Ægir - 01.10.2014, Qupperneq 23
23
taka fram að þeir vilji komast með „spítu-
bátnum.“
Hnúfubakurinn breytti öllu
Hnúfubakur var friðaður á fyrri hluta sjötta
áratugar síðustu aldar og þá sagður nánast
útdauður í Atlantshafinu en Árni segir ljóst
að stofninn hafi nú náð sér vel á strik. Og
hann segir mikla fylgni vera á milli vinsælda
hvalaskoðunarferða og þróunar í hnúfu-
baksstofninum.
„Á meðan það er mikið af hnúfubak þá
verður aukning í hvalaskoðuninni en ég er
þess líka fullviss að einhvern tíma kemur
bakslag í þessa miklu göngu hnúfubaksins
hér á svæðinu. Við vorum á sínum tíma á
báðum áttum með að halda áfram þessari
hvalaskoðun meðan bara var hægt að sjá
hrefnur og önnur smáhveli. En hnúfubakur-
inn gjörbreytti okkar aðstæðum og er sá
grunnur sem við byggjum á. Það er miklu
auðveldara að finna hann en hrefnurnar og
meiri upplifun fyrir farþegana að sjá hnúfu-
bakinn,“ segir Árni.
Auðvelt að ná í þorskinn
Eins og áður segir hafa þeir eigendur Níels
Jónssonar ehf. skipt yfir í dragnótaveiðar
með tilkomu Sandvíkur EA-200 og kann
Árni þeim veiðiskap ágætlega. „Dragnótin
hefur bæði sína kosti og galla, við erum enn
að læra inn á þetta,“ segir skipstjórinn sem
vanastur er netaveiðinni á gamla bátnum.
Hann segir síðustu netavertíð hafa verið
eina þá allra bestu bestu á Norðurlandi frá
upphafi.
„Þorskgengdin hefur verið að aukast í
smáum skrefum mörg undanfarin ár og það
er ekki bara meira af þorski en áður heldur
er hann líka alltaf að verða stærri og stærri.
Það sjáum við líka í sjóstangveiðinni hjá
okkur á sumrin. Þetta þýðir auðvitað að það
þarf stöðugt minna að hafa fyrir því að
sækja þann afla sem við megum veiða,“
segir Árni og staðfestir það sem mikið hefur
verið umrætt að lítið er af ýsunni þessi árin
og frekast veiði á stærri ýsu. Miðað við síð-
ustu fréttir af rannsóknum muni þó aftur
birta til í ýsuveiðinni enda segi sagan að ýs-
an sveiflist mun meira en þorskurinn.
„Þegar ég byrjaði á sjónum á sínum tíma
kynntist ég þorskveiði í nót. Þá átti útgerðin
14 tonna bát og í eitt skipti fékkst á hann
100 tonna kast af þorski sem fyllti 11 báta!
Við vorum líka með þorsknót á sínum tíma
á Níelsi Jónssyni sem við eigum núna en
fyrst og fremst hefur verið fiskað í net á
honum,“ segir Árni.
Veiðidellan þrálát!
Ekki verður skilið við Árna skipstjóra án þess
að nefna hans stærsta tómstundaáhugamál
sem alla tíð hefur fylgt honum; sportveið-
ina. Þar er allt undir, ef svo má segja; sjóst-
angveiði, stangveiði og skotveiði þó líkast
til sé síðastnefnda veiðidellan sínu mest!
„Já, það er rétt. Ég er mikið í gæsaveið-
inni og rjúpnaveiði þá daga sem hún er
leyfð. Ég hef líkast til veitt í öllum landshlut-
um, nema þó á Vestfjörðum. Það svæði á ég
eftir,“ segir hann og bætir við að eftir mikla
fjölgun í gæsastofninum þyki honum ýmis-
legt benda til að sá stofn sé að gefa eftir.
„Síðan hef ég fjórum sinnum farið í
veiðiferðir til Grænlands, bæði veitt þar
bleikju á stöng og skotið hreindýr. Sömu-
leiðis hef ég veitt í Danmörku, Kanada,
Noregi, Skotlandi og í Afríku þangað sem
við veiðifélagarnir fórum fyrir 8 árum síðan.
Það var mikil upplifun að veiða þessi villtu
og stóru Afríkudýr og frábrugðið því sem
ég hef veitt áður. Og þar veiddi ég líka há-
karl á stöng!
Veiðiskapurinn hefur alltaf fylgt mér,
hvort sem er á sjónum eða frítímanum.
Þetta er í eðlinu,“ segir Árni Halldórsson.
Sjóstangveiði er fastur liður í hvalaskoðunarferðum Níelsar Jónssonar. Þessi rígvæni þorskur
fékkst á stöngina síðastliðið sumar.