Bókasafnið - 01.06.2010, Blaðsíða 44
44
Tímaritið Bókasafnið
Eva Sóley Sigurðardóttir
Fyrsta tölublað Bókasafnsins kom út árið 1974 og var það gefið
út af Bókavarðafélagi Íslands, Félagi bókasafnsfræðinga og
Bókafulltrúa ríkisins. Nú er blaðið gefið út af Upplýsingu –
Félagi bókasafns- og upplýsingafræða og er áskrift innifalin í
félagsgjaldi. Í þessari grein verður fjallað um tímaritið,
verklagsreglur, ritstjórn, útgáfu og fleira.
Útgáfa
Útgáfan gekk hálf brösulega í fyrstu og blaðið var frekar smátt
í sniðum til að byrja með. Eftir að Félag bókasafnsfræðinga
var stofnað árið 1976 gekk útgáfan vel um nokkurt skeið en
aftur seig síðan á ógæfuhliðina og ekkert blað kom á út
árunum 1979-1981. Fyrstu árin var blaðið eingöngu unnið í
prentsmiðju og útgáfukostnaðurinn var að sliga félögin sem
stóðu að því. Árið 1983 var skipuð sex manna ritnefnd, þrír frá
Bókavarðafélagi Íslands, tveir frá Félagi íslenskra bókasafns-
fræðinga og bókafulltrúi ríkisins. Ritnefndin kaus ritstjóra og
gjaldkera úr sínum hópi. Sem fyrr voru birtar í ritinu fræðilegar
greinar um fjölmargt sem tengdist bóksöfnum, bókasafnsfræði
og bókavörðum. Frásagnir voru af ráðstefnum og námskeiðum
og fréttir af landsþingum Bókavarðafélagsins (Friðrik, 2004).
Blaðið hefur lengst af komið út einu sinni á ári en lengi vel
gekk mjög illa að fjármagna útgáfu blaðsins. Með útgáfu
11. og 12. árgangs tókst loksins að fjármagna útgáfuna með
auglýsingatekjum og hafa þær staðið undir útgáfukostnaði
eftir það. Tímaritið Bókasafnið hefur verið aðgengilegt á vefnum
frá og með 22. ágúst 1998 á slóðinni www.bokasafnid.is.
Verklagsreglur um útgáfu Bókasafnsins
Í 29. árgangi Bókasafnsins árið 2005 (bls. 52-53) voru birtar
verklagsreglur um útgáfu Bókasafnsins sem þáverandi ritstjóri,
Eva Sóley Sigurðardóttir, og þáverandi formaður Upplýsingar,
Þórdís Þórarinsdóttir, höfðu tekið saman og samþykktar
voru á fundi stjórnar Upplýsingar og ritnefndar Bókasafnsins
3. mars 2005.
Þar er Bókasafnið skilgreint sem fagtímarit bókasafns-
fræðinga, bókavarða og áhugamanna um bókasafna- og
upplýsingamál. Gert er ráð fyrir að blaðið komi út kringum
dag bókarinnar ár hvert (23. apríl) og sé sent öllum skuldlausum
félögum Upplýsingar. Jafnframt skuli ritnefnd leitast við að
auka útbreiðslu blaðsins. Þá er gert ráð fyrir að á vefsíðu
blaðsins sé birtur útdráttur eða upphaf greina.
Ritnefndin skal samkvæmt þessum verklagsreglum starfa
sjálfstætt og bera faglega og fjárhagslega ábyrgð gagnvart
Upplýsingu – Félagi bókasafns- og upplýsingafræða. Ritnefnd
Bókasafnsins er skipuð fimm fulltrúum, sem kosnir eru á
aðalfundi Upplýsingar í maí ár hvert. Skipunartími hvers
ritnefndarfulltrúa er lágmark tvö ár en ritstjóri skal kosinn
sérstaklega til þriggja ára með möguleika á framlengingu um
eitt ár í senn. Nánar er kveðið á um starf ritnefndar í
verklagsreglunum sem eru nú í endurskoðun eftir nokkurra
ára reynslutíma.
Ritstjórn
Ritnefnd Bókasafnsins hefur frá byrjun verið skipuð nokkrum
fulltrúum og yfirleitt hafa 3-5 setið í ritnefnd blaðsins. Fyrsti
ritstjóri blaðsins var Páll Skúlason bókasafnsfræðingur og
lögfræðingur en hann ritstýrði blaðinu fyrstu tvö árin. Næstu
tvö blöð komu út 1976 og 1978, 4. og 5. árgangur í einu blaði,
en enginn ritstjóri var tilnefndur þessi ár. Eftir það lá útgáfan
niðri þar til Kristín H. Pétursdóttir tók við ritstjórninni árið
1982. Síðan hefur blaðið komið út árlega að árinu 1987
undanskildu.