Morgunblaðið - 29.11.2014, Síða 46

Morgunblaðið - 29.11.2014, Síða 46
46 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. NÓVEMBER 2014 Nú hefur Keli, eins og hann var oftast kallaður, tapað barátt- unni við illvígan sjúkdóm sem hann tókst á við af kjarki og æðruleysi. Nú þegar góður vinur og félagi er kvaddur er margt sem kemur upp í hugann. Keli var mikill félagsmálamaður og tók þátt í ýmsum verkefnum á þeim vettvangi og þar lágu leiðir okkar saman. Ekki vorum við alltaf á sömu skoðun en Keli hafði þann félagsþroska til að bera að aldrei létum við það bitna á vinskapnum. Hann var mikill samvinnumaður og hafði áhuga á öllu sem gat komið sam- félaginu til góða. Var hugmynda- ríkur og hafði áhuga á mörgu, hver man ekki eftir fjósalykt á flöskum? Keli var mikill fundar- maður og sótti fjölmarga fundi sem haldnir voru í heimahögum og víðar, var virkur þátttakandi og fljótur að koma auga á spaugilegar hliðar mála. Keli var ófeiminn að taka til máls og lýsa hugmyndum sínum og skoðun- um og gerði það af léttleika og á gamansaman hátt. Gerði grín að mönnum og málefnum en var ekki rætinn eða særði fólk með gríni sínu og létti oft andrúms- loft á fundum. Og hætt er við að margar samkomur verði daufari í framtíðinni nú þegar hans nýt- ur ekki lengur við. Keli var fróð- ur um menn og málefni og hafði einstaka frásagnargáfu sem gerði það að verkum að hann naut sín við frásagnir og flutti óviðjafnanlegar tækifærisræður í afmælisveislum og við ýmis önnur tækifæri. Við Keli höfum ferðast víða um land mörg und- anfarin ár, ýmist einir eða með konum okkar, og átt saman margar eftirminnilegar stundir og sama hvert farið var, alls staðar þekki Keli fólk og gat sagt frá mönnum og mannlífi og gerði það á sinn einstaka hátt. Einnig fórum við á eftirminni- legar samkomur og vorum skemmtikraftar og þar hélt Keli uppi fjörinu og ég var til uppfyll- ingar því þótt Kela væri margt til lista lagt þá var hann ekki söngmaður, en var þeim mun betri á öðrum sviðum. Keli var hafsjór af fróðleik og áhugi hans á veiði og öllu sem að þeim laut átti stóran sess í lífi hans, þar var hann á heimavelli, sérstak- lega á öllu sem laut að laxveiði. Hann sagði veiðisögur og miðl- aði af fróðleik og reynslu og ber Veiðiminjasafnið, sem þau hjón komu upp í Ferjukoti, m.a. vitni um þann áhuga. Hann var ötull talsmaður fyrir veiðimálum og veiðimennsku og lét þessi mál- efni mjög til sín taka. Miðviku- dagshittingurinn, sem byrjaði í Kaupfélaginu fyrir rúmum tveimur árum, er eitt af því sem hann var frumkvöðull að, við borðið þar verður hans sárt saknað. Engan veginn er hægt að gera Kela skil í stuttu máli og ekki heldur tilgangurinn með þessum minningum þegar við kveðjum ljúfan og góðan vin sem fellur frá alltof snemma. Hið bjarta vor Áfram líður ævistraumur eins og móðu hulinn draumur. Andvarp hvert og æðasláttur, okkur flytur dauða nær. Hver einn sína götu gengur glaður hryggur skammt sem lengur, eftir föstum lífsins lögum lengra enginn stigið fær. Við vottum Hebu og fjölskyld- unni innilegar samúðarkveðjur. Einar Ole og Helga. Nú er vinur minn Þorkell í Ferjukoti farinn. Besti og örugglega skemmtilegasti vinur sem hægt er að eiga. Við Þorkell kynnumst árið 1957 þegar hann var tíu ára. Þá kom ég sem vinnumaður til foreldra hans. Kristjáns og Þórdísar í Ferju- koti. Við urðum strax vinir en það var stormasöm vinátta. Þor- kell var áhugasamur drengur um flesta hluti og ef vinnumað- urinn var ekki nógu fljótur að skilja eða gat ekki samþykkt hvað þeir tveir áttu að gera, þá var Þorkell ekki að eyða sínum dýrmæta tíma í hann og rauk í burtu. En við vorum ekki lengi óvinir. Það var ekki í mínum verkahring að leita eftir sátt. Þorkell sá einn um það og það var afar oft að trúnaðarsamtöl fóru fram við rúmstokkinn hjá mér í hádeginu þegar ég lagði mig. Það voru ekki bara ýmsar hugmyndir sem komu upp, það voru líka áhyggjur. Einn daginn kom Þorkell í hádeginu. „Poul, ég var svo hræddur áðan, ég sá stóra rottu.“ „Þorkell minn, þú veist að við verðum aldrei hræddir, við erum karlmenni.“ „Já, en Poul, þetta var alveg rosa, rosa stór rotta.“ „Allt í lagi Þorkell minn, við skulum veiða eina rottu.“ Hræðslan vék auð- veldlega fyrir veiðieðlinu. Og þar var ég komin í vond mál því ég vissi ekki hvernig ég átti að veiða rottu. Dag eftir dag kom Þorkell upp til mín og sagði að ég yrði að veiða rottu því annars væri ég að ljúga og það væri ljótt. Ég barð- ist á móti og sagði að stundum væri hann líka að ljúga. Það gagnaðist mér ekki mikið. Hann svaraði bara „Nei, ég skrökva bara og það er ekki eins slæmt“. Við lögðum á ráðin og fórum nið- ur í fjós og bundum snæri í hurð að fóðurgeymslunni og höfðum hana aðeins opna. Við létum snærið ná alla leið heim, sem var um 50 metrar. Þegar Þorkell gat alls ekki beðið lengur drógum við í spottann og hurðin lokaðist og viti menn, þar sat rotta föst. Þorkell fann út að það væri fullt af rottum fyrir innan hurðina. Hann fór í bússur og upp á þak og opnaði gluggann og skipaði mér niður um gatið. Ég get fyllt heila bók með frásögnum af uppátækjum okkar Þorkels. All- ar rjúpnaferðirnar þar sem við gleymdum að veiða rjúpur og fórum í staðinn að ræða hrepps- málinn. Alltaf var Þorkell eins, aldrei talaði hann illt orð um aðra og aldrei nefndi hann nöfn nema ef það var í lagi og að sag- an væri góð. Góður drengur alla hans tíð. Minning hans mun lifa lengi. Við hjónin munum minn- ast hans með gleði um alla fram- tíð. Við vottum fjölskyldu hans samúð nær og fjær. Fjölskyldan í Grenigerði. Páll Jensson. Ég man hann úr nemenda- hópnum á Hvanneyri fyrsta árið sem ég kom þar að kennslu: Glaðbeittur var hann, hress og ódeigur við að halda sínum sjón- armiðum fram, bæði í gamni og alvöru. Við áttum síðar samleið í félagsstarfi, m.a. í stjórn UMSB. Sama þar. Þekktur fyrir að hressa við fundi sem stefndu annars í það að verða daufir og fábreyttir, bæði með gamanmál- um sínum og því að varpa nýju og gjarnan óvæntu ljósi á mál- efnin. Ég minnist sumarstundar á Hvítá; sjötíuogeitthvað. Hann hafði boðið mér með í vitjun. Klofstígvél voru eini öryggis- búnaðurinn. Á lognværri Hvít- ánni undir kvöld dömluðum við á milli lagnanna. Æfðum höndum greiddi hann laxana úr netunum. Hann rakti mér um leið fróðleik um veiðarfæri, veiðiskap og veiðimenn langt aftur á fyrri öld. Hafði alla sögu þessara sér- stæðu atvinnuhátta við Hvítá öldungis á hraðbergi. Á lífríki árinnar og umhverfi hennar kunni hann líka glögg skil. Ól enda allan sinn aldur á bökkum hennar. Hann ræktaði söguáhuga sinn og staðþekkingu og mótaði þannig Veiðiminjasafn í Ferju- koti. Varð einstakur og eftirsótt- ur sögumaður í einstæðu um- hverfi. Sjálfhverfur var hann þó ekki. Fáir ef nokkur nágranni voru meira hvetjandi um safn- sstarf okkar á Hvanneyri en hann. Það sama átti raunar við um starf Hvanneyrarskóla er notið hefur minnst þriggja kyn- slóða traustrar vináttu og ein- lægs stuðnings Ferjukotsfólks. Vegna Landbúnaðarsafnsins kom hann enda oft út að Hvann- eyri og spjallaði, síðast fyrir fá- einum dögum, þykir mér nú. Kom þá færandi hendi; með fjöl- skyldu sinni færði hann safninu ættargrip úr Ferjukoti, hlaðinn sögu. Skömmu áður hafði ég get- að sýnt honum Landbúnaðar- safnið í nýju umhverfi. Gleði hans var fölskvalaus, sem og óskir hans um velgengni safns- ins. Í björtu skini haustsólarinn- ar tylltum við okkur saman á suðurloftinu í Halldórsfjósi. Ræddum framtíð og samstarf. Hann greindi mér frá hugmynd- um sínum en tíminn til fram- kvæmdanna varð styttri en okk- ur grunaði. Fyrir nokkrum árum hvatti hann til þess að dreginn yrði saman fróðleikur um nýtingu flæðiengja við Borgarfjörð. Þótt væri hann sjálfur hafsjór af fróð- leik um flesta þætti hennar spar- aði hann ekki fyrirhöfn sína við að leita uppi heimildarmenn eða vinna verkefninu framgang með öðrum hætti. Við verkefnisstjór- inn, Ragnhildur í Ausu, er með honum unnu, máttum hafa okkur öll við að sinna eigin hlutum verksins. Áform voru um fleiri sambærileg verk í ljósi hins ár- angursríka samstarfs. Þeim áformum hefur nú verið koll- varpað. Stórt skarð er höggvið í um- hverfið. Við leiðaskil er þó fyrst og fremst þörf á að þakka: Þakka fyrir vináttu og góðar stundir. Fyrir hvetjandi áhuga, upplífgandi samræður og hug- myndir. Fyrir fróðleik og fram- lag til þess að tengja saman tím- ana tvenna. Fyrir ræktarsemi og tryggð við land, sveit og sögu. Minningarnar hvetja til fram- halds. Fjölskyldu hans eru færðar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Þorkels Fjeldsted frá Ferjukoti. Bjarni Guðmundsson. Á mínum pólitísku sokka- bandsárum komst ég fyrst í kynni við Þorkel Fjeldsted. Ung- ir sjálfstæðismenn efndu til um- ræðu um landbúnaðarmál og á þeim vettvangi urðu á vegi mín- um kraftmiklir ungir menn sem töluðu máli landbúnaðarins og landsbyggðarinnar af miklum þrótti svo maður hreifst með. Í þeim hópi voru meðal annarra tveir öflugir Borgfirðingar, sem síðar urðu samverkamenn mínir og góðir vinir, þeir Óðinn Sig- þórsson í Einarsnesi og Þorkell Fjeldsted í Ferjukoti. Þorkell verður minnisstæður öllum sem honum kynntust. Hann var blátt áfram, sagði hug sinn, var hnyttinn og vel máli farinn og einstaklega skemmti- legur í allri viðkynningu. Ég átt- aði mig fljótt á því hversu næm- ur hann var á umhverfi sitt og strauma samfélagsins. Hann var vinmargur, hitti marga og skynj- aði æðaslátt umhverfisins vel. Það ríkti aldrei nein lognmolla í kring um hann. Hvell og stund- um hávær röddin mætti manni og yfirleitt fylgdu snjallar at- hugasemdir og gamanyrði. Það leiddist því engum sem var ná- vistum við Þorkel. Þorkell unni mjög héraði sínu, Borgarfirðinum. Yfir sumu hafði hann áhyggjur sem honum fannst ganga á skjön. En hann sá líka tækifærin og þreyttist ekki á að benda á það sem hann taldi til framfara. Hugur hans fór víða og á flestu hafði hann skoðanir, sem hann lét óhrædd- ur í ljósi. Varla kom það fyrir að Þorkell mætti ekki á stjórnmálafundi í Borgarfirði sem við boðuðum til flokksbræður hans. Jafnan tók hann til máls, enda var honum létt um mál og flutti það með hæfilegri blöndu af alvöruþunga og léttleika. Hann sat í sveitar- stjórn Borgarhrepps, var ötull félagsmálamaður, naut sín vel á mannamótum og var þar hrókur alls fagnaðar. En skemmtilegast var að hitta hann á heimavelli: heima í Ferjukoti, á jörð forfeðranna þar sem hann stundaði jafnt hefðbundinn búskap og neta- veiði. Þar var hann í essinu sínu. Hann miðlaði fróðleik sínum af laxveiðinni í Hvítá. Sagði sögur af netaveiði og veiðimönnum, er- lendum heimsborgurum og Ís- landsmönnum og allt varð ljóslif- andi fyrir augum manns undir frásögnunum. Hann kunni líka að varðveita menningararfinn. Í Ferjukoti er nú risið Laxveiði- og sögusafn sem er hrein unun að heimsækja. Engu líkt var að njóta leiðsagnar hans og hann lifði sig inn í frásögnina. Þorkell vinur minn veiktist af krabbameini fyrir allnokkru. En þó veikindin sæktu á hann af hörku, lét hann aldrei bilbug á sér finna. Maður gat aldrei í rauninni ímyndað sér hann veik- an, svo keikur var hann og alltaf jafn hress í bragði. Mig grunaði það því síst að kveðjustundin væri framundan. Þorkell Fjeldsted er minnis- stæður öllum þeim sem kynntust honum. Og það get ég borið um, að gott var að eiga hann að vini. Hebu, börnum þeirra og fjöl- skyldu sendi ég samúðarkveðj- ur. Blessuð sé minning heiðurs- mannsins. Einar K. Guðfinnsson. Í dag er kvaddur hinstu kveðju vinur og félagi til margra ára, Þorkell Fjeldsted eða Keli í Ferjukoti eins og hann var jafn- an nefndur. Kynni okkar hófust upp úr 1970 við sleppingu laxa- seiða á vorin og fyrirdrátt við öflun klakfisks á haustin. Keli var karlmannlega vaxinn og gekk ötullega að hverju verki, jafnan glaður og reifur. Hann bjó lengi vel með blandað bú en hætti mjólkurframleiðslu fyrir allnokkrum árum. Þá var í Ferjukoti stunduð laxveiði í net í Hvítá og voru mikil umsvif í kring um þá starfsemi enda veiðistaðir góðir. Ólst Keli upp við veiðarnar og áttu þær hug hans og hjarta. Hann var veiði- maður og náttúruunnandi og fylgdist vel með þeim öru breyt- ingum sem eru nú um þessar mundir að koma fram í lífríkinu þegar bleikjan er svo til horfin úr Hvítá og fuglum sumarsins fækkar. Ég á í huga mér góða minn- ingu. Keli hringdi og bauð mér með í vitjun. Þegar þetta var hafði hann á leigu allmargar netalagnir frá nágrannabæjum svo þetta var heilmikið ferðalag og mörg net. Þarna var Keli á heimavelli. Hann fræddi mig um ána, netalagnirnar, hvernig að- stæður væru á hverjum stað og hve mikil vinna fólst í undirbún- ingi við hverja lögn. Aflinn þetta kvöld var nánast enginn en það var engin sút hjá mínum manni. „Ekki eru allar ferðir til fjár og það gengur bara betur næst.“ Á þessu lognkyrra síðdegi fékk ég aðeins innsýn í þá töfra sem þessi veiðiskapur bjó yfir. Þegar ég var kosinn í stjórn Veiðifélags Norðurár var Keli fyrir nokkru kominn í stjórnina. Þar með hófst áratugasamstarf okkar á þeim vettvangi. Þarna var gott að hafa Kela með í baráttunni. Aldrei kom til þess að hann gengi fram með offorsi og látum heldur voru málin rædd og reif- uð þar til ásættanleg niðurstaða fékkst. Mikil reglusemi hefur jafnan verið ástunduð í Ferju- koti og haldið til haga áhöldum og tækjum þótt þau væru kom- inn úr daglegri notkun. Átti þetta sérstaklega við um hús og tæki sem tengdust netaveiðinni og meðferð aflans. Þegar um- svifin minnkuðu í daglegum rekstri búsins raðaði Keli þessu öllu upp og opnaði safn almenn- ingi til sýnis. Er safn þetta hið eina sinnar tegundar á landi hér. Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir sérlega gott samstarf og við- kynningu alla. Við hjónin sendum fjölskyld- unni innilegar samúðarkveðjur. Sigurjón Valdimarsson. Ég kynntist Þorkeli Fjeldsted þegar ég var kjörinn í stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur fyrir rúmum 20 árum. Eitt af mikilvægari verkefnum okkar stjórnarmanna voru samskipti við stjórn Veiðifélags Norðurár en þar hafði Þorkell átt sitt sæti um langt árabil. Maður tók strax eftir Kela. Alltaf glaður og reif- ur, hafði skoðanir á öllum mál- um. Fastur fyrir, hleypti manni ekki áfram með neina vitleysu, en samt ávallt ákaflega sann- gjarn. Mér fannst hann alltaf nálgast málin til að leita lausna og oftar en ekki fundust þær í kjölfar tillagna frá honum. Þorkell var einstaklega skemmtilegur maður. Hann var ræðinn og opinn og í kringum hann var alltaf líf og fjör. Þá skipti engu máli hvort við vorum á alvarlegum fundum eða hvort tilefni samskiptanna væri á létt- ari nótum. Alltaf fann hann leiðir til að glæða samskiptin og sam- veruna lífi og fjöri. Þó flestir okkar fundir hafi verið í Borgarfirðinum, þá held ég að ég hafi rekist á hann í öll- um hornum okkar fallega lands. Einhvern tímann höfðum við Dísa tjaldað í Ásbyrgi, sátum fyrir utan tjaldið í morgunsólinni að drekka morgunkaffið, og auð- vitað stormuðu þau hjónin Þor- kell og hans glæsilega kona, Heba, þar hjá glöð og kát í göngutúr með góðu fólki. Í ann- að skipti hafði Dísa boðið mér í óvissuferð sem endaði á skot- veiðisafninu á Eyrarbakka og hver var ekki mættur þar með stóran hóp gesta? Þorkell vinur okkar. Það er ekki hægt að minnast Þorkels án þess að nefna hið glæsilega minjasafn sem hann setti um laxveiði, en þann veiði- skap þekkti hann flestum betur. Okkur þótti gaman að því að geta fært safninu fyrsta hnúð- laxinn sem veiddist í Norðurá, uppstoppaðan, en það var skepna sem Þorkell, þrátt fyrir alla sína reynslu úr laxveiðinni, hafði ekki séð á þessum slóðum áður. Við kveðjum þennan ógleym- anlega mann með trega. En minningin um einstaklega fjör- ugan, skemmtilegan og góðan dreng mun lifa með okkur um ókomna tíð. Við færum Hebu og fjölskyld- unni allri okkar innilegustu sam- úðarkveðjur. Bjarni Júlíusson og Þórdís Klara Bridde. Kveðja frá Kaupfélagi Borgfirðinga Með örfáum orðum langar okkur til að minnast félaga okk- ar, Þorkels Fjeldsted frá Ferju- koti. Hann var kaupfélagsmað- ur, virkur félagsmaður sem deildarstjóri og aðalfundar- fulltrúi til margra ára. Hann var óspar á að segja skoðun sína á því hvað hann teldi til framfara fyrir félagið og til hagsbóta fyrir félagsmenn. Hann var gagnrýn- inn á jákvæðan hátt og alltaf tilbúinn ef hann gat eitthvað gert fyrir félagið. Fyrir nokkrum árum kom Þorkell á því sem nú er kallað Kelakaffi, en þá hittast bændur og aðrir félagsmenn kaupfélags- ins fyrsta miðvikudag hvers mánaðar við kaffiborðið í kaup- félaginu og spjalla saman um málefni líðandi stundar. Þetta skapar skemmtilega stemmingu og er vinsælt framtak. Þorkell var óspar á að segja sína skoðun og gerði þá oft góð- látlegt grín að sér og sínum fé- lögum í leiðinni. Hann hafði skemmtilega frásagnargáfu og fengu fundarmenn á fundum kaupfélagsins að njóta þess. Eft- irminnilegastar eru frásagnir hans af ferðum hans og Einars Ole á aðalfundi Sambandsins en Þorkell var fulltrúi kaupfélags- ins á þeim fundum til margra ára. Þá greindi hann skilmerki- lega frá ferðinni, málefnum fundarins, veitingum og öðrum viðgjörningi í léttum dúr, þannig að fundarmenn skellihlógu að frásögn hans. Þegar Keli svo á þessu ári baðst undan endur- kjöri sem fulltrúi KB á aðalfund SÍS var haft á orði að í hans stað yrði að koma maður sem kynni að segja frá. Að Þorkeli gengnum sjáum við á bak góðum félaga. Stjórn og starfsmenn Kaup- félags Borgfirðinga senda Hebu, börnum þeirra og öðrum að- standendum Þorkels hugheilar samúðarkveðjur. Guðrún Sigurjónsdóttir, stjórnarformaður Kaup- félags Borgfirðinga, og Guðsteinn Einarsson, kaup- félagsstjóri. Á níunda áratug síðustu aldar varð til lítil sumarhúsabyggð í landi Trönu, eins Ferjubakka- bæjanna í Borgarhreppi. Land- eigandinn var Þorkell Fjeldsted bóndi í Ferjukoti sem við kveðj- um nú allt of snemma. Þeir, sem þarna leigðu sér landspildu og hófu byggingu sumarhúsa, voru ekki tengdir svæðinu en höfðu haft spurnir af því. Allir báru með sér draum um lítinn reit í sveit, helst ekki í miklu þéttbýli. Einn okkar frétti af staðnum og tryggði sér spildu, aðrir bættust í hópinn eftir að hafa kynnst svæðinu í heimsóknum til hans og heillast af því. Ekki spillti landeigandinn fyrir. Hann sýndi brölti okkar við að koma okkur upp húsum af eigin rammleik og rækta garðinn okkar einlægan áhuga og mikla hjálpsemi. Þarna varð til samfélag eins konar landnema og landeigandinn og fjölskylda hans varð vinur okkar og hjálparhella. Þau voru sjálf- sagðir heiðursgestir í sumarhá- tíðum okkar í Höfðanum og Þor- kell átti oft leið í Höfðann og Þorkell Fjeldsted Virðing, reynsla & þjónusta Allan sólarhringinn 571 8222 Svafar: 82o 3939 Hermann: 82o 3938 Ingibjörg: 82o 3937 www.kvedja.is svafar & hermann

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.