Læknablaðið

Årgang

Læknablaðið - 15.01.2007, Side 52

Læknablaðið - 15.01.2007, Side 52
UMRÆÐA & FRÉTTIR / SAGNFRÆÐI Síra Jón Steingrímsson - líf hans og lækningar II Örn Bjarnason Grein þessi (og sú fyrri er birtist í síðasta tölublaði) eru byggðar á erindi sem höfund- ur flutti á Eldmessu: Málþingi um séra Jón Steingrímsson og Skaptárelda í Öskju, 2. apríl 2006, á vegum Kirkjubæjarstofu, Guðfræðistofnunar, Jarðvísindastofnunar og Sagnfræðistofnunar Háskóla íslands, svo og Vísindafélags íslend- inga. Höfundur var ritstjóri Læknablaðsins 1976-1993. Hann er að mestu hættur lækningum og vinnur nú að undirbúningi að útgáfu á norrænum lækningahandritum frá miðöldum og skýringum á þeim. 52 Læknablaðið 2007/93 Sex árum eftir að Jón Steingrímsson hlaut við- urkenningu konungs, eins og sagt var frá í síðasta tölublaði, urðu harkaleg umskipti á stöðu hans og högum. Síra Jón lýsir upphafi Skaftáreldanna svo: Svo byrjast upphaf drottins tyftunar og nýrra hörmunga, sem komu yfir mig og aðra, þó með stærri biðlund og vægð en verðskuldað höfðum, sem eftir fylgir. 1783 þann 8. Junii á hvítasunnuhátíð gaus hér eldur upp úr afréttarfjöllum, sem eyðilagði land, menn og skepnur... (1) Þarf ekki að eyða mörgum orðum á þær ægilegu hörmungar sem yfir landið gengu og mest þó yfir síra Jón og sóknarbörn hans, svo kunnar sem þær eru allri þjóðinni. Peningatökumálið Vorið 1784 fór síra Jón fótgangandi frá Prestbakka suður á Álftanes til fundar við Lauritz Andreas Thodal stiftamtmann, því engan reiðskjóta var að fá í sveitinni.Thodal afhenti prófasti hluta þess fjár sem borizt hafði frá Danmörku til hjálpar nauð- stöddum. í formála að ævisögu Jóns Steingrímssonar segir Guðbrandur Jónsson að á prófasti hafi mjög mætt svonefnt peningatökumál, sem varð þegar Jón Steingrímsson „af hjálparsjóði til þeirra, er orðið höfðu fyrir tjóni af Skaftáreldinum, sem hann átti að flytja Lýð sýslumanni Guðmundssyni, tók fé til bjargar mönnum að austan er voru staddir á Rangárvöllum til fjárkaupa. Auðvitað var það sem síra Jón þarna gerði alveg hárrétt eins og á stóð, og nú á dögum myndi honum hafa verið þakkað tiltækið, það er að segja ef ekki hefði hlaupið pólitík í málið. En yfirvöldunum þá fór öðruvísi því þau tóku á þessu af fullri óskynsemi og reyndu að auðmýkja og lægja Jón fyrir þetta svo sem unnt var, enda þótt hann með kvittunum gerði fullnægj- andi reikningskap ráðsmennsku sinnar með féð. Honum gramdist sem von var og fannst vera lagt á sig þjófsorð“ (1). Þess ber að geta að sýslumanni var upp á lagt að útbýta fénu „milli þeirra bænda, sem mest höfðu liðið af eldsins yfirgangi, til að kaupa þeim gripi og kyrrsetja þá svo við jarðirnar. Áttu þeir gripir að sækjast austur í Múlasýslu ..." (1). En þegar síra Jón kemur að Stórólfshvoli, berast þangað „bréf og aðrar bevísingar, að pestin hafði og komið í Múlasýslu, og þar engin lífsbjarg- arskepna fáanleg” (1). Síra Jón gerði Thodal að sjálfsögðu grein fyrir ráðstöfun fjárins og Thodal vísaði málinu til stjórnvalda í Kaupmannahöfn. Árið 1785 tók Hans Christoffer Didrik Victor von Levetzow kammerherra við stiftamtmanns- embættinu af Thodal. Levetzow var fæddur árið 1754, kominn af þýzkum aðalsættum, eins og margt stórmenna í Danmörku, og hafði framazt í hirð- mennsku frá unga aldri. Kammerherrann fær þá umsögn um miðja 20. öld að hann hafi verið ötull og kappsamur og að mörgu röggsamlegt yfirvald. Þó hafi hann komið sér heldur illa við landsmenn, og olli því bráðlyndi hans og stórbokkaháttur, er leiddi hann hvað eftir annað í gönur. Levetzow hafi verið einn af þeirri tegund háttsettra embætt- ismanna á einveldisöld, er gerði strangar kröfur um skilyrðislausa hlýðni og auðmýkt af hálfu und- irmanna sinna (16). Urðu ýmsir fyrir hroka hans og yfirgangi, þeirra á meðal Hannes Finnsson, er tók við biskupsembættinu af föður sínum, Finni Jónssyni, árið 1785. Síra Jón skal straffa Jón Steingrímsson segir frá því, að „herra bisk- up Hannes fær skrif frá cancellíinu af 25. Junii, í hverju stiftamtmanni Levetzow og honum er uppálagt að straffa mig fyrir upptekning og útdeil- ing úr pakkanum. Gerir biskup þar skrif til mín af 21. Septembris 1785, að eg gefi honum skriflega til kynna, fyndi eg mér nokkuð til forsvars eður máls- bóta móti svo harðri áklögun” (1). Síra Jón segir frá því að varalögmaður setti „sig til að koma í veg fyrir sérhvað, er mér mátti mein að verða, varaði mig við því, er honum sýndist mér hætt, gaf mér forskriftir til eins og annars, er eg hlaut að láta fyrir æðri menn koma, þótt fátt sjáist hér” (1). Hér víkur síra Jón að jafnaldra sínum, Magnúsi Ólafssyni úr Svefneyjum, varalögmanni sunnan og austan, en Eggert bróðir hans, sem drukknaði árið 1767, hafði gegnt embættinu áður. Magnús var tengdasonur Finns biskups og mágur Hannesar biskups. Hefir ekki verið ónýtt fyrir síra Jón að eiga vináttu Magnúsar, sem enn var stóls- haldari í Skálholti árið 1785. Prófasturinn segist hafa afhent biskupi alla

x

Læknablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.