Morgunblaðið - 06.09.2014, Qupperneq 32

Morgunblaðið - 06.09.2014, Qupperneq 32
32 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. SEPTEMBER 2014 Að lifa með náttúr- unni, jafnt gæðum hennar sem dyntum, er grunnurinn að þekkingarleit mann- eskjunnar. Meðal hinna óskiljanlegu dynta hennar voru jarðskjálftar sem stundum voru skýrðir með því að skrímsli væru að bylta sér neðanjarðar. Í norrænni goðafræði segir frá því þegar goðin handsömuðu Loka Laufeyjarson og hegndu honum fyrir misgjörðir sínar. Hann var bundinn og eitur úr nöðru látið leka niður á hann. Sigyn, kona hans bjargaði honum frá bráðum bana með því að halda skál yfir honum svo eitrið læki ekki á hann. Hún þurfti þó að tæma skálina öðru hverju og við það draup eitthvað á hann og hann bylti sér svo jarðskjálftar hlutust af. Alla tíð hefur mannkynið leitað leiða til að forðast slys sem jarð- skjálftar geta valdið. Við skiljum þessa krafta vissulega betur en forfeður okkar og formæður, en eigum enn erfitt með að spá fyrir um þá. Enn bresta jarðskjálftar skyndilega á án þess að nokkur sjái þá fyrir. Eftir á telja margir sig hafa tekið eftir fyrirbærum á undan þeim svo sem ljósagangi, hljóði, sérkennilegri hegðun dýra, óvenjulegum titringi í jörðinni, breytingum á grunnvatnshæð, já og draumum. Í sumum tilvikum hafði verið bent á fyrirbærin áður en jarðskjálftinn brast á, í öðrum tilvikum rifjuðu menn þetta upp eftir á. Þótt sögur um forboða frá fyrri tíð hafi lifað með fólki kyn- slóð fram af kynslóð þá fer færri sögum af því að þetta hafi nýst fólki til viðvörunar og viðbragða. Líklega voru þetta í flestum til- vikum sannir og raunverulegir forboðar, en við skildum ekki hvað þeir boðuðu, ekki fyrr en eftir á. Frá því farið var að sinna jarð- skjálftafræði sem vísindagrein í upphafi síðustu aldar, hefur það verið draumur vísindamanna að geta spáð fyrir um hættulega jarðskjálfta. Nútímavæðing í iðn- aði og stórborgaþróun hefur gert samfélagið enn viðkvæmara en áð- ur fyrir áhrifum þeirra. Á sama tíma gerði aukinn skilningur á innri kröftum jarðarinnar kröfur til vísindanna að segja fyrir um slíka atburði svo hægt yrði að verjast þeim. Þegar ég var að byrja fram- haldsnám í jarðskjálftafræði við Uppsalaháskóla í Svíþjóð haustið 1963 svaraði Seweryn Duda, pólsk þýskur jarðskjálftafræðingur, sem þar starfaði, spurningu minni um jarðskjálftaspár á þann veg að sá sem fyndi upp aðferð til að spá fyrir um jarðskjálfta mundi örugglega fá nóbelsverðlaun. Á þessum tíma fannst jarðskjálfta- fræðingum það mikil ögrun að geta spáð fyrir um jarðskjálfta og að það væri mikilvægasta mark- mið fræðinnar, en flestir töldu að þetta mundi verða erfitt og langsótt og þeim sjálfum um megn. Þótt aukinn skiln- ingur á síðustu öld á þeim kröftum sem virkuðu í jarðskorp- unni vekti bjartsýni um að gagnlegar jarðskjálftaspár væru mögulegar ollu nokk- ur „mistök“ því að þeirri hugsun óx fylgi undir lok aldarinnar að jarðskjálftar væru ófyrirsjáanlegir eins og aðrir dyntir náttúrunnar og sumir jarð- skjálftafræðingar héldu því stíft fram að þannig mundi þetta alltaf verða. Og margir verkfræðingar hömruðu á því að það væri ekkert ráð annað en að byggja sterkari mannvirki. Því miður varð þetta til þess að um skeið var lítil áhersla lögð á slíkar rannsóknir. Annað sem mælti gegn því að stunda rannsóknir sem miðuðu að spám var að þeir sem áttu dýrar byggingarlóðir með dýrum mann- virkjum vildu ekki að þær væru gerðar verðlausar með spádóm- um, sem „oftar en ekki reyndust rangir“. Stjórnmálamönnum og öðrum þeim sem ráða fyrir ríkj- um og rannsóknarsjóðum fannst það líka stundum gott að fá það álit frá „færustu vísindamönnum“ að skjálftar væru ófyrirsjáanlegir. Þá væri ekki hægt að ásaka þá fyrir vanrækslu, að hafa ekki stutt rannsóknir og gert viðeig- andi ráðstafanir til að forða fólki og samfélagi frá eyðilegging- armætti skjálftans þegar hann brysti á. Ný nálgun í rannsóknum á Íslandi Þrátt fyrir vaxandi svartsýni á möguleika jarðskjálftaspár fóru Íslenskir jarðskjálftafræðingar um 1980 að feta sig áfram í slík- um rannsóknum. Árið 1988 hófust svo fjölþjóðlegar rannsóknir á Ís- landi, sem miðuðu að jarð- skjálftaspám, þar sem Suður- landsundirlendið var valið sem sérstakt rannsóknarsvæði. Það sem við köllum Suðurlands- brotabeltið liggur kringum 64. breiddargráðu frá Hengli í vestri og austur undir Heklu og á því eru upptök Suðurlandsskjálfta. Kortið sem birtist hér með er byggt á skýrslum um skemmdir vegna þeirra frá 1706 til 1912. Við sem skipulögðum þetta verkefni lögðum áherslu á að við yrðum að læra af reynslu og ekki síst af mistökum við margar fyrri tilraunir til að spá. Þessar spár hefðu byggst mikið til á töl- fræðilegum úttektum á ýmiss konar fyrirbærum, m.a. miðlungs- stórum skjálftum, sem þekkt voru á undan stórum skjálftum án þess að reyna að skilja af hverju fyrir- bærin stöfuðu. Við vildum fara aðra leið, sem sé að leggja meg- ináherslu á að rannsaka eðli þeirra breytinga í jarðskorpunni sem gætu leitt til stórra jarð- skjálfta. Byggt á sögulegri reynslu og nýlegum mælingum á undanfara stórskjálfta og á þekkingu á eig- inleikum jarðskorpunnar töldum við að áður en stórir jarðskjálftar ríða yfir, mundu verða breytingar á upptakasvæðinu sem hægt væri að mæla. Markmið rannsóknanna var annars vegar að auka svo næmi mælinga á ferlum í jarð- skorpunni að unnt væri að skynja slíkar breytingar betur en áður, og svo að nýta mæligögnin og aðra tiltæka þekkingu til að greina eðli þessara breytinga. Um árangur rannsóknanna Þessar fjölþjóðlegu rannsóknir á jarðskjálftaspá stóðu í 20 ár. Ég sagði ítarlega frá þeim í bók sem kom út árið 2011 sem á íslensku mundi heita „Framfarir í jarð- skjálftaspá“, sjá mynd. Í örstuttu máli benda niðurstöð- urnar til þess að greina megi að- draganda stórra skjálfta og finna upptök þeirra og misgengis- sprungu árum eða jafnvel áratug- um áður en þeir bresta á. Þetta opnar möguleika á gagnlegum við- vörunum á undan hættulegum skjálftum sé eftirlit nægilega skil- virkt. Til að fylgjast með fram- vindunni á hverjum stað þurfi þar sívökult „jarðváreftirlit“, sem byggist bæði á sjálfvirkri úr- vinnslu og samstillingu allra mæl- inga, samstundis, og á stöðugri túlkun og líkansgerð sjálfvirkra tölvukerfa og vísindamanna. Eftir Ragnar Stefánsson » Frá því farið var að sinna jarðskjálfta- fræði sem vísindagrein í upphafi síðustu aldar, hefur það verið draum- ur vísindamanna að geta spáð fyrir um hættulega jarðskjálfta. Ragnar Stefánsson Höfundur er jarðskjálftafræðingur. Forsíða bókarinnar Kubburinn táknar eitthvert svæði þar sem jarð- skjálftasprunga er að lifna við, neðarlega í jarðskorpunni. Háþrýstar „gufur“ neðan úr möttli jarðar eru að tæra og veikja samlímingu á gamalli jarðskjálftasprungu, þar sem jarðskjálfti var síðast fyrir 500- 1000 árum. Það er verið að spá jarðskjálfta á sprungunni, sem gæti hljómað svona: „Þetta verður eins til tveggja metra hægri handar snið- gengi, eins og örvarnar sýna, um lóðréttan sprungu. Sprungan er 10 km löng og nær 10 km niður í jarðskorpuna. Á yfirborðinu má gera ráð fyrir að það myndist opnar sprungur beggja vegna við megin- sprunguna, hugsanlega skástígar, eins og myndin gefur til kynna“. Í framhaldinu mundi svo verða spáð í eyðileggingarmátt skjálftans á ná- lægum svæðum út frá spánni um sprungumisgengið niðri í jarðskorp- unni. Fyrir ofan þennan kubb úr jarðskorpunni er sýnt dæmi um línurit af litlum jarðskjálfta, svo litlum að við verðum ekki vör við hann nema með næmustu mælitækjum. Slíkir smáskjálftar, sem eru tíðir á upp- takasvæðum stórra skjálfta bera okkur stöðugt upplýsingar um hvað er að búa um sig þarna niðri. A D V A N C ES IN EA R TH Q U A K E P R ED IC TIO N Stefan sso n 1 ADVANCES IN EARTHQUAKE PREDICTION Seismic Research and Risk Mitigation Ragnar Stefansson Suðurlandsskjálftar Innan ferlanna með ártölunum féll helmingur bæjarhúsa í hverjum skjálfta. Kortið gerði Sveinbjörn Björnsson. Það birtist í skýrslu Almannavarna 1978 „Landskjálfti á Suðurlandi“. V V Að láta drauma rætast Að segja fyrir um jarðskjálfta Yfirskrift þessa pistils er samhljóða greinaflokki sem Morgunblaðið hefur fallist á að birta eftir mig. Þetta verða 12 greinar sem væntanlega birtast á hverjum laugardegi á næst- unni. Þeim sem vilja kynna sér efnið betur bendi ég á bókina mína frá 2011, en hún er líka til sem rafbók hjá springer.com. Ég vona að ég fái brautargengi til að koma út bók á íslensku um efnið. Í bókinni Náttúruvá á Íslandi sem kom út hjá Háskóla- útgáfunni 2013 er kafli eftir mig um jarðskjálftaspá og í þeirri bók er margt fleira sem varðar efni þessa greinaflokks míns. Í ljósi nýlegra atburða er eðlileg spurning: Af hverju ekki að hafa eldgosaspár með? Ástæðan er að ég byggi greinarnar og bókina á 20 ára rannsóknarvinnu um jarðskjálftaspá en margt af niðurstöðunum er líka góður grunnur fyrir eldgosaspá. Í sjálfu sér byggist öll spá um ferla í efnisheiminum á því sama; að mæla ferilinn og finna löggengi hans og reikna sig fram í tímann út frá þessu löggengi. Svona spáum við um gang himin- tunglanna, um óveðurslægðirnar og um til hvers innskots- sprunga í jarðskorpunni gæti leitt. Ég mun bregðast snaggaralega við spurningum og ábend- ingum sem berast í netfangið mitt raha@simnet.is og leiðbeina um önnur rit til meiri fróðleiks um efnið.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.