Tímarit Máls og menningar - 01.11.1985, Side 49
Ævintýr af Eggerti Glóa
riddari í veislunni, sem alltaf hafði sýnt sig í óvináttu við Eggert, og
spurt eftir konu hans og auðæfum öðruvísi en aðrir menn. Högni
gekk til þessa manns, og töluðu þeir hljótt góðan tíma og horfðu
alltaf til Eggerts. Nú sá hann að sannaðist grunur sinn: hann hélt sig
vera svikinn, og kom í hann óttaleg bræði. Hann starði enn á þá, og
vissi ekki fyrr til en hann sér höfuðið á Valtara, og svipinn, og síðan
alla myndina hans: hann horfði enn um stund, og varð sannfærður
um, að enginn annar en Valtari var að tala við riddarann gamla. —
Hann skelfdist meir en frá verði sagt, strauk út í ósköpum, fór úr
borginni þegar um nóttina, og komst heim í kastalann eftir marga
villu-króka.
Nú var hann allur á flótta og skundaði hús úr húsi; hugur hans var
á einu flugi, hann hljóp frá óttalegum hugmyndum til annarra
óttalegri, og ekki kom honum dúr á auga. Honum datt oft í hug, að
hann væri vitstola, og byggi sér þetta allt saman sjálfur til af ímynd-
unarafli sínu; þá mundi hann eftir svipnum hans Valtara og truflaðist
enn þá meir. Hann ásetti sér að fara í langferð og koma svo í lag
hugmyndum sínum, og var búinn að slá frá sér fyrir fullt og allt
öllum vináttu-hug og löngun eftir viðkynningu.
Hann fór á stað eitthvað út í bláinn, og gaf varla neinn gaum að
landslaginu fram undan sér. Þegar hann hafði riðið nokkra daga, varð
hann ekki var við fyrr en hann var búinn að villast inn í kletta-
klungur, og sá þaðan hvurgi til vegar. Loksins hittir hann aldraðan
bóndamann, sem vísar honum útúr klungrinu framhjá fossi
nokkrum. Hann tók upp hjá sér peninga og ætlaði að gefa honum í
staðinn, en bóndamaður þáði ekki. — Var ekki það? sagði Eggert við
sjálfan sig: þarna gæti ég ímyndað mér aftur, að þetta væri enginn
maður annar en Valtari, — og í því bili leit hann aftur við, og það var
enginn maður annar en Valtari. — Eggert sló hestinn sporum, og reið
einsog hann gat farið yfir engjar og skóga, þangað til hesturinn
sprakk. — Eggert gaf sig ekki að því og fór gangandi leiðar sinnar.
Hann gekk í leiðslu uppá hól einn; honum heyrðist hann heyra
gjammað spottakorn í burtu, birkið þaut þess á milli, og hann heyrði
að vísa var sungin með undarlegri röddu.
í kyrrum skóg
ég kátur bjó,