Ský - 01.04.2007, Page 27
sk‡ 27
Heimsóknir heimsleiðtoga
Pompidou og Nixon komu til Íslands vorið 1973 til að
ræða nýja Atlantshafssáttmála, bera saman bækur
sínar og jafna ágreining um áherslur í varnarmálum.
Báðar þjóðirnar eru í NATO, en Frakkar vildu fara sínar
eigin leiðir innan bandalagsins.
„God forsaken place“ eða – Guðs volaða land – átti
Richard Nixon að hafa sagt þegar hann steig út úr
flugvélinni á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins
á fund sinn með Pompidou Frakklandsforseta. Kári
Jónasson ritstjóri Fréttablaðsins var á þessum tíma
nýbyrjaður á Útvarpinu og var í blaðamannamiðstöð-
inni á Kjarvalsstöðum. Hann minnist fundarins: „Ég var
líka í hjáverkum fréttaritari alþjóðlegu fréttastofunnar
UPI - United Press International. Þeir sendu hingað her
manns og í þeim hópi var meðal annars Helen Thomas,
forsetafréttaritari UPI í Washington.
Stuttu eftir að Nixon kom til landsins bað Helen
mig að reyna að fá það staðfest að hann hefði
talað um Guðs volaða land. Það gekk nú ekki vel.
Bandaríkjamennirnir töluðu við landa sína sem voru við
móttökuathöfnina og ég ræddi við Íslendinga sem þar
voru. Þessi ummæli hefðu verið mikil móðgun við gest-
gjafa fundarins, okkur Íslendinga, og við fengum þau
aldrei staðfest.“
Kári heldur áfram: „Fyrir utan sjálft efni fundarins
beindist athygli manna mjög að Pompidou, sem var
orðinn sjúkur maður. Þegar hann gekk þessi fáu skref
frá bílnum og inn á Kjarvalsstaði voru allir sammála
um að það sæi á honum, enda lést hann ári eftir
Íslandsferðina.“
Meðan á leiðtogafundinum stóð bjó Pompidou
í húsi Alberts Guðmundssonar við Laufásveg, en
hann var aðalræðismaður Frakka á Íslandi. Nixon
bjó hins vegar í bandaríska sendiherrabústaðnum við
Laufásveg, þaðan sem hann fór eitt kvöldið í göngutúr
um miðborg Reykjavíkur, spjallaði brosandi við þá sem
á vegi hans urðu og þótti maður við alþýðuskap. Hann
entist þó ekki miklu betur í embætti en Pompidou því
að hann sagði af sér embætti 8. ágúst 1974 í kjölfar
Watergate-málsins.
Georges Pompidou og Richard Nixon – 1973
Guðs volaða land
Georges Pompidou og Richard Nixon framan við Kjarvalsstaði árið 1973.