Ský - 01.04.2007, Page 35
sk‡ 35
Íþróttadópið
Áslaug Sigurjónsdóttir, formaður lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ.
„Það er orðið aðkallandi að fá tvo starfsmenn í
100% starf til þess að hægt sé að sinna þessu starfi
af einhverri skynsemi. Ég tel orðið nauðsynlegt að
þýða efni frá Norðurlöndunum, þar er af nógu að
taka. Norðurlöndin standa mjög framarlega á þessu
sviði, ekki síst Norðmenn, og fyrir Ólympíuleikana
sem fara fram í Kína árið 2008 er í undirbúningi að
gefa út sameiginlega bæklinga og efni. Nú heyrast
einnig háværar kröfur um að allir sem fari til keppni á
Ólympíuleikum gangist áður undir lyfjapróf.“
Mataræði sem inniheldur mikið af prótínum og orku (margar
hitaeiningar) er ef til vill einnig mikilvægt til að hámarka árangur
af steranotkun. Mikil hætta er á að notendur vefaukandi stera verði
andlega háðir þeim. Þunglyndi og sjálfsmorðshugleiðingar eru
algeng fráhvarfseinkenni þegar notkun er hætt.
Notkun vefaukandi stera er mikil í Bandaríkjunum og eykst
jafnt og þétt, ekki síst hjá stelpum og ungum konum. Einnig færist
notkunin sífellt neðar í aldurshópa. Í könnun sem þar var gerð í
júní árið 2000 viðurkenndu 5,2% stráka og 2,2% stelpna í 9.–12.
bekk (14-18 ára) að þau notuðu stera. Ólíklegt er að ástandið hér sé
sambærilegt. En nauðsynlegt er að vera á varðbergi.
Á hádegisverðarfundi hjá ÍSÍ, sem haldinn var fyrir fyrir nokkrum
mánuðum, kom fram að 60% þeirra sem taka þátt í fitness-keppnum
á Íslandi falla á lyfjaprófi. Um 4,5% þeirra framhaldsskólanema sem
stunda frjálsar íþróttir vikulega eða oftar hafa notað stera. Stera-
notkun er mun algengari en notkun annarra vímuefna, eins og
hass, amfetamíns og e-taflna hjá unglingum, samkvæmt niðurstöðu
skýrslu sem lögð var fram á hádegisverðarfundinum.
Allir í lyfjapróf
Á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Gautaborg í sumar
voru tekin 364 lyfjapróf. Þau reyndust öll vera neikvæð. Þrefalt
fleiri lyfjapróf voru tekin á þessu Evrópumeistaramóti, en því síðasta
fyrir 4 árum. Auk þessa var tekið 151 blóðsýni. Forseti Frjálsíþrótta-
sambands Evrópu sagði að tekin hefðu verið þrefalt fleiri lyfjapróf
nú og þau öll samkvæmt ítrustu kröfum WADA.
En því miður gengur þetta ekki alltaf svona vel.
Fleiri en 70 breskir frjálsíþróttamenn og konur hafa ekki mætt í
lyfjapróf hjá eftirlitsmönnum breska lyfjaeftirlitsins á undanförnum
misserum. Dave Collins, framkvæmdastjóri afreksnefndar breska
frjálsíþróttasambandsins, segir í viðtali við BBC að nokkrir þeirra
hafi ekki mætt tvívegis í röð í boðuð lyfjapróf en Christine
Ohuruogu var á dögunum kippt út úr breska frjálsíþróttaliðinu
fyrir að hafa ekki mætt þrívegis í boðað lyfjapróf. Ohuruogu átti
að keppa í 400 metra hlaupi kvenna á Evrópumeistaramótinu í
Gautaborg. Ohuruogu hafði ekki mætt í lyfjapróf utan keppni und-
anfarna 18 mánuði og á yfir höfði sér tveggja ára keppnisbann. Hún
segir að æfingaáætlun sem hún vann eftir hafi ekki gert sér kleift að
mæta í lyfjaprófin á tilsettum tíma.
Þekktir hérlendir íþróttamenn hafa fallið
Hér heima hafa þekktir íþróttamenn fallið á lyfjaprófi, þ.e. nið-
urstöðurnar hafa reynst jákvæðar. Íslandsmeistari í kringlukasti
mældist tvívegis jákvæður sem gerði að mestu út af við hans keppnis-
feril. Hann tók þá til við þjálfun og hefur undanfarin misseri verið
landsliðsþjálfari erlendis.
Mjög efnilegur spretthlaupari sem miklar vonir voru bundnar
við fór til keppni erlendis 1993 til keppni í 60 metra hlaupi innan-
húss. Hann fór í lyfjapróf sem reyndist jákvætt og einnig gerði
hann ógilt í hlaupinu. Niðurstaðan af lyfjamisnotkuninni var því
dapurleg, keppnisbann og engin keppni á erlendri grund. Hann
hélt áfram að æfa, en hefur ekki keppt opinberlega síðan.
Þekktur handboltamaður féll á lyfjaprófi vegna neyslu kókaíns.
Hann hélt áfram að æfa meðan á keppnisbanninu stóð, en skipti
síðan um félag og keppti með því nokkur keppnistímabil.
Nýlega voru fjórir keppendur íþróttafélagsins Þróttar í Vogum
boðaðir í lyfjapróf eftir leik í bikarkeppni í handbolta. Þrír þeirra
létu sig hverfa í miðjum leik en sá fjórði fór í lyfjaprófið eftir leik-
inn. Niðurstöður eru ekki komnar. Leikmenn Þróttar komu úr
ýmsum íþróttafélögum og íþróttagreinum, sumir landsliðsmenn í
öðrum íþróttagreinum. Þremenningarnir hljóta væntanlega leik-
bann, en orðstír íþróttafélagsins hefur beðið mikinn hnekki og það
vegna eins handboltaleiks og leikmanna sem að öllu jöfnu keppa
ekki fyrir félagið.
En niðurstöðurnar eru mun oftar neikvæðar. Til dæmis mætti
Lyfjaeftirlitsnefnd fyrir skömmu á æfingu karlalandsliðsins í
körfuknattleik og tók leikmenn liðsins í lyfjapróf. Niðurstöðurnar
reyndist neikvæðar hjá öllum leikmönnunum. Að sjálfsögðu geta
landsliðsmenn sem og aðrir leikmenn átt von á lyfjaeftirliti án
fyrirvara á æfingum eða í keppni hvenær sem er. Stundum á sér
líka stað einhver klaufaskapur, líkt og þegar leikmaður Breiðabliks
í knattspyrnu kvenna mætti ekki í lyfjapróf í London í haust vegna
þess að hún sat uppi í stúku og vissi ekki að hún hafi verið boðuð.
Þar er trassaskap fararstjóra um að kenna. sky
,