Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Qupperneq 47
Ævintýr af Eggerti Glóa
Hjartað mitt, sagði Berta, ég verð að segja þér nokkuð, sem nærri
er búið að svipta mig vitinu og hefir tekið af mér heilsuna, svo
lítilfjörlegt sem það sýnist vera. — Þú munt muna til, að hvað oft sem
ég sagði sögúna mína, gat mér ekki með neinu móti dottið í hug
nafnið á litla hundinum, sem ég var svo lengi saman við. Hérna um
kvöldið datt það uppúr Valtara um leið og hann bauð mér góðar
nætur: mér er sem ég sjái yður þegar þér voruð að gefa honum litla
Strómi. Er þetta tilviljun? hefir hann getið sér til nafnsins, eða hefir
hann nefnt það viljandi? og hvurnin er þá þessi maður riðinn við
forlög mín? Stundum hefir mér komið til hugar, að ég væri að
ímynda mér þessa tilviljun, en það er víst, mikils til of víst. Það kom
yfir mig dauðans ótti, þegar ókunnugur maður rifjaði það svona upp
fyrir mér. — Hvurnig líst þér á Eggert?
Eggert horfði á konu sína sjúka, og sárkenndi í brjóst um hana,
hann þagði og hugsaði sig um, sagði síðan eitthvað henni til huggun-
ar og gekk í burt og inní afskekkta stofu; þar gekk hann um gólf
öldungis sturlaður. Valtari hafði í mörg ár verið sá eini maður, sem
hann hafði afskipti af, og þó var hann nú sá eini maður í veröldinni,
sem honum var til angurs og kvalar að skyldi vera til. Honum fannst,
einsog sér mundi verða glatt og létt í huga, ef að þessi eini maður væri
frá. — Hann tók boga sinn til að fara á veiðar og skemmta sér.
Þá var hávetur og veðrið kalt og hvasst; snjórinn var djúpur á
fjöllunum, og beygði niður limar trjánna. Hann gekk víða, og svitinn
stóð á enninu á honum; hann hitti ekki dýr, og jók það ógleði hans.
Þá sér hann skyndilega eitthvað bærast langt í burtu; það var Valtari
að tína mosa af eikunum. Eggert vissi ekkert hvað hann gerði, og
miðaði til. Valtari leit við, og ógnaði honum þegjandi; en í sama bili
þaut örin af boganum og Valtari féll.
Eggert fann sér verða léttara við, en þó kom í hann ótta-hryllingur,
svo hann varð að fara heim; hann átti þangað langan veg, því hann
hafði villst langt inní skóga. Þegar hann kom heim, var Berta þegar
önduð; hún hafði aftur talað margt um Valtara og kellinguna áður en
hún lést.
Eggert sat nú langan tíma í mestu einveru; hann hafði á undan
ævinlega verið heldur þunglyndur, af því honum þótti ævintýrið
konunnar sinnar vera hálf-ískyggilegt; hann hafði ævinlega kviðið
fyrir einhvurjum óhamingju-viðburði, sem kynni að koma uppá, —
445