Húnavaka - 01.05.1978, Side 103
H Ú N AVA K A
101
Undanfarna daga hafði sett niðnr allmikinn snjó og gangfæri því
allþungt. Kólga var á fjöllum og gekk á með hríðaréljum á norðan
með stígandi frosti.
Tvær leiðir var hægt að fara; önnur var beint austur yfir hálsinn
um bæinn Svínavatn, en hin töluvert sunnar, gegnum svokallað
Sund, norðan Stóradals.
Ég ákvað að fara yfir hálsinn þó brattara væri, mest vegna þess að
ég óttaðist ófærð í Sundinu. En ferðin reyndist mér hin versta upp
hálsinn, allar lægðir yfirfullar af nýjum snjó. Ég lierti þó gönguna
eftir megni því farið var að dimma og hríðin að aukast. Þegar ég
kom upp á hálsinn hraðaði ég lieldur göngunni. Ekki sá ég til Langa-
dalsfjalls vegna snjókomu enda tekið að rökkva talsvert. En er neðar
kom í hálsinn, sá ég rnóta fyrir ýmsum kennileitum í Langadalsfjalli
og sömuleiðis á láglendinu.
Það sem mest vakti athygli mína var að ég sá Blöndu ólagða falla
út sandinn í þremur kvíslum. Mér flaug í hug strax, að enginn
mundi leggja hest í hana undir þessum kringumstæðum.
Taldi ég þó sjálfsagt að hafa tal af Þorláki bémda á Kárastöðum og
heyra hvað hann legði til þessara mála.
Ég færði honum orðsendingu prestsins um hestlán yfir ána, en
hann þvertók með öllu fyrir möguleika á því, bæði vegna dýptar við
skarirnar og hugsanlegs jakaburðar. Hann sagði að það eina, sem ég
gæti gjört væri að fara að fyrirmælum prestsins og taka strax stefnuna
til Blönduóss.
Ég var ekki mjög hrifinn af þeirri hugmynd, bæði var það löng
leið, gangfærið afleitt, norðan hríðarveður og nótt í aðsigi.
Ég spurði Þorlák hvort hann ætti ekki góðan göngustaf. Hann
sagði svo vera. Ég bað hann að lána mér liann, mig langaði til að
prófa hvað skarirnar að ánni væru sterkar. Nei, hann sagðist ekki
lána mér stafinn til þess. Ég spurði hvers vegna. Hann sagði að ég
væri vís til að fara að reyna eitthvað við ána, sem ég mundi ekki
gjöra staflaus.
,,Ég held að ég þekki ykkur, þessa strákkjána, þið haldið að þið
getið alla hluti.“ Ég sagðist þá fara og athuga Blöndu nánar, þótt ég
væri staflaus, en ef eitthvað kæmi fyrir, mætti hann vel muna að
hann hefði neitað mér um staf.
„Þú ert ekkert betri en hinir þöngulhausarnir, þið haldið að þið
getið alla hluti,“ sagði hann og rétti mér stafinn.