Læknablaðið - 15.01.2006, Síða 7
RITSTJÓRNARGREINAR
Um þagnarskyldu lækna
Læknisefnum er innrætt frá fyrstu tíð að gæta
ítrustu þagmælsku þegar málefni sjúklinga ber á
góma; ekki megi ræða persónuleg málefni sjúk-
lings nema í hans þágu og við þá sem vinna fyrir
sjúklinginn og hafa umboð hans til þess. Þetta er
góð regla sett fram til að tryggja trúnað sem ríkja
þarf milli sjúklings og læknis og að læknirinn hafi
alltaf þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að
veita viðeigandi hjálp. Þannig er reglan ekki eign
læknisins eða skjöldur, heldur sjúklingsins og alfar-
ið sett í hans þágu.
Þagnarskyldan hefur fylgt læknum svo lengi
sem þeir þekkja sögu sína. Hippókratesareiðurinn,
sem talinn er vafalítið um 2400 ára, segir: „Á allt
það, sem mér kann að bera fyrir augu og að eyrum,
þá er ég gegni starfi mínu, mun ég líta sem leynd-
armál og þegja yfir, sama máli gegnir um það, er
ég kann að frétta um lifnað annarra, þá er ég er
utan starfs." (1) Codex ethicus íslenskra lækna
segir: „Lækni er skylt að forðast af fremsta megni
að hafast nokkuð að, er veikt gæti trúnaðarsam-
band hans við sjúklinga sína. Lækni er óheimilt að
skýra frá heilsufari, sjúkdómsgreiningu, horfum,
meðferð eða öðrum einkamálum sjúklinga eða
afhenda gögn með upplýsingum, sem sjúklingar
hafa skýrt honum frá eða hann hefur með öðrum
hætti fengið vitneskju um í starfi sínu, nerna með
samþykki sjúklings, eftir úrskurði dómara eða
samkvæmt lagaboði. Lækni ber að áminna sam-
starfsfólk og starfslið sitt um að gæta með sama
hætti fyllstu þagmælsku um allt er varðar sjúkling
hans. Lækni hlýðir ekki fyrir dómi, að leggja fram
sjúkraskýrslur máli sínu til sönnunar án úrskurðar
dómara. Sjúklingur getur hins vegar krafist þess,
að slfk skýrsla um hann sé lögð fram.“ (2)
Alþjóðafélag lækna, World Medical Association
(WMA), hefur við ýmis tækifæri ályktað um þessa
hlið læknisstarfsins og telur hana augljóslega eina
af veigamestu grundvallarsetningum siðareglna
lækna. I Genfarheiti lækna segir: „Ég mun virða
þau leyndarmál, sem mér er trúað fyrir, jafnvel
eftir að sjúklingur er látinn." (3) f alþjóðlegum
siðareglum lækna segir: „Lækni ber að viðhalda
algerri leynd um allt það, sem hann veil um sjúk-
ling sinn, jafnvel eftir að sjúklingur er látinn.“
Lissabonyfirlýsingin segir: „Sjúklingur á þann
rétt, að vænta þess að læknir hans virði trúnað urn
allar upplýsingar er varða læknisfræðileg atriði og
einkahagi."
Á þessi sjónarmið reyndi fyrir fáum misserum
þegar umræður um miðlægan gagnagrunn á heil-
brigðissviði stóðu sem hæst. Ein höfuðforsenda
fyrir málatilbúnaði Læknafélags íslands fyrir því
að WMA tæki lög um gagnagrunn á heilbrigðis-
sviði til umræðu var mikilvægi þess að ekki yrði
rofinn trúnaður millum læknis og sjúklings, þannig
að trúnaðarsambandið skaðaðist og spillti þann-
ig hagsmunum sjúklingsins. Hvað sem mönnum
fannst um ágæti umræddrar hugmyndar um gagna-
grunn og framkvæmd hennar voru menn sammála
um að þetta álitaefni væri nægjanlega alvarlegt til
að fjalla um það og jafnvel álykta, eins og síðar
varð (4).
Löggjafinn hefur virt þagnarskyldu lækna á svip-
aðan hátt og læknar sjálfir. Lagaumhverfi þagn-
arskyldunnar virðist að inntaki endurspegla þann
skilning að mikilvægi hennar felist einmitt í þeirri
staðreynd að ekki megi fæla sjúklinga frá því að
leita sér læknishjálpar vegna hættu á að læknirinn
spilli einkahögum þeirra með lausmælgi. Um þetta
er fjallað á öðrum stað hér í Læknablaðinu (5).
Nú er sótt að þessari þagnarskyldu. Á nýlegu
málþingi í Norræna húsinu um samslarf og sam-
skipti lögreglu og heilbrigðisþjónustu í tengslum
við fíkniefni og Læknafélag fslands átti aðild að
komu fram efasemdir um að hin lögboðna skylda
lækna ætti að vera svo fortakslaus eins og lög byðu
eða gildandi lög skýrð á þann hátt sem nú væri
almennt gert. Ljóst er að læknar í fremstu víglínu
hafa ekki allir sama skilning á skyldum sínum
varðandi einkahagi þeirra sem til bráðamóttöku
leita. Annars vegar er sjónarmið þess sem telur að
læknir eigi að láta sig engu varða hvað sjúklingur-
inn (glæpamaðurinn) aðhefst fyrir og eftir veitta
læknishjálp, og hins vegar sjónarmið þess sem telur
að þagnarskyldan eigi ekki að hindra lækni í að
koma í veg fyrir frekari glæpi og stuðla að björgun
mannslífa.
Þetta eru auðvitað virðingarverð úrlausnar-
efni sem krefjast alvarlegrar íhugunar og umræðu
í hópi lækna. Því er frekari nauðsyn hennar að
lögreglan virðist fremur hallast að eftirgjöf hvað
varðar lagaskylduna, þó samhliða þeirri kröfu
sé sýndur skilningur og virðing fyrir þessari alda-
gömlu reglu.
Ég tel að læknar eigi formlega að hefja umræðu
um þagnarskylduna og hefur stjórn Læknafélags
íslands beint því til Siðfræðiráðs félagsins að hafa
forgöngu í því máli.
Sigurbjörn
Sveinsson
Heimildir
1. Steffensen V. Hippókrates
faðir læknisfræðinnar,
Reykjavík, Bókaútgáfan
Norðri 1945.
2. Læknafélag íslands, www.
lis.is, Codex Ethicus
- Siðareglur Læknafélags
íslands, 13. gr.
3. Bjarnason Örn. Siðfræði
og siðamál lækna, Iðunn
og LÍ og LR, Reykjavík
1991:189.
4. The World Medical
Association Decleration
on Ethical Considerations
Regarding Health Data-
bases, adopted by the
WMA General Assembly,
Washington DC 2002.
5. Læknablaðið 2006; 92: 39-
41.
Höfundur er heimilislæknir
og formaður Læknafélags
íslands.
Læknablaðið 2006/92 7