Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Page 23
. . . það sem menn kalla Geni
Maðurinn er samkvæmt þessu dýr aðeins að nokkru leyti og þá væntan-
lega að hinu leytinu guðlegrar ættar: maðurinn er „algjörleikans takmark".
Bæði Jónas og Henrich Steffens líta svo á að einhvers konar heildarhugsun
liggi að baki allri tilverunni og stjórni henni. Steffens verður tíðrætt um
„Upprunalegan anda náttúrunnar" en Jónas nefnir þetta „náttúrunnar
sköpunarafl" eða einfaldlega „lífsaflið". I greininni um eðli og uppruna
jarðarinnar segir hann að í óumbreytanlegum lögmálum náttúrunnar birtist
oss „Sá guðlegur vilji, er viðheldur hnattakerfum heimsins í sínu fagra og
undrunarverða sambandi.“10
Hinu má svo ekki gleyma að Steffens er að taka dæmi úr náttúrunni til
þess að sýna fram á háleitt sögulegt hlutverk Sénísins — öll röksemdafærsla
hans miðar að þessu — á meðan Jónas er umfram allt að fræða bændur og
búalið á Islandi um það sem hann áleit vera nokkur grundvallaratriði í
náttúruvísindum. Eins og sést á bréfum hans var honum mikið í mun að
vegur náttúruvísindanna yrði einhver á Islandi, hann taldi þau gegna
mikilvægu hlutverki í vakningu þjóðarinnar. Aheyrendahópur þeirra er
ólíkur og það hefur sitt að segja um ólíkan málflutning þeirra; Steffens talar
til menntamannanna en Jónas til almúgans og gerir sér far um að vera skýr
og skipulegur í framsetningu. Annað sem vert er að hafa í huga þegar þeir
Jónas og Steffens eru bornir saman er sá tími sem líður á milli þeirra.
Steffens flytur fyrirlestra sína í byrjun aldarinnar, en Jónas hefur nám sitt í
Kaupmannahöfn árið 1832. Á þeim tíma sem liðið hefur þarna á milli hafði
margt gerst og mesti ljóminn var farinn af rómantík en aðrar hugmyndir
komnar á kreik — hugmyndir pósitífismans.
III
Hér var áðan minnst á leiðara Fjölnis, kvæðið Island, og það haft til marks
um rómantíska fortíðardýrkun Jónasar. Hann hyllir fornar hetjur af
fullkomnu óraunsæi, gyllir fortíðina alveg blygðunarlaust — en fyrir hvað?
Oll lýsingin á frjálsræðishetjunum góðu einkennist af því hversu iðjusamir
þessir menn eru, þeir eru samboðnir stórbrotinni náttúrunni vegna þess að
þeir híma ekki í fleti sínu — þetta eru svo duglegir menn. Þeir þjóta
landsfjórðunga á milli í stöðugu annríki og forsenda alls þessa blómlega
atvinnulífs er varningurinn sem skrautbúnu skipin fyrir landi færa heim. Og
jafnhliða því Alþingið — lýðræðið. Draumasamfélagið sem Jónas spinnur
upp í fortíðinni hefur þannig á sér snið sem jafnvel sá raunsæi Jón
Sigurðsson hefði samþykkt. Þó að greina megi rómantísk einkenni á
kvæðinu er í því jarðsamband, það er ort í pólitísku augnamiði, og það
vantar í það þá sjálfhverfu huglægni sem er svo ríkt einkenni á rómantískum
kveðskap; hann er ekki að úthella eigin sjálfi á valdi leiðslu eða sýnar.
421