Fréttablaðið - 28.06.2013, Blaðsíða 58
28. júní 2013 FÖSTUDAGUR| SPORT | 34
1. DEILDIN 2013
ÚRSLIT
GRINDAVÍK - SELFOSS 1-3
0-1 Ingólfur Þórarinsson (36.), 0-2 Sindri Snær
Magnússon (72.), 1-2 Stefán Þór Pálsson (80.), 1-3
Sindri Snær Magnússon (90.).
TINDASTÓLL - KA 2-2
1-0 Steven Beattie, víti (31.), 1-1 Edvard Börkur
Óttharsson, víti (35.), 1-2 Atli Sveinn Þórarinsson
(39.), 2-2 Steven Beattie (45.).
Rautt spjald: Ivan Dragicevic, KA (44.).
LEIKNIR - HAUKAR 0-0
ÞRÓTTUR - FJÖLNIR 0-0
STAÐAN
Grindavík 8 6 0 2 23-11 18
Haukar 8 4 3 1 13-9 15
BÍ/Bolungarv. 7 5 0 2 14-14 15
Víkingur R. 7 3 3 1 14-10 12
Leiknir 8 3 4 1 12-8 13
Selfoss 8 3 2 3 13-12 11
Fjölnir 8 3 2 3 10-13 11
KA 8 2 2 4 9-14 8
KF 7 1 4 2 10-9 7
Tindastóll 8 1 4 3 8-12 7
Þróttur 8 1 2 5 8-13 5
Völsungur 7 0 2 5 5-14 2
NÆSTU LEIKIR
VÖLSUNGUR - KF FÖS. KL. 19.15
BÍ/BOL. - VÍKINGUR R. LAU. KL. 14.00
FORMÚLA Ástralinn Mark Webber
hefur nú tilkynnt að hann muni
hverfa frá Formúlu 1 í lok þessa
tímabils. Webber hefur unnið níu
Formúlu 1 mót á ferlinum og á að
baki frábæran feril. Undanfarin ár
hefur hann ekið fyrir lið Red Bull
ásamt þreföldum heimsmeistara,
Sebastian Vettel.
Samband liðsfélaganna hefur verið
stirt síðan þeir rákust á í tyrkneska
kappakstrinum árið 2010.
Ökuþórinn mun ganga til liðs við
bílaframleiðandann Porsche, sem
ætlar sér stóra hluti í götubílaflokki.
Þessi 36 ára ökuþór mun efla
ímynd Porsche í keppni götubíla og
er það frábært fyrir íþróttina að fá
slíkt nafn inn í greinina.
„Það er mikill heiður að fá að
keyra fyrir Porsche, sem hefur ávallt
staðið fremst þegar kemur að tækni
og frammistöðu,“ sagði Webber.
„Það verður gaman að takast á við
nýjar áskoranir eftir skemmtilegan
tíma í Formúlu 1. Ég get varla beðið
eftir að fá að keyra einn hraðskreið-
asta bíl í heimi.“ - sáp
Mark Webber hættir í Formúlu 1 eft ir tímabilið
HÆTTUR Webber færir sig yfir í
götubílaflokk fyrir Porsche.
NORDICPHOTOS/GETTY
FÓTBOLTI Margrét Lára Viðars-
dóttir þorir ekki að hrósa sigri of
snemma í langri baráttu sinni við
meiðsli. En í dag er hún verkja-
laus í fyrsta sinn í langan tíma og
endurhæfingin samkvæmt áætlun.
Hún leyfir sér að vona að hún verði
nálægt sínu besta formi þegar EM
í Svíþjóð hefst eftir tæpar tvær
vikur.
Meiðslasaga Margrétar Láru
er orðin meira en fjögurra ára
gömul. Þrátt fyrir það hefur hún
haldið áfram að spila sem lands-
liðs- og atvinnumaður allan þenn-
an tíma og hefur gengið á ýmsu.
Stundum virtist hún hafa unnið
bug á meiðslunum en bakslagið
var ávallt skammt undan. Síðast-
liðið haust þurfti hún svo að taka
ákvörðun – að fara í stóra aðgerð
til að freista þess að vinna endan-
lega bug á meininu. Áhættan var
sú að hún ætti ekki afturkvæmt
inn á völlinn ef aðgerðin gengi
ekki samkvæmt óskum.
„Ég ákvað að fara í aðgerðina
sem var framkvæmd í nóvember.
Það var EM sem dreif mig áfram
en ég vildi freista þess í eitt skipti
fyrir öll að ná mér góðri fyrir
þetta mót. EM verður stóra próf-
ið fyrir mig,“ segir hún í samtali
við Fréttablaðið. „Hingað til hefur
allt gengið vel en ég hef enn tvær
vikur til að klúðra þessu,“ segir
hún og hlær.
Spurð um líðan á hverri æfingu
Hún er vör um sig og viðurkenn-
ir að sagan hafi ekki verið á sínu
bandi. „Ég hef áður náð mér
þokkalegra góðri en svo hefur allt
farið í sama farið. Ég þarf því að
passa mig, þá sérstaklega að álag-
ið verði ekki of mikið. En það sem
gefur mér von núna er að þessi
stóra aðgerð hafi lagfært þann
skaða sem hefur háð mér í þennan
langa tíma,“ segir hún og bætir við
að hún er undir mjög góðu eftirliti.
„Líklega er ég spurð 2-3 sinnum
á hverri æfingu hvernig mér líði.
Það er pínu þreytandi,“ segir hún
í léttum dúr.
„Allt ferlið hefur vissulega
reynt á þolinmæðina en síðustu
3-4 vikur hafa gengið sérstaklega
vel. Ég hef ekki misst úr æfingu,
hvorki með félagsliði mínu eða
landsliði, sem hefur ekki gerst í
fjögur ár. Ég er vitanlega himin-
lifandi með það.“
Þetta var minn síðasti séns
Margrét Lára er með 30 cm skurð
aftan á lærinu eftir aðgerðina en í
stuttu máli var hún framkvæmd til
að gefa vöðvum, vöðvafestingum
og taugum meira rými.
„Vöðvarnir voru of stórir, of
spenntir og of stuttir. Ég var líka
með taugaverki vegna þrýstings á
taugarnar,“ lýsir hún en Margrét
Lára veit ekki til þess að aðrir
knattspyrnumenn hafi gengist
undir slíka aðgerð.
„Ekki svo ég viti til. En þessi
aðgerð var minn síðasti séns og
mér fannst það þess virði að fara í
hana eftir allan þennan tíma.“
Gæti skrifað bók um meiðslin
Margrét Lára var kjörin íþrótta-
maður ársins árið 2007 og hún ætl-
aði að nota árið 2008 til að sýna að
það hafi ekki verið nein tilviljun.
„Ég var að drepast úr metnaði
og áhuga. Þá byrjaði ég að finna
fyrir óþægindum og það átti eftir
að halda áfram,“ segir hún.
Snemma árs 2009 samdi hún við
Linköping í Svíþjóð og þá hófst
hennar langa meiðslasaga. „Ég
ætlaði að styrkja mig svo mikið
og æfa mig fyrir sænsku deildina.
Síðan þá hefur þetta verið einn
stór hrærigrautur af meiðslum.
Það væri örugglega hægt að skrifa
bók um þetta allt saman,“ segir
hún.
En hvort hún nái að beita sér af
fullum krafti á vellinum á ný verð-
ur að koma í ljós. Alltént er líðan
hennar utan vallar mun betri eftir
aðgerðina.
„Ég var alltaf með verki, til
dæmis að nóttu til og á morgn-
ana. Það tekur sinn toll af andlegu
heilsunni. Í dag er ég algjörlega
verkjalaus og get ekki kvartað
undan neinu. Í raun er ég alveg í
skýjunum með þetta.“
eirikur@frettabladid.is
EM verður stóra prófi ð mitt
Margrét Lára Viðarsdóttir, langmarkahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi , er á góðum batavegi
eft ir stóra aðgerð í haust. „Ég gæti skrifað heila bók um meiðslasögu mína,“ segir hún við Fréttablaðið.
Ákvörðun Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar landsliðsþjálfara að velja Eddu
Garðarsdóttur ekki í EM-hóp Íslands hefur vakið athygli. Margrét Lára
Viðarsdóttir segir að liðið sakni hennar en virði ákvörðun þjálfarans.
„Það er erfitt að missa hana úr liðinu, enda hefur hún verið stór hluti
af okkar landsliðshópi í mörg ár. En það þýðir ekkert annað en að taka vel
á móti nýjum leikmönnum,“ segir hún og bætir við að það ríki jákvætt
andrúmsloft í herbúðum landsliðsins.
„Mér finnst mjög góð stemning í liðinu og við höfum átt frábærar
æfingar síðan að lokahópurinn var valinn. Við ætlum að halda í jákvæðn-
ina og njóta þess að spila fótbolta. Það hefur reynst okkur mjög vel áður.
Við bætum okkur lítið sem knattspyrnumenn á þeim skamma tíma sem
er fram að móti en við getum nýtt hann til að ná upp góðri samstöðu og
jákvæðu andrúmslofti. Við höfum einsett okkur það.“
Landsliðið hefur verið gagnrýnt fyrir misjafnt gengi sitt í aðdraganda
mótsins. „Það er eðlileg gagnrýni en það má ekki gleyma því að við höfum
spilað við lið sem öll eru hærra skrifuð en okkar. Við viljum þó ekki að
okkur sé klappað á bakið fyrir hvað sem er.“
Gagnrýnin á rétt á sér
69 MÖRK Í 88 LANDSLEIKJUM Árangur Margrétar Láru með íslenska landsliðinu er
einstakur og hefur vakið athygli um allan heim. FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL
FÓTBOLTI Stöð 2 Sport 2 mun sem fyrr sýna alla leiki í
ensku úrvalsdeildinni í beinni útsendingu á næsta
tímabili. Sú breyting var gerð á sýningarréttinum að
rétthafar í hverju landi mega aðeins sýna frá einum
leik í beinni útsendingu síðdegis á laugardögum, í
stað margra á hliðarrásum eins og verið hefur.
365 samdi hins vegar sérstaklega um að fá að sýna
alla leikina áfram í beinni þar sem merki Stöðvar 2
Sports 2 er ekki varpað um gervihnött. „Það er rétt,
við höfum tryggt okkur sýningarréttinn af enska
boltanum áfram. Ekki nóg með það því Sport 2
verður eina sjónvarpsstöðin sem býður alla 380
leikina í enska boltanum í beinni útsendingu. Sport 2
mun því hafa þá sérstöðu gagnvart öðrum sjónvarps-
stöðvum í heiminum að vera með alla leikina í beinni,“
sagði Freyr Einarsson, sjónvarpsstjóri 365. - esá
Allir 380 leikirnir í beinni
FÓTBOLTI Fastur punktur í tilveru
ungra íslenskra knattspyrnu-
manna undanfarna áratugi hefur
verið pollamótið í Vestmanna-
eyjum, en það hefur verið haldið
árlega síðan 1984. Mótið er fyrir
6. flokk drengja og heitir í dag
Shell-mótið.
Hundruð ungra drengja frá alls
104 félögum úr öllum landshlut-
um taka þátt í mótinu en þeim
fylgja fjölmargir foreldrar, þjálf-
arar og fararstjórar. Mikil vætu-
tíð hefur sett sinn svip á mótið í
ár en knattspyrnukapparnir láta
það ekki á sig fá, eins og sést
á meðfylgjandi myndum sem
Óskar P. Friðriksson tók fyrir
Fréttablaðið.
Þekktustu knattspyrnumenn
þjóðarinnar eiga það lang flestir
sameiginlegt að hafa spilað á
pollamótinu í Eyjum.
Boltafj ör á Shell-mótinu í Vestmannaeyjum
FÉLGASMÁL Stofnaður hefur verið
sjóður í minningu Ólafs Eðvarðs
Rafnssonar, forseta Íþrótta- og
Ólympíusambands Íslands, sem
varð bráðkvaddur 19. júní.
Minningarsjóður Ólafs E.
Rafnssonar verður notaður í þágu
íþróttahreyfingarinnar í minn-
ingu Ólafs og þess mikla og óeig-
ingjarna starfs sem hann vann
innan hennar.
Ólafur verður jarðsunginn frá
Hallgrímskirkju fimmtudaginn
4. júlí klukkan 15. Erfidrykkja
verður haldin í Íþróttamiðstöð
Hauka að Ásvöllum að lokinni
athöfn. - gb
Útför Ólafs E. Rafnssonar:
Sjóður til minn-
ingar um Ólaf
ÓLAFUR E. RAFNSSON Minningar-
sjóðurinn verður í umsjón Íþrótta- og
Ólympíusambands Íslands.
FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
FÓTBOLTI Spánn mætir Brasilíu
í úrslitaleik Álfukeppninnar á
sunnudaginn eftir sigur á Ítalíu í
undanúrslitum í gær.
Staðan eftir venjulegan leik-
tíma og framlengingu var
markalaus og því þurfti víta-
spyrnukeppni til að knýja fram
niðurstöðu. Skorað var úr fyrstu
tólf spyrnum keppninnar en
Ítalinn Leonardo Bonucci skaut
himinhátt yfir úr sinni spyrnu.
Jesus Navas tryggði svo Spán-
verjum sigur með því að skora úr
sjöundu vítaspyrnu sinna manna
í röð. - esá
Jesus Navas
var hetjan
SPORT