Ský - 01.04.2007, Síða 61
sk‡ 61
Hrólfur hefur víða komið við í tónlistinni, búinn að spila jafnt í rokkhljómsveitum sem norskum lúðrasveitum þótt hans aðalstarfi undanfarin ár hafi verið óperusöngur. Hann er líka
mikill athafnamaður, stofnaði Sumaróperuna í Reykjavík árið 2002
og hefur sett upp fimm sýningar með öðrum ungum söngvurum.
Hrólfur á ekki langt að sækja tónlistaráhugann því eins og hann
segir sjálfur þá er „mikið af tónlistarmönnum í fjölskyldunni, en
óþægilega lítið af íþróttaafreksmönnum“.
„Pabbi minn er til dæmis ljómandi músíkant. Hann er geðlæknir
og fæst við geðsjúka Norðmenn og Svía, en gaf sér samt tíma til að
gefa út disk fyrir jólin. Það verður ekki aftur snúið þegar tónlistin er
búin að ná tökum á manni,“ segir Hrólfur og hlær tröllahlátri eins
eins og sönnum barítón sæmir.
„Ég var látinn syngja fyrir fólk á alls konar mannamótum þegar
ég var barn. Mest söng ég Megas því hann var átrúnaðargoð mitt á
þessum tíma. Ég söng þó fyrst opinberlega í stundinni okkar þegar
ég var þriggja ára. Þar söng ég refavísurnar úr Dýrunum í Hálsaskógi
og það vildi ekki betur til en svo að ég fipaðist á næstsíðustu línu, leit
beint í myndavélina og sagði: „Ég ruglaðist aðeins“. Svo byrjaði ég
upp á nýtt og söng allt lagið aftur. Myndatökumaðurinn fullvissaði
mig um að mistökin yrðu klippt burt, en mér til mikillar armæðu var
allt sýnt. Ég reiddist Ríkisútvarpinu mjög og hef passað mig að rugl-
ast ekki í sjónvarpsútsendingu síðan.“
Hrólfur tók snemma stefnuna á tónlistarferilinn.
„Ég ætlaði að verða tónlistarmaður frá því að ég man eftir mér.
Foreldrar mínir segja að ég hafi sungið frá því að ég fæddist, en ég
uppgötvaði samt ekki að ég hefði rödd fyrr en ég var orðinn ungl-
ingur. Ég fór í söngskólann og lærði hjá Guðmundi Jónssyni stór-
söngvara og eftir það fór ég til Boston og lauk þaðan meistaragráðu
í einsöng.
Síðan hef ég bara verið að dýrka tónlistargyðjuna því maður er
auðvitað bara aumt verkfæri í hennar höndum. Mér líður aldrei betur
en þegar tónlistin grípur mig heljartökum. Ég á diskaspilara sem
tekur 400 diska og stundum stilli ég bara á „random“ og læt koma
mér á óvart, maður veit aldrei hvort það verður Kardimommubærinn,
Wagner eða U2. Ég hef mjög breiðan smekk, en tónlistin verður samt
að hafa vissan neista, eitthvað sem höfðar til mín og gefur mér eitt-
hvað. Ég er svo heppinn að vera þeirrar náttúru að mér finnst alltaf
skemmtilegast í því verkefni sem ég er hverju sinni og best líður mér
á sviðinu þegar áhorfendur hrífast með. Annars held ég að mitt besta
„gigg“ hafi verið þegar ég söng fyrir yngri son minn nýfæddan.“
Það eru spennandi hlutir að gerast hjá Hrólfi sem er nýkominn
heim frá því að syngja fyrir umboðsmenn í Þýskalandi. Hrólfur er
með kraftmikla, dökka en lýríska rödd sem þeir meta þannig að passi
í stóru barítónhlutverkin, en það verða að teljast góð tíðindi fyrir
ungan söngvara.
„Ég hef starfað hér heima um nokkurt skeið og þroskað röddina
og sjálfan mig sem söngvara. Barítónröddin þroskast seint og maður
er að toppa svona 45 ára. Þetta er því góður tími fyrir mig að reyna
fyrir mér í helsta óperulandi heimsins, þar sem möguleikarnir á því
sviði eru mun meiri en hér.
Næst á dagskránni hjá mér eru upptökur á diski með tónlist eftir
breska tónskáldið sir John Tavener. Þar syng ég, ásamt Guðrúnu
Jóhönnu Ólafsdóttur og Kammerkór Suðurlands, undir stjórn Hilm-
ars Arnar Agnarssonar. Svo er það tónleikahald um allt land, bæði
einn og með öðrum, og væntanleg tónleikaferð til Ítalíu í sumar með
félögum mínum í Rinascente-hópnum. Það eru sem betur fer anna-
tímar fram undan hér heima þótt ég sé óneitanlega mjög upptekinn
við það að koma mér á framfæri erlendis þessa stundina.
Hrólfur Sæmundsson, barítón
Besta giggið
þegar ég söng
fyrir nýfæddan
son minn
Hrólfi líður best á sviðinu þegar áhorfendur hrífast með.
Flottir ungir söngvarar