Húnavaka - 01.05.1983, Blaðsíða 110
SIGURÐUR BJÖRNSSON, Örlygsstöðum:
Fátækt
Nú þegar íslendingar hafa í fyrsta sinn fullar hendur fjár, finnst mér
ekki líklegt að ég fái lesendur þessa þáttar til að fylgja mér á fund
fátæktar eins og hún var sárust um síðustu aldamót.
Það var á árunum milli 1880 og 1890 að móðurfrændi minn Bene-
dikt Pálsson, sonarsonur Hjálmars danska, en við Dani var hann
kenndur því hann var í siglingum með þeim og var tamt að nota dönsk
orð, fór á vertíð á Suðurnesjum, eins og siður var ungra manna. Að
vetrarvertíð lokinni fór hann ekki heim, heldur til Austfjarða, og
stundaði þaðan sjóróðra um sumarið, en um haustið var svo komið
fyrir honum að hann var heitbundinn ungri og elskulegri stúlku, er
Svanhildur hét. Hann ílentist fyrir austan í nokkur ár, stundaði sjó, en
græddist ekki fé, en fjölgaði börnum, svo að sveitarstjórnin óttaðist
sveitarþyngsli af hans völdum. Þrátt fyrir að þau Svanhildur og
Benedikt væru bæði vinnusöm og hann sérstaklega heppinn sjómaður,
þá kom þó að því að þau urðu að biðja um sveitarstyrk, börnum sínum
og sér til framfærslu. Börnin voru orðin fimm, þrír drengir og tvær
stúlkur og gátu orðið fleiri. Þá voru engar fjölskyldubætur, bara eftir-
talinn sveitarstyrkur, að svo miklu leyti sem vinna foreldranna ekki
nægði.
Að því kom hún dugði ekki. Það varð ekki lengur hjá því komist að
fara til sveitarstjórnarinnar og biðja um hjálp svo litlu munnarnir
fengju að borða. Þá fer sveitarstjórnin að athuga sinn hag og tekur það
ráð að losa sig við þetta fólk og senda það á heimasveit föðurins vestur
í Húnavatnssýslu. Það var löng leið að fara, austan frá Mjóafirði.
Þarna fór sem oft endranær að menn vita ekki hvað þeir eru að gera
þegar þeir ráðskast með framtið manna, því að í hópi þessara fátæku
barna var sú atorka og framtak falið að með eindæmum má telja.
Stefán litli var alltaf í forustu, bæði sem barn, unglingur og fullorðinn
maður. Hann var þreklega vaxinn, meira en meðalmaður á hæð og
talinn rammur að afli. Hann hafði þannig yfirbragð og framkomu, að