffræði Íslandsmiða.
Með þessum orðum vill undir-
ritaður votta Svend-Aage Malm-
berg virðingu og þökk okkar sem
störfuðum með honum á Hafrann-
sóknastofnun um leið og fjöl-
skyldu hans eru sendar innilegar
samúðarkveðjur.
Jóhann Sigurjónsson.
„Úr djúpinu ákalla ég þig
Drottinn … Ég vona á Drottin, sál
mín vonar, hans orðs bíð ég.“ Svo
segir í 130. Davíðssálmi.
Dr. Svend-Aage haffræðingur
þekkti hafdjúpin vel, einkum
Atlantshafsála, eðlisgerð þeirra,
seltu og strauma, og var mikils-
virtur innan lands sem utan fyrir
hafrannsóknir sínar. Haffræðing-
ar hafa beinlínis rætt um haf-
svæði austur af Íslandi sem
Malmbergssvæðið. Svend-Aage
rýndi þó jafnframt í djúpin með
öðrum hætti en hægt er með mæl-
ingaraðferðum vísinda. Hann
hugleiddi tilveruundur og lífs-
vefnaðinn og leitaði svara í list-
rænni skynjun og trúarhugsun.
Hann fann til þess hve gagntæk
lífsreynsla gleði og sorgar ristir
djúpt, snertir kviku við mæri lík-
amlegs lífs og fær glætt næmi fyr-
ir veru manns, sál og anda. Missir
ástkærrar eiginkonu, Elísabethar
Pálsdóttur, frá þremur börnum
þeirra á bernsku- og unglings-
aldri, Ingileifi, Kristínu List og
Páli Jakobi, var honum sár en
trúarvonin huggaði og glæddi
innri sýn út fyrir jarðnesk viðmið
og þröngan sjónhring. Svend-
Aage tengdist kirkju sinni og
ræktaði trúna á Guð í Jesú nafni í
helgihaldi hennar. Hann gerðist
sóknarnefndarmaður Hafnar-
fjarðarkirkju á þeim tímamótum
er horft var til þess að byggja
safnaðarheimili við hana og studdi
mig vel í því baráttumáli og öðr-
um er til framfara leiddu sem ég
af hjarta þakka. Hann fagnaði því
að sjá heimilið, er fékk nafnið
Strandberg, rísa og verða að fag-
urri grein af stofni kirkjunnar og
safnaðarstarfið vaxa og blómgast.
Svend-Aage lagði sig fram um að
hlúa vel að börnum sínum og
rækta með þeim Guðstrú og
ábyrga lífsafstöðu og þakkaði lífs-
farnað þeirra. Hann gladdist
mjög yfir því að Ingileif dóttir
hans vígðist til prests. Fyrr hafði
hún gifst Þórhalli Heimissyni
guðfræðinema í Hafnarfjarðar-
kirkju, sem síðar varð prestur og
sóknarprestur hennar. Fræði-
greinar Svend-Aage um sjó og
strauma vottuðu mikla sérfræði-
þekkingu hans en einnig auðmýkt
gagnvart reglufestu sköpunar-
verksins, sem ekki mætti raska til
ófarnaðar en virða bæri til lífs-
heilla. Þungur undirstraumur
fólst í blaðagreinum hans um
fræði sín, náttúruvernd og fé-
lagsmál, er bar með sér þrá til
réttláts samfélags þar sem lífs-
virðing, samhjálp og samkennd
ríktu í anda frelsarans. Svend-
Aage var tilfinninga- og skaprík-
ur. Hann reyndi sviptingar, öldu-
brot og storma á sjó og lífssigling-
unni en var jafnan hjartahlýr.
Síðustu æviárin átti hann athvarf
í Höfn í Hafnarfirði og þótti miður
að holskeflur skullu á henni.
Fundum okkar bar síðast saman á
fundi um hag þeirra sem þar voru
heimilisfastir. Svend-Aage hafði
mjög tapað þreki og heilsu en
hvatti sem fyrr til réttlætis og
sanngirni með glampa í augum.
Sigling hans til að rannsaka haf-
djúp og strauma í sýnilegum
heimi er á enda en einlæg þrá
hans um skilning á sálardjúpum
og lífsundrum fær nú svör og svöl-
un í himneskri höfn við bjarma
aftureldingar upprisudags í frels-
arans nafni. Guð blessi minningu
Svend-Aage og launi honum
tryggð hans við Krist og kirkju og
lýsi ástvinum hans leiðina fram.
Gunnþór Ingason.
Mikilhæfur vísindamaður er
fallinn í valinn. Gagnmerkt ævi-
starf Svend-Aage Malmberg á
sviði hafrannsókna varð mikið að
vöxtum. Hann sinnti jöfnum
höndum þremur helstu þáttum
rannsókna; athugunum og mæl-
ingum, úrvinnslu gagnanna og
túlkun eða kenningasmíð. Í
starfsminningum sínum fjallar
hann um breytingar á eðlis-
ástandi sjávarins við Ísland á 20.
öld, sér í lagi svonefnd hafísár
1965-1971 og upptök hita- og
seltuferils almennt í sjónum um-
hverfis Ísland. Upptök þessara
sveiflna á hafísárunum voru rakin
allt norður í Íshaf og Framsund.
Síðan skiluðu áhrif hins kalda og
seltusnauða pólsjávar sér um allt
norðanvert Norður-Atlantshaf og
að lokum að sunnan inn í Norð-
urhaf á tímabilinu frá sjöunda
áratug 20. aldar til upphafs hin ní-
unda.
Var þessi mikla hringrás kölluð
„seltufrávikið mikla“. Svend-
Aage var meðhöfundur að frægri
ritgerð um þessa fjórtan ára
hringferð um norðanvert Norður-
Atlantshaf. Segir Svend-Aage síð-
an: „Ástand sjávar á norðurmið-
um var nú kennt við „svalsjó“ sem
birtist þannig sem þriðja aflið á
eftir „hlýsjónum“ og „pólsjónum“
hvað varðar ástand sjávar á upp-
eldis- og fæðuslóð þorsks á norð-
urmiðum.“
Svend-Aage stjórnaði ótal leið-
öngrum á íslenskum hafsvæðum.
Ég átti því láni að fagna að fljóta
með í um það bil tylft leiðangra
þar sem hann var leiðangurs-
stjóri. Ég kynntist honum því vel
og tókst með okkur vinátta. Á
vegum Veðurstofu Íslands var ég
þátttakandi (hafís og víxláhrif
hafs og lofts) í svonefndu Græn-
landshafsverkefni (Greenland
Sea Project) 1987-1991 og Evr-
ópska norðurhafaverkefni (Euro-
pean Sub-Polar Ocean Project
(ESOP I og II)) sem einnig stóð í
mörg ár þar sem farnir voru ár-
legir leiðangrar. Stjórnaði Svend-
Aage gjarnan hinu íslenska fram-
lagi í þessum alþjóðlegu rann-
sóknaverkefnum. Margs er að
minnast frá sjóferðunum. Svend-
Aage var röggsamur og lipur
stjórnandi og fékkst ómetanlegur
fengur upplýsinga og gagna sem
síðan var unnið úr smám saman
strax og færi gafst.
Þótt Svend-Aage væri einarður
og vel skipulagður við sín vísindi
var síður en svo að hann leiddi
ekki hugann að öðru. Hann var
fræðari í eðli sínu og skrifaði at-
hyglisverðar og greinargóðar
greinar fyrir almenning, í blöð og
tímarit, um hafrannsóknir og
náttúruvernd. Hann hafði sínar
skoðanir á þjóðmálum og lét til sín
taka. Svend-Aage var trúmaður
og ófeiminn að láta það í ljós.
Frá því er við lukum störfum
fyrir nokkrum árum skiptumst
við á jólakveðjum og er við hitt-
umst á málþingum voru fagnaðar-
fundir. Kveð ég nú með söknuði
eftirminnilegan samferðamann
með þakklæti fyrir löng og góð
kynni. Við hjónin vottum skyld-
mennum samúð í söknuði þeirra.
Blessuð sé minning Svend-Aage
Malmberg.
Þór Jakobsson.
HINSTA KVEÐJA
Afi okkar, elsku Svend-
Aage Malmberg, kvaddi
okkur miðvikudaginn 25.
júní. Afi Svenni var húm-
oristi, heimspekingur, haf-
fræðingur og góður afi!
Núna er afi Svenni samein-
aður ömmu Elísabethu,
glaður og dansandi. Við
söknum þín, hvíldu í friði,
elsku afi Svenni.
Rut Malmberg og Ýmir
Aage Malmberg.
Jón Her-
mannsson fæddist
12. ágúst 1924 á
Glitstöðum í Norð-
urárdal en flutti
barn að aldri í Borgarnes ásamt
móður sinni, Sigríði Jónsdóttur
frá Einifelli, og yngri systur, Est-
er Mörtu, í upphafi efnahags-
kreppunnar miklu. Kjörin voru
kröpp en Sigga var einstakur
dugnaðarforkur og sá fyrir heim-
ilinu með þrotlausri vinnu.
Nonni var enn á unglingsárum
þegar hann réð sig til vegavinnu
og síðan annarra starfa og hagur
heimilisins breyttist til hins betra.
Kaup voru fest á litlu húsi við Eg-
ilsgötu, sem nú er horfið, og þang-
að fluttu systkinin ásamt móður
sinni. Í minningu minni var húsið
við Egilsgötu þó ekki lítið, það var
höll menningar og gestrisni sem
birtist á margvíslegan hátt á vist-
legu heimili þar sem pönnukökur
ilmuðu og sagnaarfur ævintýra og
þjóðsagna varð ljóslifandi. Árin
liðu og Nonna biðu önnur störf.
Síðari hluta starfsævinnar eyddi
hann hjá Sparisjóði Mýrasýslu
þar sem hann varð aðalféhirðir og
Jón Hermannsson
✝ Jón Her-mannsson
fæddist 12. ágúst
1924. Hann lést 26.
apríl 2014. Útför
Jóns fór fram 6.
maí 2014.
fjölskyldan flutti sig
um set í fallegt hús
við Skúlagötu.
Nonni var á allan
hátt einstakur mað-
ur, traustur, vand-
aður og fágaður og
auk þess fjölhæfur
námsmaður. Á hefð-
bundinni langskóla-
göngu voru engin
ráð en það bætti
hann sér upp með
sjálfsnámi af fágætri einurð.
Hann varð víðlesinn um lönd og
lýði, lagði sérstaka stund á
tungumál og varð mæltur á
margar erlendar tungur. Það gilti
einu hvað hann lagði fyrir sig,
öllu var sinnt af stökustu alúð
hvort sem það var nám, störf eða
samverustundir með fjölskyldu
og vinum. Ester og Nonni sinntu
börnum og unglingum í kringum
sig á óviðjafnanlegan hátt og
þreyttust hvorki á að gleðja né
fræða. Þau voru vinmörg og vin-
áttan var bundin þeim böndum
sem endast til síðustu stundar.
Vonandi auðnast okkur sem feng-
um að njóta samverunnar að bera
arfleifð þeirra áfram.
Að leiðarlokum kveð ég Nonna
með söknuði og þakklæti fyrir
allan þann tíma sem mér hlotn-
aðist í návist hans, Esterar og
Siggu. Blessuð sé minning þeirra.
Gunnvör Sigríður
Karlsdóttir.