Fréttatíminn - 22.12.2014, Side 58
58 bækur Helgin 22.-28. desember 2014
RitdómuR SvaRthvítiR dagaR RitdómuR veRaldaRSaga mín – æviSaga hugmynda
P étur Gunnarsson segir í Veraldar-sögu sinni – ævisögu hugmynda frá mikilvægum mótunarárum í lífi
sínu, en bókin hefst þegar hann heldur til
náms í Frakklandi árið 1968.
„Reyndar var erindi mitt til Parísar ekki
að nema heldur skrifa. Þetta var á því stigi
rithöfundarköllunarinnar þegar manni
finnst að allt og sumt sem þurfi sé nógu
sláandi yrkisefni, afgangurinn komi af
sjálfu sér.“ (20)
Hinn ungi Pétur er ekki bara að upp-
götva ástina og listina, heldur einnig póli-
tíkina og allar hugmyndirnar sem gras-
seruðu í suðupotti Evrópu á þessum tíma
róttækninnar. Hann hefur kynnst konunni
sem verður hans lífsförunautur og sam-
an fara þau í ævintýralegt puttaferðalag
um Ítalíu og Grikkland. Á þessum árum
verður hann rithöfundur, sendir frá sér sitt
fyrsta handrit (sem hann fær raunar í höf-
uðið aftur) en síðar tekur Sigfús Daðason
hann upp á sína arma og samþykkir útgáfu
ljóðabókarinnar Splunkunýs dags, eins og
frægt er orðið.
Hvað mótar manneskju? Hvað gerir
okkur að því sem við erum? Hvernig verð-
ur rithöfundur rithöfundur? Hvaða atvik
verða til þess að við vöknum til vitundar
um veröldina í kringum okkur? Pétur leitar
í smiðju Þórbergs Þórðarsonar og talar um
endurfæðingar sínar, „þessar umpólanir
sem marka skil og breyta manni“ (54) sem
hann segir hafa verið bíó, hesta, kynhvöt,
HKL, Bítlana, ástina og Marx.
Ekki einungis kemst maður nær höf-
undarverki Péturs Gunnarssonar og því
sem mótaði hann, heldur líka ýmsu öðru
sem maður hafði kannski ekki leitt hugann
að áður. Pétur er fræðari af guðs náð og
honum lætur vel að segja frá aðskiljanleg-
ustu hlutum á skýran og skilmerkilegan
máta. Dæmi má nefna úr bókinni, þegar
hann fer yfir lífshlaup Karls Marx og gerir
það svo átakanlegt og heillandi að lesanda
liggur við gráti.
Raunar hvarf ég svo gersamlega inn í
bókina að ég gleymdi að nótera hjá mér
það sem mig langaði helst að segja í þess-
ari umsögn. Því skrifa ég bara eitthvað, í
von um að fólk lesi ekki textann, heldur
líti bara á stjörnurnar (er einhver búinn að
fá nóg af þessum stjörnubröndurum? ókei,
ég er hætt).
Það sem líka er svo aðlaðandi við Ver-
aldarsögu Péturs er að hann teygir eng-
an vaðal yfir fimm hundruð síður (sem er
sennilega frekar freistandi þegar maður
býr að gáfum hans og lífsreynslu). „Stíll
er að þegja réttilega um það sem ekki
skiptir máli,“ hefur verið sagt. Og enn-
fremur: „Stíllinn er maðurinn sjálfur.“ Og
það er sannarlega heillandi manneskja sem
myndast á síðum bókarinnar. Stillt, hóg-
vær og launfyndin.
Veraldarsaga Péturs Gunnarssonar er
óvenjuleg bók. Hún „lætur ekki mikið
yfir sér,“ eins og sagt er, en er djúp, hlý
og fögur. Hún miðlar vakningu hugmynda
og andrúmslofti snemmfullorðinsáranna á
sannfærandi hátt og hún vekur nostalgísk-
an lífsþorsta í brjósti lesandans.-þhs
Umpólanir Péturs
Vetrarhefti tímaritsins Þjóðmála kom út á dögunum. Meðal efnis í því er ritgerð
Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um fall íslensku bankanna þar sem
m.a. er leitað skýringa á því hvers vegna bresk yfirvöld beittu
hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans. Ívar
Jónsson fjallar um hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins og
mælist til þess að flokkurinn hefji „samfélagslega ábyrgð“ á
ný til vegs í stefnu sinni.
Björn Bjarnason skrifar um endurminningar Jóns Steinars
Gunnlaugssonar, afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og
blekkingar vegna Reykjavíkurflugvallar. Þá dregur Þorsteinn
Antonsson fram í dagsljósið bréf Kristmanns Guðmundssonar
til útgefanda síns, Ragnars í Smára og Karl Sigurbjörnsson
skrifar jólahugvekju. Jóhann J. Ólafsson skrifar og um
íslenska mannanafnahefð.
Ritstjóri Þjóðmála er Jakob F. Ásgeirsson en tímaritið
hefur komið út fjórum sinnum á ári síðan 2005.
Vetrarhefti Þjóðmála komið út
Þær Birgitta Elín Hassell og Marta
Hlín Magnadóttir hafa gengið frá
samningi við Arena Verlag, einn
stærsta útgefanda barna- og
unglingabóka í Þýskalandi, um
útgáfu þriggja fyrstu bókanna
um Rökkurhæðir.
Samningurinn við Arena Verlag
markar tímamót í starfsemi
Birgittu Elínar og Mörtu Hlínar
sem höfunda og útgefenda, að
því er segir í fréttatilkynningu.
Fulltrúi þýska forlagsins hafði
samband við þær á bókamess-
unni í Frankfurt í ár og í kjölfarið
hófust viðræður sem lyktaði með
samningi.
Arena Verlag hyggst gefa út
fyrstu Rökkurhæðabókina,
Rústirnar, í janúar 2016 og síðan
þær næstu, Óttulund og Kristófer,
þremur og sex mánuðum síðar.
Þýska forlagið hyggst jafnframt
gefa út hinar þrjár Rökkurhæða-
bækurnar, sem út eru komnar
hérlendis, og þá sjöundu og
síðustu, sem verður skrifuð og
gefin út á næsta ári hjá Bóka-
beitunni.
Anika Wolff þýðir bækurnar. Hún
hefur áður þýtt bækur höfunda
á borð við Guðrúnu Helgadóttur,
Guðrúnu Evu Mínvervudóttur og
Kristínu Steinsdóttur á þýsku.
Rökkurhæðir gefnar út í Þýskalandi
Jóhanna Kristjónsdóttir skrifar í Svarthvítum
dögum um æsku sína, frá því að hún man eftir
sér og þar til hún er sautján ára og kynnist Jökli
Jakobssyni, en árunum eftir það hefur hún gert
skil í öðrum sjálfsævisögulegum bókum, m.a.
Perlum og steinum (1993), Kæra Keith (1997)
og Insjallah: á slóðum araba (2001).
Að mörgu leyti eru Svarthvítir dagar ákaflega
hefðbundin sjálfsævisaga. Fyrirvarar eru settir
við brigðult minni og stundum bætt um betur
með „ég man þetta ekki, en mér var sagt frá
því.“ Líkt og í hefðbundnum sjálfsævisögum er
forfeðrunum gerð rækileg skil (meira að segja
ættartré í upphafi bókar). Fæðingar- og dán-
arár, búseta, atvinna og sagt frá einkalífi upp að
ákveðnu marki.
Fyrri hluti bókarinnar er byggður upp af eins
konar minningarleiftrum eða smáminningum sem
sýna hvernig barnshugurinn virkar. Það sem situr
fast í minninu er ef til vill fremur ómerkilegt í hinu
stóra samhengi og fullorðna fólkið tekur jafnvel
varla eftir því. Þegar kötturinn sleikti kakósúpuna,
þegar strákurinn neitaði að dansa í dansskólanum,
þegar Axel skaut rakettunni á loft. Smámyndirnar
eru margar hrífandi bernskar og skemmtilegar.
Sumir af köflunum 269 hefðu þó e.t.v. mátt missa
sín. Þar á ég t.d. við kafla þar sem taldir eru upp
vinir foreldra höfundarins eða nágrannar – þeim
lýst og sagt undan og ofan af ævi þeirra. Þessir
stuttu kaflar eru oft lítið annað en neimdropp
(stundum með titlatogi við hæfi) og enda yfirleitt á
einhverju á borð við: „X lést um fimmtugt, frá konu
og þremur börnum.“
Góðir eru kaflarnir þar sem Jóhanna segir af
einlægni frá vandræðum sínum við að eignast vin-
konur og bregður upp svipmyndum úr skólalífinu
í Landakoti og Kvennó, svo ekki sé talað um þau
ósköp þegar hún vogaði sér að kyssa strák í sveit-
inni og það hafði aldeilis ófyrirséðar afleiðingar.
Langbest tekst höfundi upp þegar hún lýsir for-
eldrum sínum og öfum og ömmum. Kristjón og
Elísabet voru bersýnilega sterkir karakterar, giftu
sig án blessunar foreldra sinna og voru lengi að
bíta úr nálinni með það. Sérlega forvitnileg er svo
saga ömmu Valgerðar og afa á Krók, en þau skildu
eftir áratugalanga sambúð og enginn vissi hvers
vegna. Í frásögninni af þeim er dramatík í stórum
skömmtum. -þhs
Myndir úr bernsku
veraldarsaga mín
– Ævisaga hugmynda
Pétur Gunnarsson
JPV útgáfa, 2014, 166 s.
Svarthvítir dagar
Jóhanna Kristjónsdóttir
Sögur útgáfa, 2014, 380 s.
Pétur Gunnarsson.
Laugavegi 86 101 Reykjavík S. 511 2004 www.dunogdur.is
Glæsileg jólatilboð á öllum vörum
Hreinsum og
endurnýjum
allar tegundir
af sængum