Bókasafnið - 01.10.2008, Síða 47
BÓKASAFNIÐ 32. ÁRG. 2008 45
starfsumhverfi bókasafns og upplýsingafræðinga í
kjölfar Landsaðgangs og annars rafræns efnis.
Notkun bókasafna – heimsóknum fækkar
Ýmsum rannsóknum ber saman um að heimsóknum
á bókasöfn fækki eftir því sem notkun rafræns efnis
vex (sjá Garguilo, 2003; OCLC, 2003; Siebenberg,
Galbraith, og Brady, 2004; Tenopir, 2003; Wakeham
& Garfield, 2005). Þátttakendur á Fold, Storð og
Eykt voru líka sammála um að hefðbundin notkun
bókasafna hefði minnkað í kjölfar þess að samið var um
Landsaðganginn. Bókasafns- og upplýsingafræðingar
þessara stofnana telja vinnu við hefðbundin verkefni,
eins og upplýsingaleit og skráningu og utanumhald
pappírstímarita, hafa minnkað. Nú sé mest leitað
til bókasafnanna eftir eldra efni og efni sem ekki
finnst í rafrænu gagnasöfnunum og tímaritunum.
Fyrst og fremst sé leitað að ritum sem eru eldri en
svo að þau séu í Landsaðgangi eða þeim sem ekki
eru í Landsaðgangi. Þetta er þá efni sem bókasöfnin
eiga ýmist sjálf eða þurfa að afla annars staðar með
millisafnalánum. Millisafnalán eru líka enn umtalsverð
þótt þeim hafi fækkað. Þetta á þó trúlega ekki síst
við um náttúruvísindageirann þar sem rannsóknir
byggjast talsvert á gömlu efni öfugt við það sem er
t.d. í læknis- eða erfðafræði.
Á Ósi, þar sem þátttökuathugunin fór fram,
virtist gegna svolítið öðru máli. Bókasafns- og
upplýsingafræðingurinn þar sagði að sér fyndist
safnið almennt lítið notað, en tengir það ekki
endilega við meiri notkun rafræns efnis. Vinnuálagið
á sérfræðingum sé einnig mikið og því e.t.v. lítill tími
til lestrar. Hann taldi að eldri starfsmenn virtust finna
mest af tilvitnunum í greinar í heimildalistum, sem
þeir komi þá gjarnan með í höndunum, og fái aðstoð
við að finna það sem þá vantar af þeim, annaðhvort
í ritum safnsins eða með því að leita í tölvum.
Yngra fólk sé hins vegar sjálfbjarga með flest. Þeir
sérfræðingar á Ósi, sem tekin voru viðtöl við; ýmist
stutt og óformleg eða formleg studdu að vissu leyti
það álit.
Sérfræðingur á Storð sagðist nota bókasafnið miklu
minna en hann gerði „eftir að allt er komið á netið“
og taldi að álagið á bókasafnið hlyti að hafa minnkað
mikið eftir að gagnagrunnarnir komu til sögunnar.
Hann bætti þó við að mikið af þeim rannsóknum sem
hann stundaði byggðust á „eldgömlum rannsóknum
og eldgömlum greinum sem eru alveg nýtanlegar í
dag“. Þetta efni taldi hann hvergi fáanlegt á vefnum
og það þyrfti þá að panta í gegnum bókasafnið. En
þó að hann segðist nota bókasafnið mun minna nú en
áður og vildi gjarnan hafa sem allra mest aðgengilegt
frá sinni eigin tölvu þá virtist hann samt eiga í svolítilli
togstreitu. Hún felst annars vegar í þægindunum
af því að finna hlutina sjálfur í sinni eigin tölvu og
hins vegar notalegheitunum við það að standa við
hillurnar á bókasafninu eða setjast í leskrókinn.
Þeir sérfræðingar sem talað var við á Eykt og Fold
töldu sig einnig nota bókasafnið minna; helst fari
þeir þangað til að leita í handbækur og bækur með
myndefni og til að fá aðstoð við að leita að og panta
efni sem ekki finnst rafrænt á vefnum.
Notkun Landsaðgangs og annars rafræns
efnis og upplýsingaleit
Sathe, Grady og Giuse (2002) og Smith (2003)
benda á að yngra fólk sé að jafnaði duglegra við að
tileinka sér nýjungar, svo sem rafrænt efni, heldur en
þeir sem eldri eru. Meirihluta þeirra bókasafns- og
upplýsingafræðinga, sem talað var við í rannsókninni,
bar einnig saman um að yngra fólk væri fljótara að
tileinka sér nýjungar, enda oft vant rafrænu efni úr
námi.
Þeir sérfræðingar, sem talað var við, töldu aðstöðu
til upplýsingaöflunar hafa breyst mikið með tilkomu
Landsaðgangs og annars rafræns efnis. Bókasafns-
og upplýsingafræðingar þurfi ekki lengur að vera
milliliðir við að leita í prentuðum skrám eða á
geisladiskum. Öll upplýsingaleit og –öflun hafi því
verið miklu þyngri í vöfum áður. Tveir sérfræðinganna
töldu það mikinn kost að geta leitað sjálfir að efni því
að þá rekist þeir oft á áhugaverðar greinar sem ella
hefðu farið framhjá þeim. Og sá þriðji sagðist ekki
skilja hvernig fólk fór að áður en þessar leitarvélar
komu til sögunnar. Sérfræðingarnir töldu sig nú orðið
finna sjálfir á bilinu 50-70% af því efni sem þá vantar
rafrænt, misjafn eftir því að hvaða efni er leitað.
Niðurstöður Törmä og Vakkari (2004) benda til
að tveir þriðju hlutar náttúrufræðinga í finnskum
háskólum noti rafrænt efni nokkrum sinnum í viku
sem er meira en önnur fagsvið. Gagnasöfn og rafræn
tímarit Landsaðgangs virðast einnig meira notuð af
fólki í raunvísindum en á öðrum fagsviðum (Anna
Sigurðardóttir og Pálína Héðinsdóttir, 2006; Áslaug
Agnarsdóttir, 2006). Niðurstöður rannsóknarinnar
benda einnig til að allir viðmælendur nema einn
fagni rafræna efninu og noti það mikið og þar
virðist efni Landsaðgangs gegna lykilhlutverki. En
þrátt fyrir að viðmælendum virðist tamt að tala um
Landsaðganginn og telji sig þekkja hann þá er líkast
því að sumir sérfræðingarnir geri sér ekki grein
fyrir því hvaða efni tilheyri Landsaðgangi eða hvar
þeir séu yfirleitt að leita. Þeir eiga líka erfitt með
að aðgreina notkun gagnasafna Landsaðgangsins og
notkun sérhæfðari gagnasafna, sem öll bókasöfnin
sem viðmælendur rannsóknarinnar tengjast, bjóða
einnig upp á.
Þetta vekur athygli. Segja má að ekki skipti máli