Húnavaka - 01.05.1983, Blaðsíða 35
HÚNAVAKA
33
gangi málsins á sýslufundi. Miklar umræður urðu um þetta og Jón
Pálmason Akri var staddur á fundinum og eins og segir í fundargerð
„mælti mikillega með því að reynt yrði að koma á samningum“. Út af
þessu var samþykkt svohljóðandi tillaga með 15 atkvæðum gegn 3:
„Með þeim skilyrðum að viðurkennt sé að samþykkt 12. október
1920, sé og verði í fullu gildi, og sýslunefnd falli frá að áfrýja til
hæstaréttar, gestaréttardómi Reykjavíkur 17. mars þ.á., skuldbindur
félagið sig til þess að kerfjast ekki af sýslusjóði árlega nema kr. 1500,
þegar fullgerðir eru akvegir fram að Sólheimum og vestur fyrir
Svínavatn. Borgi sýslusjóður ekki á þessu ári áfallnar skuldir sínar við
brautina ásamt vöxtum, og væntanlegan kostnað við lagning fyrr-
greindra vegaspotta, að sínum hluta eða umræddar 1500 kr. er vera
ber, telur félagið sig laust af framangreindu loforði, en annars leggur
félagið reikning vegagjörðarinnar fyrir sýslufund.“
Stjórninni var falið að senda oddvita sýslunefndar framangreinda
tillögu.
Ekki virðast samningar hafa tekist, þvíað 21. júní 1926 var kveðinn
upp svolátandi dómur í hæstarétti:
„Samkvæmt ástæðum hins áfrýjaða dóms, ber að staðfesta hann.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í hæstarétti með 200 krónum.
Þvd dæmist rétt vera: Hinum áfrýjaða dómi skal óraskað."
Á aðalfundi félagsins 20. apríl 1927, skýrði formaður frá dómi
hæstaréttar og í fundargerð segir:
„Út af því hve málafærslumanni félagsins, Pétri Magnússyni í
Reykjavík, hefir farist vel og drengilega málfærslan fvrir félagið, bar
formaður upp svohljóðandi tillögu, sem var samþykkt i einu hljóði.“
„Aðalfundur Svínvetningabrautarfélagsins vottar yður einróma
alúðarfyllstu virðingu sína og þökk fyrir þann mikilsverða þátt, sem
þér hafið átt í viðreisnarstarfi sveitanna hér, með hinni drengilegu og
röksamlegu framkomu í hæstaréttarmáli félagsins, og árnar yður allra
heilla, þar á meðal með hið mikla starf, sem þér hafið með höndum
fyrir landbúnaðinn.“
Áfram þokast vegurinn
Árið 1926er vegurinn að mestu fullgerður fram að Búrfelli og vestur
í Bót, þó vantar enn brú á Laxá og brú á Bótarlækinn.
3