Bókasafnið - 01.10.2008, Síða 38

Bókasafnið - 01.10.2008, Síða 38
BÓKASAFNIÐ 32. ÁRG. 200836 Útdráttur Eigindleg rannsókn var gerð í sex opinberum stofnunum á Íslandi, þremur ríkisstofnunum og þremur borgarstofnunum. Þátttakendur voru ábyrgðar menn skjalamála hjá stofnununum. Lýsandi gögnum var safnað saman með því að taka opin viðtöl við þátttakendur og þau síðan greind, kóðuð og flokkuð. Settar voru upp töflur með spurningum og búinn var til skali á bilinu 1–5 til þess að auðveldara væri að bera stofnanirnar saman. Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um skráningu og meðhöndlun á tölvupósti í rafrænum skjalakerfum hjá opinberum stofnunum til þess að varpa ljósi á það hvort stofnanir framfylgi lögum og reglugerðum um varðveislu tölvupósts. Skoðað var hvernig stofnununum gengur að varðveita tölvupóst og hvernig því er fylgt eftir að tölvupóstur stofnunarinnar og starfsmanna sé varðveittur. Helstu niðurstöður voru þær að það virðist ekki vera neitt vandamál með varðveislu tölvupósts sem berst beint á netfang stofnana. Erfitt er hins vegar að fylgjast með varðveislu tölvupósts sem berst á netfang starfsmanna stofnana, og er þess eðlis að það þurfi að varðveita hann. Niðurstöður benda til þess að starfsmenn í fjórum stofnunum af sex skrái ekki eða varðveiti tölvupóst eins og lög gera ráð fyrir. Kröfur stjórnenda stofnananna um varðveislu tölvupósts eru í samræmi við lögin en aðeins tvær stofnanir af sex fullnægja þeim helstu. Það má draga þær ályktanir af niðurstöðunum að þær fjórar stofnanir þar sem starfsmenn fara ekki að lögum varðandi varðveislu tölvupósts hafi ekki nógu vel skilgreinda ábyrgð starfsmanna innan stofnunar, of litla fræðslu til starfsmanna (sérstaklega um lög og reglugerðir), ófullnægjandi stuðning við skalastjórn frá deildarstjórum/millistjórnendum og óskýr fyrirmæli til starfsmanna. Það er ekki nóg að setja lög og reglur, það þarf að fylgja þeim eftir og kynna þær sannanlega fyrir starfsmönnum. Allir starfsmenn, bæði deildarstjórar og aðrir, þurfa að skilja að stofnunin taki lög og reglugerðir alvarlega. Inngangur Með tilkomu nýrrar tækni hafa orðið stakkaskipti á bréfasamskiptum milli fyrirtækja og viðskiptavina þeirra. Áður fyrr fóru bréfasamskipti að mestu fram með bréfpósti en í dag er tölvupóstur notaður í meira mæli en bréfpóstur. Tölvupóstur berst ekki bara á einn stað innan fyrirtækisins heldur á marga aðila. Af þessum sökum getur verið erfitt að halda utan um, skrá og varðveita tölvupóstinn. Fyrirtæki þurfa að geta kallað fram gögn úr tölvupóstkerfum sínum ef þörf krefur vegna viðskiptalegra og lagalegra hagsmuna sinna og er þeim því nauðsynlegt að huga jafn vel að varðveislu tölvupósts og pappírspóst. Erlendar rannsóknir sýna að rúmlega helmingur af tölvupósti fyrirtækja er varðveittur í tölvupósthólfum starfsmanna og hvorki skráður né vistaður í miðlægt skjalakerfi. Rannsókn sem gerð var á ríkisstofnunum á Íslandi (Þjóðskjalasafn Íslands, 2005) sýnir svipaðar niðurstöður og er þetta sláandi þar sem opinberum stofnunum er skylt að taka mið af ákvæðum laga og reglugerða um varðveislu skjala. Þetta bendir til þess að skráningu og meðhöndlun á tölvupósti sé mjög ábótavant hjá fyrirtækjum og stofnunum og var því ákveðið að rannsaka þessa þætti nánar. Rannsóknin sem hér er greint frá var unnin á tíma bilinu janúar til september 2007 og var loka verkefni mitt til BA-prófs í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Í rannsókninni var kannað hvernig opinberar stofnanir skrá og meðhöndla tölvupóst í rafrænu skjalakerfi. Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um meðferð tölvupósts hjá opinberum stofnunum til þess að varpa ljósi á það hvort stofnanir framfylgi lögum og reglum sem þeim eru settar. Leitast var við að fá innsýn í hvað stofnanirnar eiga sameiginlegt og hvernig þeim gengur að halda utan um tölvupóst fyrirtækisins og starfsmannanna. Þessar rannsóknarspurningar voru lagðar fram: 1. Hvernig gengur stofnunum að varðveita tölvu póst? 2. Hvernig er því fylgt eftir að tölvupóstur stofnunar og starfsmanna sé varðveittur? Sigríður Ó. Halldórsdóttir Tölvupóstur opinberra starfsmanna Meðferð og eftirfylgni við lög og reglugerðir

x

Bókasafnið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.