Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Blaðsíða 39
Ævintýr af Eggerti Glóa
sig. Hún var næstum al-svartklædd, með svarta línhettu á höfðinu
langt ofaná andlit, og hafði hækju í hendinni.
Eg gekk til hennar, og bað hana að hjálpa mér. Hún setti mig niður
hjá sér og gáf mér brauð og nokkuð af víni. Meðan ég var að borða
söng hún andlega vísu með óviðkunnanlegri rödd. Þegar hún var
búin, sagði hún mér ég mætti koma með sér.
Þessu boði varð ég fegin, þó mér þætti kellingin undarleg í rödd og
viðmóti. Hún stautaði fremur vonum á hækjunni, og gretti sig í
hvurju spori, svo ég gat ekki að mér gert að hlæja fyrst framanaf.
Fjalla-klungrin á bak við okkur voru alltaf að fjarlægjast, við gengum
yfir fagurt engi, og þaðan um býsna langan skóg. Þegar við komum
af skóginum, var sólin að ganga undir, og aldrei gleymi ég hvað ég
fann og sá á þessu kvöldi. Fegursti gull-roði ljómaði allt um kring,
eikurnar stóðu með höfuðin í kvöldroðanum, blíður bjarmi lá yfir
jörðunni, skógarnir og eikablöðin bærðust ekki, himinninn var
heiður og allt eins til að sjá og opin paradís, og kvöldklukkur
þorpanna hljómuðu undarlega sorgarblítt yfir akra og engjar. Sálin
mín unga fékk þar í fyrsta sinni grun af veröldinni og hennar
viðburðum. Eg gleymdi mér og kellingunni, hugur minn og augu
voru ekki annarstaðar en uppi hjá hinum gullnu skýjum.
Við fórum nú uppá einn hól vaxinn birkirunnum; ofanaf hólnum
var að sjá lítinn dal fullan af birki, inná milli trjánna stóð kofakorn.
Þá heyrðum við gelt móti okkur, og í sama bili kom ofurlítill hundur
stökkvandi til kellingarinnar, og dillaði rófunni; síðan kom hann til
mín, skoðaði mig í krók og kring, og hljóp svo til hennar með
vinalátum.
Þegar við gengum niður af hólnum, heyrði ég undarlegan söng,
sem mér virtist koma úr kofanum; það var einsog fuglsrödd, og söng
þetta:
I kyrrum skóg
er kæti nóg,
um sumar og gó
og eilífð þó,
er kæti nóg
í kyrrum skóg.
437