Tímarit Máls og menningar - 01.03.1978, Blaðsíða 105
Vitrun í Hrafnkels sögu
yfir Rangá í Tungu. Hér má kenna bergmál frá Jósúabók, þótt óljóst sé,
er miðað er við árnar. Spáin í Hrafnkels sögu um Hallfreð „Þar er heill
þín öll“ minnir á ummælin í biblíunni um Jósúa: „Engi maður skal yður
mega móti standa, svo lengi sem þú lifir.“ Nú er það eftirtektarvert, að
í sögunni er ekki verið að spá fyrir Hrafnkatli, aðalpersónunni, heldur
föður hans, sem býr búi sínu til elli. En hins vegar hefði spáin ekki átt við
Hrafnkel sjálfan, sem bæði lenti í miklum hrakningum og „varð ekki
gamall maður“.7
Hvort sem vitrunin í Hrafnkels sögu á að einhverju leyti rætur sínar að
rekja til biblíunnar eða ekki, þá er það næsta hæpið að gera ráð fyrir
heimatilbúnum hugmyndum einum, eins og þeir Sigurður Nordal, Diet-
rich Hoffmann og Oskar Halldórsson virðast halda fram í ritum sínum.
Menn hafa einatt ekki áttað sig á því, að áhrif á bókmenntir geta verið
með ýmsu móti, enda munu höfundar yfirleitt ekki átta sig til hlítar á
uppruna alls þess efniviðar sem þeir nota. Og lærdómseinkenni Hrafn-
kels sögu eru svo mörg og auðsæ, að engum þarf að koma það undarlega
fyrir sjónir þótt vitrunin sé runnin frá biblíunni ella þá einhverju húman-
istariti frá miðöldum.
Sambandið milli frásagna Landnámu og Hrafnkels sögu hlýmr ávallt
að verða mönnum hulin ráðgáta, enda er ekki unnt að staðhæfa hvernig
orðum var hagað um Hrafnkel í Frumlandnámu. En sé sú hugmynd Nor-
dals rétt, að höfundur sögunnar hafi þekkt Landnámu og vikið frá henni
eftir geðþótta sínum, þá er full þörf skýrari greinargerðar fyrir frávikinu
en gerð hefur verið hingað til.
7 Hugmyndir manna um eðii sögunnar stafa að nokkru leyti af því, að þeir taka
mið af styttri gerðinni einni, en þar vantar þessa setningu.
91