Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.08.2014, Blaðsíða 40
40 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.8. 2014
B
árðarbunga er ofarlega í huga núna.
Hún er í senn spennandi og ógnvæn-
leg; stórbrotin eldstöð undir fargi
Vatnajökuls. Vísindamenn reyna að
geta í hinar mörgu eyður sem eru í
spám um hvort gos verður núna, eða
síðar, hvar kvikan sem upp kann að koma muni þá
bera niður og þar fram eftir götunum. Sagan gefur
vísbendingar, hún sýnir hegðunarmynstur þessa
dyntótta ógnvalds, sem hefur ræskt sig að und-
anförnu, en ekki öskrað enn. Jarðhræringarnar, stærð
þeirra, staðsetning og dýpt fyllir svo inn í mynd sög-
unnar.
Hamfarir og hvað svo
Stórhlaup í Jökulsá á Fjöllum gæti eyðilagt Herðu-
breiðarlindir sagði í frétt hér á bæ. Hún sem er eins og
undursmá Paradís, vin í eyðimörkinni norðan jökuls-
ins mikla, er hvergi annars staðar til og verður aldrei
endursköpuð. Sú hugleiðing minnir á ógnarmátt eyði-
leggingarinnar sem stórgosi í Bárðarbungu gæti fylgt.
En svo undarlega sem það hljómar getur dýrðleg
fegurð ekki aðeins glatast heldur einnig fylgt í kjölfar
hamfara af þessu tagi. Ásbyrgi er eitt undurfagurra
ummerkja átaka náttúruaflanna. Kannski Dettifoss
líka.
Við vitum náttúrlega öll að Ásbyrgi varð til þegar
Sleipnir, hinn áttfætti fákur Óðins, drap einum þeirra
niður einmitt þarna. Það gerðist fyrir nokkrum árþús-
undum. Þessar tvær staðreyndir um tilveru Ásbyrgis
fara vandræðalaust saman, önnur á rót í ímyndunar-
aflinu sem er ofurkraftur, sem enginn skyldi vanmeta,
og hin í þeim fróðleik sem skráður er og getið um hér
að framan.
Útdauð eldfjöll og upprisa
Virkum íslenskum eldfjöllum hefur fjölgað nokkuð
síðustu áratugina, ef miðað er við það sem haldið var
að ungmennum í kennsluefni frá yfirvöldum náms-
gagna. Þar var gjarnan við það miðað að eldfjöll sem
ekki höfðu gosið frá landnámi væru útdauð fjöll og ein-
göngu til prýði í landinu og til að þyngja efni landa-
fræðinnar. Nú er ekki slíku að heilsa lengur. Surtsey
bætti sér óvænt í hóp eyjaklasans suður af landinu og
10 árum síðar opnaðist jörðin í bæjarjaðrinum á
Heimaey sjálfri. Það var stundarfjórðungi fyrir 2 að-
faranótt 23. janúar 1973. Aldrei hefur önnur eins vekj-
araklukka glumið nokkrum bæ á Íslandi og Vest-
mannaeyjum þessa nótt þegar eldstöðvar lýstu upp
bæinn í svartasta skammdeginu. Það gat ekki verið á
verra von en þessu. En það glitti í mikið lán í þessu
óláni. Veður var stillt, sem ekki var að vænta á þessum
árstíma. Flotinn var allur í höfn og þótt tjón yrði gíf-
urlegt björguðust allir. Það varðaði mestu. Mjög var
óttast að einmitt höfn þessarar miklu verstöðvar
kynni að eyðileggjast og þá hefði ekki þurft um að
binda, hvað framtíð búsetu þar varðaði. En þegar eld-
ar lögðust loks í dróma á ný varð ekki betur séð en að
hafnarskilyrðin hefðu batnað. Og þótt maðurinn megi
sín lítils tókst að hafa nokkur áhrif á hraunstrauminn
þarna. Og fjórða lánið og ekki það minnsta var að
þjóðin þjappaði sér um eyjaskeggja í andróðri þeirra.
Eldfjallamánuðir eru langir
Meðgöngutími margra eldfjalla þykir kunnur en gæta
verður þess að tímaskali þeirra er annar en jafnan er
notast við. Þannig hefur verið beðið eftir Kötlu í tæpa
hálfa öld.
Bréfritari minnist þess að hafa verið farþegi í troð-
fullum fólksbíl árið 1967 þegar haldið var í austurátt
frá Vík. Þegar komið var nokkuð fram fyrir Hjörleifs-
höfða sagði bílstjórinn upp úr eins manns hljóði: „Ef
að springur á honum mun ég keyra á sprungnu þar til
við erum komin yfir sandinn.“ Þegar spurt var af
hverju í ósköpunum hann ætlaði að gera það, var svar-
ið þetta: „Katla er komin á tíma.“
Einhverjir hafa haldið því fram að gosin fyrir Suður-
landi 1963 og 1973 kunni að hafa létt á Kötlu, en ekki
verður farið nánar út í vangaveltur um það. Og fröken
Katla er ekki ein um að vera langt gengin og jafnvel
komin á tíma. Systir hennar, fröken Hekla hin fríða og
fræga, er það örugglega líka.
Páll Einarsson jarðfræðingur nefndi í gær að hún
hefði verið í startholunum í 14 ár eða allt frá gosinu
sem varð árið 2000. Þá tókst að vara menn við að gos
væri í vændum innan stundar. Páll segir að alls ekki sé
öruggt að það megi takast næst, þegar að sú drottning
gýs. Páli þykir því mjög óvarlegt að flugvélar fljúgi
beint yfir Heklu, en á einum degi í þessari viku flugu
19 vélar beint yfir eldfjallið, þar af 17 farþegaþotur,
ein einkaþota og ein fraktflutningavél. Ekki hafi mátt
miklu muna að illa færi í Heklugosi 17. ágúst 1980.
Fjall listaskáldsins
En litlu vestar er svo Skjaldbreiður (í karlkyni ólíkt
Herðubreið) og lætur lítið yfir sér, þótt hann sé nokkr-
um metrum hærri en sjálf Esjan. Þeir sem eru litlir
fjallgöngumenn, en vilja gjarnan geta sagt ókunnugum
að þeir hafi „klifið“ svo hátt fjall, ættu að koma við á
Skjaldbreiði á sumardegi. Því þótt Jónas Hallgrímsson
segist ríða og „háan Skjaldbreið skoða“ er það eins og
að rölta upp notalega brekku að ganga á hann. En þeg-
ar upp er komið er fagurt víðsýni af honum til margra
átta og gígurinn, 300 metrar í þvermál eða svo, mynd-
rænn og áhrifamikill. Skjaldbreiður (sumir segja að
Jónas hafi ákveðið kynið með kvæði sínu) varð til 8.000
árum fyrir landnám og er því vonandi kulnað eldfjall
núna. Því þegar hann gaus í sitt fyrsta og eina sinn
gekk mikið á að sögn Jónasar:
Titraði jökull, æstust eldar,
öskraði djúpt í rótum lands,
eins og væru ofan felldar
allar stjörnur himna ranns;
eins og ryki mý eða mugga,
margur gneisti um loptið fló;
dagur huldist dimmum skugga,
dunaði gjá og loga spjó.
Belja rauðar blossa móður,
blágrár reykur yfir sveif,
undir hverfur runni, rjóður,
reyni-stóð í hárri kleif.
Blómin ei þá blöskrun þoldu,
blikna hvert í sínum reit,
höfði drepa hrygg við moldu –
himna drottinn einn það leit.
Er ekki Bárðarbunga
„ógnarskjöldur
bungubreiður“ og
„ber með sóma
rjettnefnið?“
Reykjavíkurbréf 22.08.14