Bókasafnið - 01.06.2010, Blaðsíða 8
8
bókasafnið 34. árg. 2010
þá var miðað við árið 1952, en ég var viðloðandi stofnunina
fyrir þann tíma, þó ég hafi ekki verið á bókasafninu.“
„Það var nokkuð merkilegt við þetta starf, að við urðum
að finna lausnir á öllum vandamálum sem upp komu í
skipulagningu og rekstri safnsins. Ég gat ekkert leitað því
þekking á þessu sviði var mjög á byrjunarstigi á landinu.
Skipulagning á Bókasafni Orkustofnunar var því mikill skóli
fyrir mig. Stundum gat ég fengið aðstoð á sumrin einkum
við utanumhald með tímaritunum. Ég fann upp á því að
sérfræðingarnir hefðu sín tímarit hjá sér og báru þá ábyrgð
á þeim. Síðan voru þau sett í geymslu. Ég hélt því fram að
bókasafn í tæknistofnun þyrfti ekki að vera stórt ef geymslan
væri góð og vel skipulögð.“
„Efnafræðingar og aðrir fræðimenn á rannsóknarstofn -
unum Háskólans höfðu ekki aðgang að miklum bókakosti á
sínum vinnustað en gátu nýtt sér safnið hjá mér. Margir voru
að vinna mjög merkileg frumkvöðlaverkefni á þessum tíma.
Má þar nefna Sigurð V. Hallsson sem vann miklar rannsóknir á
þaraþurrkun og kom að stofnun Þaravinnslunnar á Reykhólum
og Baldur Líndal efnaverkfræðingur sem var aðalmaðurinn
í rannsóknum á vinnslu á kísilgúr. Þarna var því um hreina
efnafræði að ræða og þeir þurftu mikið af bókum og fengu
aðstöðu hjá Orkustofnun. Bækurnar urðu svo eftir hjá okkur
þegar þeir fóru.“
„Ég man líka eftir ungum verkfræðingi sem kom til okkar.
Hann hafði verið í framhaldsnámi í Englandi en kom svo til mín
og bað mig að útvega sér sérstaka gamla bók. Hann gat lesið
bókina á British Museum en ekki fengið hana lánaða. Hann
hafði reynt að fá hana lánaða í millisafnaláni en hafði ekki haft
erindi sem erfiði og hafði svo frétt að hægt væri að fá bækur í
millisafnaláni í gegnum Háskólabókasafn. Ég sagði honum að
ég héldi að bókin væri á safninu og það stóð heima. Í Bretlandi
hafði hann ekki getað fengið aðgang að þessari bók en svo
var hún bara í bókasafninu hjá okkur!“
„Mér fannst uppbygging safnsins takast mjög vel og ég
man eftir því að ég hringdi einhvern tíma í Björn Sigfússon og
spurði hann um rit. Hann svaraði því til að væri ritið ekki til hjá
okkur þá væri það ekki til á landinu. Margir komu til að nota
safnið og engum var vísað frá.“
Guðrún fór í tveggja mánaða námsdvöl á Tæknibókasafnið
í Danmörku árið 1968 og fannst gott að finna að þar voru
sömu vandræðin og á litla safninu hennar þó þar væru
sérfræðingar á hverju strái. Sérfræðingar sáu t.d. um að velja
bækur í safnið og þarna voru haldnir bókavalsfundir fyrir allar
sérgreinarnar. Bókaverslanir sendu bækur í safnið og menn
gátu ákveðið hvað átti að kaupa með bækurnar fyrir framan
sig. Hjá Orkustofnun völdu sérfræðingarnir sjálfir bækurnar og
safnið sá svo um að kaupa þær inn. Hins vegar var oft erfitt að
eiga við tollinn. Guðrún þurfti að fara á staðinn og gera grein
fyrir hverri bók sem kom og svo þurfti að ákveða hvernig ætti
að tolla þær. Í þetta fór gríðarlegur tími.
Annað mál sem Guðrún þurfti að sjá um voru skýrslurnar
sem Orkustofnun gaf út. Mikil vinna fór í að halda utan um þær.
Reynt var að draga úr útgáfu á öllum þessum skýrslum og loks
var kosin nefnd til að ákveða hvort tiltekið efni skyldi gefið
út í skýrslu eða ekki. Síðan var Páll Ingólfsson landfræðingur
ráðinn ritstjóri að skýrslunum. Guðrún var mjög ánægð með
þá ráðstöfun og segir að hann hafi verið einstaklega góður
starfsmaður og nákvæmur. Tekin var ákvörðun um staðlað og
sérhannað útlit fyrir hvern flokk og síðan var auðveldara fyrir
safnið að annast þær.
„En skjalamálin hvíldu líka á mér. Það var mikið að
gerast í skjalamálunum á Norðurlöndunum á þessum tíma.
Rafmagnsveitur á Norðurlöndunum höfðu unnið sameigin -
lega að uppbyggingu skjalakerfis og norrænn sérfræðingur
kom til okkar til skrafs og ráðagerða. Ég var send út til að
kynna mér notkun á kerfinu og fór þá bæði til Danmerkur
og Noregs. Niðurstaða mín var sú að kerfið væri ágætt en
passaði ekki fyrir Orkustofnun sem ekki var rafveitusafn. En
uppbygging kerfisins var mjög handhæg og mér tókst að
aðlaga það að efni stofnunarinnar. Á Orkustofnun var mikið
til af gömlum gögnum sem þurfti líka að gera til góða en lítill
tími til að sinna því verkefni. Eitt árið var ég svo heppin ef svo
má segja að á skall langt verkfall hjá starfsmönnum BSRB.
Meginhluti starfsemi stofnunarinnar lagðist niður og ég var
ein á bókasafninu. Ég tók þá öll gömlu skjölin og skráði þau,
merkti og kom þeim inn í kerfið enda gat ég unnið að þessu
án truflana.“
Hvernig var samvinnan hjá ykkur í
sérfræðibókasöfnunum?
„Við héldum mikið saman, þessi svokallaði náttúrufræðihópur,
bæði þau sem unnu á Keldum og á Hafrannsókn. Það þurfti
að ráða fram úr alls kyns vandamálum og gott að geta
haft samvinnu og samstarfið var ákaflega gott hjá þessum
hópi. Tölvuleitirnar voru að byrja og þar var Kristín H.
Pétursdóttir ein af forvígismönnunum þegar hún kom úr sínu
framhaldsnámi frá Bandaríkjunum. Ég veit að yfirlæknirinn á
Borgarspítalanum hafði miklar áhyggjur af því að hafa ekki
læknisfræðibókasafn en svo kom Kristín og innleiddi þar alls
kyns nýjungar.“
Hvað með félagsmál stéttarinnar.
Tókstu ekki þátt í þeim?
„Ég gekk fljótlega í Bókavarðafélagið og ég man að þar var
Ólafur Hjartar mjög virkur, en ég var ekki sérlega virk til að
byrja með. Ég var þó í stjórn 1964-1970. Ég man líka að árið
1968 fórum við fjórir fulltrúar frá Íslandi til Bergen til að taka
þátt í 11. norræna bókavarðaþinginu en auk þess reyndi ég
að sækja ráðstefnur og þing eins og kostur var. Ég var líka í
stjórn Félags bókavarða í rannsóknarbókasöfnum 1975-1977.
En svo stofnuðum við Félag bókasafnsfræðinga árið 1973 og
ég var einn af stofnfélögum þess félags og í fyrstu stjórn þess.
Íslenskufræðingarnir vildu ekki viðurkenna þetta félag og ég
man að Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður átti það til
að tala niður til okkar og sagði gjarnan „væna mín“ ef honum
fannst við of kröfuharðar enda flestar konur. Ég held ég hafi
verið frekar respekteruð vegna þess að ég var búin að vera
svo lengi í þessu fagi og líka eldri en hinir stofnfélagarnir. Við
reyndum að útskýra fyrir þeim að við værum bara að reyna