Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.08.2014, Blaðsíða 41
Vötnin öll, er áður fjellu
undan hárri fjalla þröng,
skelfast, dimmri hulin hellu,
hrekjast fram um undirgöng;
öll þau hverfa að einu lóni,
elda þar sem flóði sleit.
Djúpið mæta, mest á fróni,
myndast á í breiðri sveit.
Og rétt eins og í tilfelli Ásbyrgis hafa hin hrikalegu
umbrot og tryllingur nátúrunnar ekki einvörðungu
farið eyðandi höndum um það sem fyrir varð, þegar
jörð skalf og eimyrjan stóð upp úr Skjaldbreið. Þar
urðu til, með þúsunda ára þróun, Þingvellir og vatnið
sem við þá er kennt og umhverfið allt. Mörgum þykir
að þeir hafi ekki litið fegurri stað en þar.
Og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson leyfir
sér kannski þess vegna að kalla önnur öfl til sögunnar
til hliðar við hin:
Hver vann hjer svo að með orku?
Aldrei neinn svo vígi hlóð:
búin er úr bála-storku
bergkastali frjálsri þjóð.
Drottins hönd þeim vörnum veldur;
vittu barn! sú hönd var sterk;
gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk.
Ímyndunarafl snillinga
Hannes Hafstein skrifar fyrsta æviágripið um Jónas
Hallgrímsson og birtir það sem undanfara Ljóðmæla
og annarra rita sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf
út árið 1883.
Hannes lýkur því með þessum orðum: „Þegar menn
koma framan Öxnadal, sjá þeir dranga bera við himin,
háan og snarbrattan, eins og turn. Það er sagt að gull-
kista sje uppi á honum, og sá megi eiga sem nái. Þegar
lengra dregur úteptir, sjest tún og bær innan um
grjótið undir fjallinu. Það er Hraun, fæðingarstaður
Jónasar.“
„Grjót og Hraun,“ hvaða mann hljóta þau tvö orð að
kalla fram? Auðvitað Jóhannes S. Kjarval. Hraun voru
ekki vel þokkuð af fólki í strjálbýlu landi og óþjálu til
ferðalaga. Mörg þeirra, einkum apalhraunin, þóttu
ófær fyrir aðra en fuglinn fljúgandi. Óvættir voru þar
vísast og kannski útlegumenn á flótta.
En Jóhannes Kjarval gerði sér mat úr hrauninu og
hreifst af stórgerðri fegurð þess og gaf því lit og líf. Og
málarinn mikli gerði meira en að mála og að gefa Erró
12 ára pensla og liti. Hann skrifaði og gaf út bækur:
Grjót og Meira grjót. Grjót kom út árið 1930 og var
öðru vísi en aðrar bækur. Þar flutu með ævintýri sem
Kjarval hafði skrifað á árunum 1907 og 1908 og marg-
víslegar hugleiðingar, svo sem um skipulagsmál.
Kjarval skrifar Eftirmála bókarinnar og birtir hann
auðvitað fremst í henni. Hann segir þar að hann „tali
líka dálítið um ástina, það væri nú kannski óþarfi, en
einhvernveginn fanst mér það nú eiga við – fanst efnið
þurfa einhvern stuðning, frá þeim þektu orðatil-
tækjum, fanst orðin og málið fá dálítinn huliðheimablæ
við það, fanst stíllinn verða svolítið ævintýralegri við
það, en of mikið grjót annars.“
Og í þessari bók á blaðsíðu 25 er eins og Kjarval sjái
Perluna fyrir sér: „Einu sinni þegar einn smiður ætlaði
að biðja guð afsökunar á, að hann hefði haft áhrif á
verk mannanna, þá varð náttúran fyrri til og var búin
að gefa honum margar merkilegar hugmyndir, áður en
hann var búinn að bera fram afsökunina. Merkilegasta
hugmyndin var að byggja höll og musteri inn á Öskju-
hlíð. Átti að þekja musterishliðarnar spegilhellum, svo
norðurljósin gætu nálgast fætur mannanna – átti að
skreyta þakið kristöllum allavega litum, og ljóskastari
átti að vera efst á mæninum, sem lýsti út um alla
geima. Húsið sjálft átti að svara birtu dagsins og tákn-
um næturinnar. Hjelt smiðurinn, að þetta mundi auka
á skraut jarðarinnar og birtu himnanna,…“
Áminning
Spár og fyrirboðar um Heklu, Kötlu eða Bárðarbungu
eru nauðsynlegir, ekki aðeins sem mikilvæg örygg-
isvakt um almanna vá, heldur einnig til að minna okkur
á, að herra jarðarinnar flytur í Putaland, smár og
máttlítill, þegar náttúruöflin ákveða að fara sínu fram.
En það má einnig að skaðlausu horfa til þess að jafn-
vel verstu hamfarir geta haft sínar björtu hliðar. Það
getur þurft óstjórnlegt ímyndunarafl til að nema þann
þáttinn og það getur stundum þurft margra manns-
aldra bið eftir þeirri glætunni. En allt kann sá sem bíða
kann.
Það gætu raunar verið einkunnarorð SVR.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
* Einhverjir hafa haldið því framað gosin fyrir Suðurlandi 1963og 1973 kunni að hafa létt á Kötlu,
en ekki verður farið nánar út í
vangaveltur um það. Og fröken Katla
er ekki ein um að vera langt gengin
og jafnvel komin á tíma. Systir
hennar, fröken Hekla hin fríða
og fræga, er það örugglega líka.
24.8. 2014 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 41