Skessuhorn


Skessuhorn - 03.12.2014, Blaðsíða 21

Skessuhorn - 03.12.2014, Blaðsíða 21
21MIÐVIKUDAGUR 3. DESEMBER 2014 Nú brá svo við þegar smalað var á Ströndinni um haustið að fjár- heimtur voru með eindæmum góð- ar og margir kollheimtu sem var óheyrt. Engrar kindar var saknað í Dal og dilkar vænir af fjalli. Sláturs- uða sem fyrrum í gamla útieldhús- inu og kerlingarnar í ham við slát- urgerðina. Mór og surtarbrandur undir pottinum sem var afgamall og með stimpli einhvers Kristjáns kóngs sem ríkt hafði í Danmörku á 17. öld. Þarna stóð Jóreiður háöldruð og orðin rjóð af gufunni. Bætti á vatni eftir því sem sauð upp úr og smakkaði til saltið. Voru nefni- lega engir takkar á hlóðunum þar sem hægt var að auka eða minnka suðuna eins og á rafmagnseldavél- um sem fólkið á Ströndinni hafði spurnir af fyrir sunnan. Jóreiður stakk í keppina með prjóni svo þeir ekki spryngju og örlitið gubbaðist út úr götunum og kom froða ofan á soðvatnið. Þegar henni fannst nóg soðið færði hún upp úr á Stórafat- ið og bar slátrið fussandi inn í bæ. Keimur af slátrinu fyllti hvern krók og kima í eldhúsinu þar sem fólk- ið mataðist og vissi á framhaldslíf þann veturinn. Tími aska og sjálfskeiðunga var að líða undir lok og matur var ekki lengur skammtaður. Húsmóðir- in hafði lagt leirtau á borðið ásamt göfflum og hnífum. Gamalt fólk margt hvert undi ekki vel þessum nýja matarskikk og fannst hinsegin að því skyldi ekki vera skammtað í askinn sinn eins og alltaf hafði ver- ið. Hefði dugað ágæt lega að sitja með hann í klofinu á sér og beita sjálfskeiðungi á átmatinn og spæni á spónamatinn. Margir kusu að nota sjálfskeiðung sinn flugbeittan enn um sinn enda voru borðhníf- arnir vita bitlausir og alls ekki hægt að brýna þá. Aðalatriðið var þó að hesthúsa slátrið, bæði blóð og lifr- arpylsu, á meðan það var nýtt og ganga þannig í að fita sig fyrir vet- urinn sem enginn vissi hvað bæri í skauti sér. Kannski yrði þetta Lurk- ur eða Píningsvetur jafnvel Eymd- arár. Hver vissi það, þeir höfðu svo sem ekki gert boð á undan sér þeir verstu. Og varla færu menn að heimta gjafakorn af kónginum þeg- ar komið var fram á 20. öld, þjóð- in orðin frjáls og fullvalda og ekki lengur upp á neinn kóng að kássast með eitt eða annað. Keppirnir hvíldu bústnir og sællegir á fatinu og enginn hafði sprungið hjá gömlu konunni. Sást gegnum vambirnar hvað var blóð og hvað var lifrarpylsa. Og þótt einhverjum þætti lifrarpylsan betri en blóðið var illa séð að velja bara annað. Gömul þjóðtrú að sultur yrði ekki í búi ef fólkið æti eitthvað af öllu. Drengnum í Dal fannst lifr- arpylsan smakkast betur og amma hans skar fyrir hann enda af væn- um kepp. Til að þóknast henni og þjóðtrúnni bað hann jafnframt um sneið af blóði. Kartöflur og rófur voru soðnar með slátrinu.Talið að kartöflurnar á bænum væru afkom- endur kartaflna þeirra sem Magn- ús Ketilsson sýslumaður í Búð- ardal á Skarðsströnd hafði rækt- að á átjándu öld. Þær voru að vísu ekki ættbókarfærðar, en ýmis vitni höfðu staðfest ættarmótið á jarð- eplunum og þær ættu uppruna sinn að rekja til Sauðlauksdals. Gott ef ásjóna þeirra minnti ekki ögn á séra Björn í Sauðlauksdal. Ættarmót eða fjárbragð voru nefnilega talin nokk- uð óbrigðul sönnunargagn á Skarðs- ströndinni þegar skera þurfti úr um skyldleika manna og dýra, ekki síst sauðkinda. Faðir hans notaði sjálfskeiðung- inn bæði til að skera slátrið og skræla með kartöflurnar. Eins og fólkið vildi ekki éta þær með híðinu af ein- hverjum ástæðum. Drengurinn lét sig hafa það að gleypa þær með húð og hári. Alltaf jafn kærkomið að fá nýtt og rjúkandi slátur og nýjar kart- öflur hvaðan sem þær voru ættaðar enda yrði Adam ekki lengi í paradís með nýmetið því brátt yrði allt upp úr súru og var svo sem ágætt líka. Á móti slátrinu var étið tros, bútungur og saltgrásleppa þegar kom fram á. Bútungurinn var afvatnaður í bæjar- læknum en grásleppan var stundum soðin í tveimur vötnum ef hún var mjög stæk af salti. Dilkaket var ekki á borðum í Dal því það var allt til frá- lags þótt verðið væri smánarlegt. Bóndinn var að rembast við að kaupa kotið af lénsveldinu gamla á Barði og ekkert stóð út af. Vaninn að slátra geldrollu fyrir jólin og þótti hátíðarmatur. Gamlir hrútar fóru í reyk og stundum hafði verið skellt undan og reykt sauðaket í jólamat- inn og þótti eiginlega ofdirfð. Nú var farið að reykja í sérstökum reyk- kofa þar sem hlóðaeldhúsið var bara nýtt við sérstök tækifæri eins og slát- ursuðu. Þau kjömsuðu á blessuðu slátrinu og amma hans saug tannlítil úr vömb- unum ef henni fannst ekki nógu vel að unnið. Eiginlega var fyrsta sláturs- uðan heilmikil hátíð og eins og upp- takurinn að næringunni næsta matar- árið og hvernig til tækist. Faðir hans var samt eitthvað annars hugar og skar sig í fingurinn með bannsettum kutanum. Það var honum ólíkt og benti til þess að hann væri ekki all- ur við matborðið. Amman kom með rýju og batt um fingur sonar síns svo ekki blæddi út í matinn. Hún var fljót til og hafði ætíð verið frá á fæti og fylgin sér við hvaðeina. Kölluð þriggja gusu kona við rakstur og rak- aði þrjá sláttumenn í rass. Bóndinn settist aftur að blóðinu og skar aðra sneið ásamt lifrarpylsu og gleypti í sig matinn án þess að segja orð. Var meira að segja hættur að skræla kartöfurnar úr Sauðlauks- dal. Tók svo til orða: Hræddur um að við verðum að yfirgefa jörðina ef það verður sýkn- að. Þá má búast við að það telji sér heimilt að halda uppteknum hætti og verður ólíft í nágrenninu sem eft- ir er. Veit að þetta eru stór orð en ég er bara kominn á tamp. Þetta var fyrsta opinbera yfirlýsing föður hans um styrjöldina á Ströndinni. Aldrei hafði hann ýjað að því einu orði við son sinn eins og honum kæmi það ekki við. Varla til að hlífa drengn- um heldur bara að það tíðkaðist ekki að blanda neinum og síst börnum í svoleiðis málefni. En nú var Alexíus bóndi bara kominn á tamp eins og hann kallaði það og orðið var laust í eldhúsinu. Illur fengur þvældist út úr ömmunni, húsfreyja lagði ekki orð í belg eins og hún hafði verið alin upp við og bar sig til við að vaska upp og ganga frá leirtauinu. Bárust nú tíðindi vestur þegar ár var liðið frá innbrotinu í kaupfélagið. Hæstiréttur sat á rökstólum og allt í óvissu um niðurstöður. Þeir voru víst ekki undir neinu agavaldi þeir háu herrar í hæstarétti sem truttaði þá áfram. Tækju sinn tíma að fara yfir rollutalið og telja melísinn og kaffi- baunirnar úr kaupfélaginu ef að lík- um léti. Heyfengur við Breiðafjörð hafði verið með skásta móti þettasumar og þurrkvandir menn í essinu sínu yfir góðum heyjum. Dilkar af fjalli voru í meðallagi eins og jafnan í þurrka- sumrum. Verð á keti var enn þá lágt eins og á öðrum afurðum í krepp- unni og menn reyndu samt held- ur að fjölga. Ullin gerði svolítið og reynt að fara vel með hana. Þau í Dal höfðu staðið í skilum með afgjöld af jörðinni, 40 lambsfóðrum, en útlit- ið var svo sem ekki gott. Þótt dreng- urinn væri ekki nema tólf ára var honum afkoma fjölskyldunnar ofar- lega í sinni og reyndi að létta undir af fremsta megni. Það hétu afkomu- áhyggjur. Hann hefði getað fæðst til verri að- stæðna, alltaf nóg að bíta og brenna þótt fæðan væri einhæf. Var reynd- ar alltaf látinn ganga í druslum og á gúmmítúttum og fyrirvarð sig fyrir útganginn. Skyldi nú fara í skólann í haust sem ekki var lengur farskóli og kveið fyrir að koma eins og ein- hver leppalúði á vettvang. Fengi lík- lega ekki sæmilegan klæðnað fyrr en hann gengi fyrir gafl. Foreldrar hans voru ekki útslátt- arsamir, jörðin skyldi ganga fyr- ir öllu. Var því ekki beint búhnykk- ur að vanta tíu gemlinga á hausti og faðir hans þögull sem gröfin um ör- lög sauðkindanna. Hann var norð- an af Ströndum kominn af fátæku en bjargálna fólki og hlutskipti hans vinnumennska og þrældómur. Syni hans fannst hann harðlyndur og botnaði ekki í hvössu aðkalli við fólk og fénað. Skildi það ögn seinna að baráttan fyrir brauðinu hafði verið upp á líf og dauða. Átti aldrei fyrir að liggja að erfa eitthvert óðal feðr- anna, hafði á ekkert annað að treysta en mátt sinn og megin og að halda heilsu. Því varð hann drengnum nokkur fyrirmynd að stunda aflraun- ir og komast frá erfiðum verkum án þess að æmta, enda var stráksi bráð- þroska og sterkur eftir aldri. Búskap- urinn var í rígföstum skorðum og engin áhætta tekin að breyta neinu til eða frá. Sauðsvartur almúginn sem stritaði í sveita síns andlitis eins og fólkið á Ströndinni gaf sér allajafna ekki tíma fyrir mikinn bóklestur. Samt var það svo að í einstaka unglingi blundaði fýsnin til fróðleiks og skrifta. Virt- ist svo með drenginn í Dal sem brátt yrði unglingur. Sú viðleitni var köll- uð forvitni og hnýsni og varla góðs viti því ekki varð bókvitið í askana látið, það var enn óumdeilt. Drengurinn las allt sem hann kom höndum yfir, meira að segja hafði hann snapað uppi bækur eftir Hall- dór nokkurn Kiljan sem bændur létu hunda sína heita í höfuðið á í virð- ingarskyni. Amma hans fussaði yfir þeim bókmenntum og án þess að hafa lesið þær svo vitnum yrði við- komið. Hann vissi að við Breiða- fjörð hafði gerst mikil saga sem hann þyrsti í að kynnast. Amma hans hafði svo sem innbyrt heilmargt á sinn hátt. Hafði verið heyrnar- og sjónar- vottur atburða í tæplega hundrað ár. Vissi undan og ofan af deilum höfð- ingja og hafði fylgst með almennri hnignun og stöðnun samfélagsins um leið og nútíminn hafði riðið hjá garði á veglausri Ströndinni. Því var það drengnum ákveðin hugsvölun þegar amma hans bað hann að afrita pjötlurnar frá Frið- riki Eggerz eins og hún orðaði það og fyrir honum opnuðust duldir heimar. En hvergi kom drengur- inn þó auga á jafn skýlaust ofbeldi sem fjölskylda hans og nágrann- ar höfðu mátt þola í yfir tuttugu ár. Heldur voru þetta einlæg mála- ferli, meira að segja deilur um það milli prófasts og þeirra feðga séra Eggerts á Ballará og Friðriks sonar hans hvort þeir hefðu neitað að af- henda prófasti lykilinn að kirkjunni í Búðardal á Skarðsströnd á með- an hún hékk uppi. Sú þræta end- aði fyrir hæstarétti í Kaupmanna- höfn með fullum sigri þeirra Ball- arárfeðga þar sem aldrei sannaðist að þeir hefðu beinlínis neitað pró- fasti um lykilinn þegar hann kom óforvarendis að visitera kirkjuna. Þetta var skemmtan manna í fá- sinninu á 19. öld. Þótt undirtónn- inn hafi verið alvarlegur og séra Friðrik þungur á bárunni sýndist stráksa hann vera mikill húmoristi og stríðnisgoggur. Fann svo texta úr marhálminu hjá ömmu hans frásögn af því þeg- ar ekkjan Sigþrúður, tengdamóð- ir Friðriks, fór frá Svarfhóli í Staf- holtstungum þar sem hún hafði búið. Þá stillti Friðrik hlandkollun- um á heimilinu upp í bæjardyrum og læsti svo bænum. Þegar bæjar- ins var vitjað misseri síðar höfðu Tungnamenn lagt sig niður við að stela öllum hlandkollunum. Sagði Friðrik þetta til marks um ómerki- legheit Borgfirðinga sem hann hafði alltaf illan bifur á. Ekki laust við að samanburð- ur við þessa fyrritíma karla hafi smækkað þá núlifandi ærið. Þeir voru skítugir og loðnir með tób- akstaumana niður á bringu. Töl- uðu vart um annað en rollur og heyskap af þessum túnkrögum sínum sem ekkert voru og skita var uppáhaldsumræðuefni þeirra. Hefði nú ekki veitt af að fá þúf- nabanann á Ströndina og láta hann tæta niður kargann kringum kot- in þeirra og sá í. Nei, heldur vildu þeir berja á honum með þessum bitlausu fornaldarverkfærum og urðu að nota rekjuna á nóttunni hálfsofandi og alsofandi. Notuð- ust flestir við búmannsklukkuna en ekki símaklukkuna sem mældi hinn opinbera tíma landsmanna. Trúðu að Torfaljáirnir væru endimörk allra framfara í landbúnaði og ekki meira um það. Haustmyrkur lögðust nú á við Breiðafjörð sem annars staðar og fylgjur og fyrirboðar fóru að láta á sér kræla. Myrkhræðsla var enn landlæg og fólk sá draug í hverju horni. Eftir að bílaöld gekk í garð þurfti fólk að vera fljótt að skella aftur þegar farið var milli lands- hluta svo fylgjurnar slæddust ekki með. Fylgjum fannst jafngaman að sitja í bílum og þeim var illa við sjó- ferðir. Kom reyndar ekki að sök á Ströndinni þar sem engir vegir fyr- irfundust og enginn bíll að troða sér inn í. Því héldu fylgjur sig ein- att heimafyrir og fóru í hæsta lagi á milli bæja. Kafli úr bókinni Illur fengur eftir Finnboga Hermannsson www.skessuhorn.is Á þriðja þúsund síður af efni á ári – um 160.000 fréttir, tilkynningar, greinar og annað efni af Vesturlandi Þetta allt færðu í Skessuhorni – hvergi annars staðar Ertu nokkuð að missa af? Ertu áskrifandi? Áskriftarsíminn er 433-5500 og á heimasiðunni: www.skessuhorn.is

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.