Ægir - 01.06.2007, Blaðsíða 21
21
en þá varð ég skipstjóri á Hólmatindi og
var með hann þar til fyrirtækið keypti
Jón Kjartansson, sem þá var Narfi. Við
því skipi tók ég í maí 1978 og var með
hann í um áratug. Þegar hér var komið
sögu fékk Aðalsteinn, tengdafaðir minn,
mig til þess að koma í land og starfa sér
við hlið í landi. Sannast sagna vildi ég
síður koma í land vegna þess einfaldlega
að mér leið mjög vel á sjónum og hefur
alltaf gert. Sjómennskan er það sem ég
kann best. En engu að síður varð ég við
þessari ósk tengdaföður míns og varð
rekstrarstjóri Hraðfrystihúss Eskifjarðar,
eins og fyrirtækið hét þá, til að byrja
með en síðar hafði ég yfirumsjón með
síldarsöltun sem var undir merkjum Jóns
Kjartanssonar hf., sem Aðalsteinn átti að
stærstum hluta. Kristinn heitinn Jónsson,
bróðir Aðalsteins, átti Jón Kjartansson hf.
á móti bróður sínum og úr varð að Að-
alsteinn keypti hlut Kristins heitins af
börnum hans og sömuleiðis eignarhlut
ekkjunnar. Ég hafði með rekstur síld-
arplansins að gera í tvö ár eða svo og á
þeim tíma var mikið saltað, við fórum í
um 20 þúsund tunnur á hausti. En svo
minnkaði síldin og æ erfiðara var að
nálgast hana. Ég hætti því í síldinni og
náði í Hólmaborgina til Hafnarfjarðar þar
sem hún var keypt úr þrotabúi. Ég hélt
síðan áfram að vinna í landi jafnframt því
að fara nokkra afleysingatúra á öðrum
skipum. Í hönd fór erfiður tími í rekstr-
inum þar sem sett var á loðnuveiðbann
og aflabrögð voru léleg í rækju. Bjarni
Gunnarsson skipstjóri á Hólmaborginni
vildi þá hætta með skipið og hverfa til
annarra starfa og úr varð að Aðalsteinn
bað mig að taka það sem ég og gerði.
Til að byrja með fórum við á rækju á
Dohrnbanka og það gekk bærilega. En
það var ljóst að reksturinn var mjög erf-
iður og Hraðfrystihúsið gerði ekki betur
en að halda þessu nýja og öfluga skipi.
Leitað var til sveitarfélagsins með hvort
það væri tilbúið að leggja hlut inn í félag
á móti Hraðfrystihúsinu til þess að
tryggja að unnt væri að halda Hólma-
borginni og rekstrinum gangandi. For-
ráðamenn sveitarfélagsins á þeim tíma
neituðu því alfarið og skilaboðin voru
þau að fyrirtækið yrði sjálft að finna leið
út úr vandanum. Sem betur fer fór að ára
betur upp úr þessu og okkur auðnaðist
að halda skipinu, sem reyndist vera hið
mesta happafley og skapa miklar tekjur
inn í byggðarlagið. Eitt árið náðum við
að fiska 94 þúsund tonn af uppsjávarfiski
– kolmunna, síld og loðnu - og hefðum
getað farið vel yfir 100 þúsund tonnin ef
við hefðum fengið að róa stífar.
Við fórum út í það að setja mjög öflug-
ar vélar í bæði Hólmaborg og Jón Kjart-
ansson til þess að geta stundað kol-
munnaveiðarnar og þannig öfluðum við
okkur mikillar aflareynslu í kolmunna
sem kom okkur síðar til góða.
Ég var skipstjóri á Hólmaborginni þar
til Aðalsteinn Jónsson var keyptur. Á
þessum árum á Hólmaborginni var
mannskapurinn að stórum hluta hinn
sami, sem er lykilatriði í því að ná góð-
um árangri. Tekjurnar voru háar og því
voru þetta góð skipspláss,“ segir Þor-
steinn.
En var ekki fólgin mikil pressa í því
að stýra svo miklu aflaskipi? Var ekki
gerð krafa um að skipið væri alltaf á
toppnum? „Jú, óneitanlega var það svo.
Þegar skipið hafði náð toppnum þótti
fólki sjálfsagt að svo væri áfram. Við
stækkuðum skipið um tæpa fjórtán metra
þannig að burður þess var mjög mikill.
Ég hygg að þegar mest var hafi Hólma-
borgin borið 2.750 tonn,“ segir Þorsteinn.
Hólmaborgin hefur nú skipt um nafn og
ber nafnið Jón Kjartansson.
Gerir út þrjú skip
Eskja gerir út þrjú skip í dag. Aðalstein
Jónsson, sem frystir uppsjávartegundir
um borð, Jón Kjartansson, sem sömu-
leiðis veiðir uppsjávartegundir, og Hól-
matind, sem veiðir bolfisk fyrir land-
vinnslu Eskju á Eskifirði. En hvað skyldi
Þorsteinn hafa í gegnum tíðina haft að
leiðarljósi sem skipstjóri? „Þegar ég var
með Hólmaborgina og Jón Kjartansson
A U S T U R L A N D
„Mér hefur þótt mjög jákvætt og nauðsynlegt fyrir þetta samfélag hér að fá þetta stóra fyrirtækið hingað inn á
svæðið. Ég lít engan veginn svo á að Fjarðaál sé ógnun við sjávarútveginn hér. Síður en svo.“