Skessuhorn


Skessuhorn - 03.12.2014, Blaðsíða 14

Skessuhorn - 03.12.2014, Blaðsíða 14
14 MIÐVIKUDAGUR 3. DESEMBER 2014 Nú á seinni hluta ársins hefur Þjóð- garðurinn Snæfellsjökull ráðist í ýmis verkefni sem miða að því að bæta aðgengi ferðafólks bæði inn- an marka sjálfs þjóðgarðsins sem og á Búðum, Hellnum og Arnarstapa. Unnið hefur verið að smíði göngu- palla, útsýnispalla og lagningu varanlegra göngustíga. Allt á þetta að hlífa umhverfinu fyrir átroðn- ingi fólks en umferð um þessi svæði eykst stöðugt og nú að heita má allt árið. Til viðbótar þessu er einnig verið að gera upp gömlu útihúsin á Malarrifi sem eiga að þjóna sem að- staða fyrir ferðafólk og starfsmenn þjóðgarðsins. Það verða einnig hlaðin upp sérstök hlið með skiltum við þjóðveginn þar sem hann ligg- ur um mörk þjóðgarðsins. Þannig mun fólk sjá greinilega hvar það fer inn og út af svæðinu. Unnið í haust og vetur Guðbjörg Gunnarsdóttir er þjóð- garðsvörður. Við hittum hana í gestastofu Þjóðgarðsins á Helln- um. Haustið og fyrstu vikur vetrar hafa verið notaðar til framkvæmda. Guðbjörg lýsir því hvað nú er ver- ið að gera. „Þetta eru verk sem bæði voru á framkvæmdaáætlun þessa árs en líka verkefni sem ráðist hefur verið í eftir að við fengum aukafjárveit- ingu í vor leið frá Umhverfisráðu- neytinu. Það eru verkefni sem við vorum búin að skipuleggja en hafði skort fjármuni til að framkvæma. Undir okkar hatti eru umhverf- ismál á Arnarstapa, Hellnum og Búðum. Þegar við erum hins vegar að gera framkvæmda- og rekstrar- áætlanir fyrir Þjóðgarðinn Snæfell- jökul þá gildir það bara um hann. Þeir peningar sem eru eyrnamerkt- ir þjóðgarðinum renna einvörð- ungu til hans. Á síðustu árum höf- um við fengið fyrst tíu milljónir og síðan 20 milljónir árlega í þjóðgarð- inn. Á síðasta ári fengum við auka- fjárveitingu til framkvæmda og þeir peningar sem síðan komu aukalega frá ráðuneytinu í vor, voru um nítj- án milljónir. Í ár erum við með í heildina framkvæmdir upp á um 80 milljónir króna.“ Ný hlið og göngupallar Heilt yfir eru þetta kannski ekki háar fjárhæðir en hver króna er nýtt til hins ítrasta. Eitt það helsta sem flestir ferðalangar munu taka eftir er að sett verða upp ný og áberandi skilti við þjóðveginn beggja vegna inn á svæði þjóðgarðsins. Þetta verða grjóthleðslur með skiltum sem munu sýna svo ekki verður um villst hvenær fólk fer inn og út úr þjóðgarðinum eftir þjóðveginum. Framkvæmdir við þetta eru nú að hefjast. Guðbjörg lýsir svo því sem ver- ið er að vinna núna og hefur þeg- ar verið gert. „Við erum fyrir það fyrsta að láta smíða göngustíg eða göngupall hér við Hellnafjöru. Með þessari vetrarferðamennsku sem er stöðugt að aukast þá fá svona svæði aldrei þá hvíld og frið sem þarf til að mynda yfir haust, vetur og vor eins og áður var. Á vorin er oft orð- ið drullusvað á fjölförnum stöðum, að ég tala nú ekki um á undanförn- um árum þar sem vetur hafa ver- ið mildir með litlum frostum. Stíg- urinn upp frá Hellnafjörunni sem fer um mjóa lænu í landslaginu var orðinn mjög illa farinn af átroðn- ingi. Þarna erum við hreinlega að byggja göngupall yfir enda streym- ir oft vatn þarna um í leysingum og rigningum,“ útskýrir Guðbjörg. Auk þessa er verið að endurbæta stíginn í áttina að Arnarstapa með því að bera í hann möl. Hið sama er gert fyrir gönguleiðina eftir stíg frá Búðakirkju niður að sjó. Bætt aðgengi Guðbjörg segir að einnig hafi verið framkvæmt á vegum þjóðgarðsins á Arnarstapa. „Við höfum smíðað pall með grindverki fram á kletta- snösina við styttuna af Bárði Snæ- fellsás á Arnarstapa þannig að fólk geti aðeins horft fram með strönd- inni. Það hafa líka verið lagðar hellur af svokallaðri Ecogrid -gerð sem grasið getur vaxið upp í gegn- um. Hugmyndin er að gönguhring- urinn á Arnarstapa verði fær hjóla- stólum í framtíðinni, frá styttunni og niður á höfn. Við vonumst til þess að fá aukið fé á næsta ári þann- ig að við getum lokið við að ganga frá stígnum, ekki síst með aðgengi hjólastólafólks fyrir augum. Fólk- ið sem á Amtsmannshúsið á Arn- arstapa hefur einnig unnið ómælda vinnu í göngustígagerð þarna í sjálfboðavinnu þar sem við höfum lagt til efnið.“ Sömuleiðis hafa verið smíðað- ir tveir pallar hlið við hlið hjá Sval- þúfu skammt austan við Lóndranga. Hugmyndin er að þeir gætu meðal annars nýst þar við fuglaskoðun. Sérstaklega hugað að fötluðum Svipaðir göngu- og útsýnispall- ar hafa einnig verið smíðaðir við Skála snagavita sem stendur á Önd- verðarnesi. „Því verki er nær lokið, það á aðeins eftir að vinna frágang við grindverk. Þetta er úr lerki sem við ætlum bara að láta grána þarna við sjóinn þannig að það verði sam- litara við umhverfið. Það er líka of- boðslegur sjógangur við ströndina hér yst á Snæfellsnesi og verður fróðlegt að sjá hvernig þetta kem- ur út. Svona mannvirki eru auð- vitað alltaf inngrip í náttúruna en við verðum einhvern veginn bæði að verja umhverfið og gróður um leið og við gerum fólki kleift að fara um. Þarna er líka hugsað um aðgengi fólks í hjólastólum eins og á Arnarstapa og Svalþúfu. Við höf- um þannig skapað þrjá nýja staði þar sem þeim er gert kleift að fara fram á bjargbrún og njóta sýnar- innar þaðan.“ Göngufólk ætti þó líka að geta glaðst yfir því að til stendur að bæta gönguleiðina upp á hinn vinsæla Saxhól. „Við erum að láta teikna upp nýjar og stærri tröppur úr járni sem eiga að liggja upp á hann. Það er mjög mikið um að fólk gangi á Saxhól enda er hann rétt við þjóð- veginn. Svo er líka búið að skipta um göngubrú uppi í Eysteinsdal sem er leiðin upp á Jökulhálsinn norðamegin Snæfellsjökuls. Gamla brúin hafði gefið sig undan snjó- þunga enda orðin gömul og lúin.“ Skarðsvík og Djúpa- lónssandur til skoðunar Stjórnendur og starfsmenn Þjóð- garðsins eru með fleiri staði í deigl- unni. „Við erum að vinna að skipu- lagi í Skarðsvíkinni. Það er mjög viðkvæmt svæði sem margir heim- sækja og þarf að verja um leið og aðgengi er tryggt og bætt. Við höf- um áhuga á að koma þar upp sal- ernisaðstöðu en þar er ekkert vatn. Það stendur til að leita að því. Einn- ig skortir rafmagn þarna. Þetta er svona úrlausnarefni sem við stönd- um frammi fyrir.“ Aðstaðan við Djúpalónssand er sömuleiðis til skoðunar. „Við höf- um ekki farið í neinar framkvæmd- ir á Djúpalónssandi í sumar en það stendur til að laga þar göngustíg og setja upp tröppur úr stáli eða til- svarandi efni. Svo er spurning um hvenær nýtt salernishús kemur þar. Salernin þar eru reyndar lokuð yfir veturinn. Þarna var borað eft- ir vatni sem fannst. Það mun auð- velda nýframkvæmdir.“ Húsakostur bættur á Malarrifi Guðbjörg segir einnig frá fram- kvæmdum sem nú standa yfir á Malarrifi. „Þar er mikið í gangi með breytingum á gömlu úthús- unum. Þetta eru hlaða og fjárhús sem nú verða endurbætt í aðstöðu fyrir ferðamenn og starfsfólk þjóð- garðsins. Okkur vantar vinnuað- stöðu fyrir landverði og geymslu- húsnæði fyrir tæki og tól. Fjárhús- in hafa verið notuð til slíks en þau voru óupphituð og það fór ekki vel með búnað. Við þurfum að hafa að- stöðu til að saga og mála, þurrka timbur og ýmislegt annað. Nú verður bætt úr þessu. Það er verið að drena umhverfis húsin, endur- nýja þakjárn, einangra og innrétta. Þarna verða líka salerni fyrir ferða- fólk. Í framtíðinni er svo hugmynd- in sú að flytja gestastofu þjóðgarðs- ins sem nú er á Hellnum yfir á Mal- arrif. Hún yrði þá í gömlu fjárhús- unum þar.“ Guðbjörg segir þó ljóst að af flutningum Gestastofunnar verði þó ekki á næsta ári. Hún verður áfram um sinn á Hellnum þar sem hún er í leiguhúsnæði. Gestastofan opin í vetur Geststofan á Hellnum er opin alla daga á sumrin. Nýlunda í ár er að nú er einnig opið yfir veturinn. „Við byrjuðum á þessu í febrúar fyrr á árinu. Þá var opnað hér alla virka daga frá klukkan 12 til 16. Frá 1. október síðastliðnum voru þess- ir opnunartímar svo teknir upp aft- ur. Þessu verður haldið áfram í vet- ur. Nú er þetta fyrsta haustið sem opið er í gestastofunni. Það er allt- af eitthvað af fólki þó umferð- in hafi reyndar dottið mikið nið- ur nú í nóvember. En það er um- ferð um svæðið. Það skiptir máli að hér er opið yfir veturinn og einnig hjá henni Ólínu í Samkomuhúsinu á Arnarstapa frá klukkan 12 til 17. Fjöruhúsinu vinsæla hér á Hellnum var hins vegar lokað í lok október.“ Að sögn Guðbjargar stendur til að fara í verulegar breytingar í vet- ur á því húsi þar sem Gestastofan er til húsa í dag. „Það á að lagfæra þessa byggingu sem gestastofan er hluti af. Kaffihúsið sem hér er og heitir Prímus kaffi verður áfram. Rekstur þess hér í sumar gekk afar vel. Helga Magnea Birgisdóttir sem rak það ætlar að vera með það áfram næsta sumar og það er mjög ánægjulegt.“ Beðið eftir þjóðgarðsmiðstöð Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður vorið 2001. „Þá um haustið tók ég við stöðu þjóðgarðs- varðar og flutti hingað vestur vorið eftir. Ég er búin að vera hér síðan. Þetta er mjög skemmtilegt starf. Við erum tvö sem störfum á vet- urna. Nú í sumar voru svo fjórir landverðir. Á þessum 13 árum hafa orðið ótrúlegar breytingar. Fyrstu árin höfðum við enga peninga. Það var ekki hægt að fara í neinar fram- kvæmdir. Við fengum svo stóraukn- ar fjárveitingar til ýmissa verkefna eftir bankahrunið 2008. Kannski var það vegna framsýni stjórnvalda sem sáu fyrir að umferð erlendra ferðamanna myndi aukast,“ segir Guðbjörg. Þrátt fyrir þetta var þó skorið niður í því fé sem hugmynd- ir voru uppi um að rynnu til upp- byggingar Þjóðgarðsins Snæfells- jökuls. „Áform um þjóðgarðsmið- stöð sem reisa átti á Hellissandi og búið var að hanna og teikna, voru alveg lögð á ís. Lóðin er klár og miðstöðin tilbúin til útboðs. Það fæst hinsvegar ekki fjárveiting, hvað sem síðar verður. Þessi mið- stöð átti að kosta um 300 milljón- ir króna. Hún yrði gríðarleg lyfti- stöng fyrir þjóðgarðinn, Snæfells- nes og Vesturland allt,“ segir Guð- björg Gunnarsdóttir að lokum. mþh Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður: Ýmsar framkvæmdir hjá Þjóðgarðinum Snæfellsjökli Gömlu útihúsin við Malarrifsvita munu ganga í endurnýjun lífdaga þegar þau hafa verið endurbætt utan sem innan. Húsin halda þó upprunalegu útliti sínu en verða innréttuð fyrir ný hlutverk. Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður við Gestastofu Þjóðgarðsins Snæfells- jökuls á Hellnum. Vígfús Þráinn Bjarnason frá Ólafsvík vinnur nú við að gera malarstíg frá bílastæð- inu við Búðakirkju og niður að sjó, alls tæplega 300 metra spöl. Kristinn Jón Einarsson trésmiður frá Ökrum á Hellnum og Árni Svavarsson verktaki smíða palla fyrir þjóðgarðinn. Í síðustu viku unnu þeir við göngupalla á Hellnum sem verða alls um 200 metra langir.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.