Fréttablaðið - 05.07.2013, Blaðsíða 34
5. júlí 2013 FÖSTUDAGUR| MENNING | 22
TÓNLIST ★★★★★
Perlur íslenskra sönglaga
Flytjendur: Ragnheiður Lilja Óladóttir,
Kristján Jóhannesson og Matthildur
Anna Gísladóttir
KALDALÓNI, HÖRPU 1. JÚLÍ
Íslensk sönglög eru óteljandi. Þau
eru auðvitað misjöfn að gæðum.
Lögin eftir Sigvalda Kaldalóns,
Sigfús Halldórsson og nafna
hans Einarsson, ásamt mörgum
fleirum, eru ódauðleg. Þó má ekki
flytja þau of oft, því þá verður
fólk leitt á þeim. Ég held t.d. að
íslenskir söngvarar hafi eyðilagt
Draumalandið. Það hefur verið svo
vinsælt á tónleikum í gegnum tíð-
ina að maður getur ekki meir.
Röðin Perlur íslenskra söng-
laga samanstendur af tónleikum
í Kaldalóni í Hörpu sem eru
haldnir mörgum sinnum á viku
yfir sumar tímann. Listafólkið er
mismunandi eftir kvöldum. Þarna
eru bestu íslensku sönglögin
flutt. Tónleikarnir eru greinilega
ætlaðir útlendingum, því öll kynn-
ingin er á ensku. Enskri þýðingu
söngtextanna er líka varpað á tjald
fyrir ofan sviðið.
Hugmyndin er ágæt. Við hér á
Íslandi þekkjum þessi lög út og
inn, en ég er ekki viss um að þau
séu svo oft flutt fyrir utan land-
steinana. Það er sjálfsagt mál að
kynna þau fyrir erlendum gestum.
Meira að segja Draumalandið!
Og Draumalandið var einmitt
fyrsta lagið á tónleikum í röðinni
á mánudagskvöldið. Öll lögin sem
á eftir fylgdu voru líka kunnug-
leg: Á Sprengisandi, Í dag skein
sól, Sjá dagar koma, Lindin, Maí-
stjarnan, Dagný, Vökuró, o.s.frv.
Mörg þeirra voru alls ekki leiðin-
leg. Munaði þar miklu um annan
söngvarann, sópraninn Ragnheiði
Lilju Óladóttur. Sem stendur
er hún við nám við Konunglega
tónlistarháskólann í Skotlandi.
Rödd hennar hljómaði enn dálítið
ómótuð, en það sem á vantaði radd-
lega bætti hún upp með einlægri,
þægilegri túlkun. Tónlistin rann
í gegnum hana alveg óheft, söng-
urinn kom beint frá hjartanu. Það
var ljúft að upplifa.
Hinn söngvarinn; Kristján
Jóhannesson baritón, sem einnig
er enn í námi, hafði ekki þennan
músíklega neista. Það vantaði
flæðið í túlkunina, tónlistin virk-
aði ekki nógu eðlileg. Kannski var
hann of meðvitaður um sjálfan
sig, sem er skiljanlegt hjá ungum
söngvara. Maður heyrði þó að
hann er með efnilega rödd sem á
örugglega eftir að blómstra þegar
fram líða stundir.
Píanóleikarinn heitir Matthildur
Anna Gísladóttir. Hún spilaði
margt prýðilega, fylgdi söngnum
af nákvæmni. Hún var þó kannski
heldur sterk þegar Kristján var
annars vegar. Hröð nótnahlaup
voru líka stundum loðin. Bassa-
nótur hefðu almennt mátt vera
skýrari á kostnað þeirra efri.
En hún lék vissulega af réttu
tilfinningunni.
Áheyrendur voru ekkert sér-
staklega margir, varla meira en
30 manns. Flestir hafa væntan-
lega verið erlendir ferðamenn. Ég
gat ekki betur séð en að þeir væru
býsna ánægðir á svipinn að tón-
leikunum loknum. Jónas Sen
NIÐURSTAÐA: Dálítið misjafn
söngur, en túlkunin var oft fersk og
spennandi.
How do you like Iceland?
„Það má segja að náttúrugripa-
safnið sé brunnur til að sækja
myndefni í,“ segir myndlistar-
konan Sara Riel um sýningu sína,
Memento Mori, sem opnuð verður
í Listasafni Íslands í kvöld.
Á sýningunni sýnir Sara
ólík verk af ýmsum gerðum,
– prentverk, silkiþrykk, vídeó-
verk, ljósmyndir, k l ippi-
verk, skúlptúra, málverk –
sem eiga það þó sameiginlegt
að vera unnin út frá flokkunar-
fræðum náttúrunnar. Sýningin á
sér þriggja ára aðdraganda, allt
frá því þegar Sara fór að rýna í
hvers konar myndlist fólk hefði
á veggjum hjá sér og tók eftir
að náttúran eða tilvísanir í hana
voru langvinsælasta stefið.
„Ég er líka leiðsögumaður og
var oft spurð hvar náttúrugripa-
safn okkar Íslendinga væri og
þurfti að svara sem var að það
væri ekki til. Jú, við eigum til
muni á það en þeir velkjast ein-
hvern veginn á milli Náttúru-
minjasafns Íslands og Náttúru-
fræðisafns Íslands. Það fannst
mér bjóða upp á ákveðið sam-
félagslegt samtal: af hverju eiga
Íslendingar ekki almennilegt
náttúrugripasafn?“
Í kjölfarið lagðist Sara í rann-
sóknir og fór á flakk ásamt Davíð
Erni Halldórssyni myndlistar-
manni, þar sem þau skoðuðu
lista- og náttúrugripasöfn í Lond-
on, Berlín og París.
„Við vildum sjá hvernig þetta
er útfært; hvernig er andrúms-
loftið og svo framvegis. Veiði-
safnið í París var mikill inn-
blástur því þar taka þeir öll þessi
element sem eru í boði og leika
sér með framsetninguna en allt í
viktoríönskum stíl.“
Í framhaldinu fór Sara að
stúdera náttúruvísindin og ákvað
að vinna út frá ríkjaflokkum
náttúrunnar.
„Menn greinir að vísu á hversu
mörg ríki náttúran skiptist í.
Ég tók fimm fyrir og allur inn-
blástur sýningarinnar kemur úr
dýraríkinu, svepparíkinu, steina-
ríkinu, ríki einfrumunga og svo
fjölfrumunga.“
Sara segir leit og forvitni hafa
ráðið útfærslunni á hverju verki
fyrir sig; hún hafi leitast við að
brjóta ýmis fyrirbæri niður og
raðað þeim upp á nýtt. Nafn
sýningarinnar Memento Mori
merkir „minnstu þess að þú ert
dauðlegur“.
„Þetta miðar að því að minna
fólk á að njóta tilverunnar meðan
tími er til. Horfa, skoða, taka í
sundur, setja saman á annan hátt
og vera forvitinn.
Sara hefur hingað til einkum
látið að sér kveða í veggjalist eða
graffi, stundum nefnd götulist.
Spurð hvort sýningin í Listasafni
Íslands boði á einhvern hátt frá-
hvarf eða kúvendingu frá götu-
listinni svarar hún afdráttarlaust
neitandi.
„Ég held áfram að vinna að
götulistinni og er að gera röð
veggmynda út frá þessu þema
víðsvegar um bæinn; til dæmis
verkið Fönix við Nýlendugötu,
sem er unnið út frá dýraríkinu,
og Svepp við Hverfisgötu sem
sækir í svepparíkið.“
Sara segist hafa lengi haft
fyrir vara á „listastofnunum“ og
hafa dregist að götulist því hún
hafi verið laus við skrifræði,
formlegheit og háalvarlegt yfir-
bragð. Hún segir þetta þó ekki
þvælast lengur fyrir sér en segir
ákveðinn mun á því að sýna á
formlegu listasafni og á strætum
úti.
„Í fyrsta lagi myndi ég ekki
gera götulist á listasafni; það
væri tilgangslaust að mála á
veggina því þetta er allt annað
umhverfi. Í öðru lagi þá er sam-
bandið við umhverfið allt öðru-
vísi. Þegar maður vinnur að
veggjalist hikar fólk ekki við að
koma upp að manni þegar maður
er vinna og spyrja út í hitt og
þetta. Þá verður til raunverulegt
og milliliðalaust samtal. Á safni
verður fólk hins vegar passívara
og finnst það kannski ekki hafa
forsendur til að spyrja út í verk-
in, ekki vita nóg. Mér finnst þessi
mörk ekki skipta máli og vona að
fólk verði forvitið og ræðið um
verkin mín á Listasafninu og þau
sem ég mála á veggi.“
Memento Mori stendur til
25. ágúst.
bergsteinn@frettabladid.is
Óður til leiksins og forvitninnar
Myndlistarkonan Sara Riel opnar sýninguna Memento Mori í Listasafni Íslands í dag. Innblástur sýningarinnar sækir hún í náttúru-
gripasöfn, sem hún hefur rannsakað undanfarin þrjú ár og unnið verk í ýmsum miðlum út frá fl okkunarkerfi náttúruvísindanna.
SARA RIEL Hefur einkum látið að sér kveða í götulist en kemur sér nú fyrir Í
Listasafni Íslands.
Save the Children á Íslandi
MENNING