Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.09.2015, Blaðsíða 21

Læknablaðið - 01.09.2015, Blaðsíða 21
LÆKNAblaðið 2015/101 409 R A N N S Ó K N Niðurstöður fyrri rannsókna, þar sem árangur þolþjálfunar hjá einstaklingum með og án sykursýki er borinn saman, eru nokkuð misvísandi. Nokkrar rannsóknir hafa komist að svipaðri niður- stöðu og hér er birt, það er að hjartasjúklingar með sykursýki bæti árangur í þreki við hjartaendurhæfingu minna en aðrir.11,12 Aðrar rannsóknir hafa fundið lægra þrek í byrjun hjá sykursjúkum hjartasjúklingum eins og í þessari rannsókn, en sambærilega bæt- ingu eftir hjartaendurhæfingu.13 Ástæður þess að hjartasjúkling- um með sykursýki af tegund 2 gengur heldur verr að bæta þrek sitt eru ekki að fullu þekktar, en geta til dæmis skýrst af lakara blóðflæði til vöðva í fótum.14 Einnig er þekkt röskun á starfsemi í hvatberum í þverrákóttum vöðvum sjúklinga með sykursýki af tegund 2,15 sem þó virðist geta gengið til baka með þjálfun.16 Reglu- leg líkamleg þjálfun og hreyfing er ein af grunnstoðum meðferðar við sykursýki af tegund 2 en ýmislegt bendir til þess að þeir hreyfi sig almennt minna en aðrir.17,18 Væntanlega eru því mikil tækifæri hjá þeim að ná heilsufarslegum ávinningi með aukinni hreyfingu þar sem sterk rök benda til þess að regluleg hreyfing bæti heilsufar og lifun hjá þeim sem hafa sykursýki af tegund 2.19,20 Niðurstöður okkar sýna að talsvert stór hluti rannsóknarhóps- ins jók hreyfingu og þjálfun, því rúmlega 40% hópsins segist í eftirfylgd hreyfa sig í að minnsta kosti tvær klukkustundir á viku af talsverðri ákefð. Þetta gæti skýrt það að bætt göngugeta sem náðist á meðferðartímanum viðhélst í eftirfylgd eftir sex mánuði. Hjartaendurhæfing á Reykjalundi inniheldur meðal annars fjölþætta líkamlega þjálfun sem rannsóknir hafa sýnt að skilar góðum árangri í að bæta þol og styrk. Slembuð íhlutunarrannsókn á sjúklingum með sykursýki af tegund 2 sem fengu mismunandi þjálfun, sýndi aukningu í þoli og styrk, en aðeins þeir sem fengu blandaða styrk- og þolþjálfun sýndu einnig marktæka lækkun á HbA1c miðað við samanburðarhóp.21 Aðrir þættir hjartaendurhæfingarinnar eru til dæmis fræðsla um mataræði, slökun, streitustjórnun og hvatning til aukinnar virkni og bættrar reglu á daglegum venjum, til dæmis svefn- venjum. Rannsóknir hafa sýnt að slík þverfagleg meðferð hefur góð áhrif til að draga úr einkennum um andlega vanlíðan, svo sem þunglyndi og kvíða.22 Það er mikilvæg forsenda þess að ein- staklingum takist með endurhæfingu að breyta lífsháttum sínum, meðal annars að auka hreyfingu og virkni. Ekki urðu neinar verulegar breytingar á notkun lyfja við syk- ursýki á rannsóknartímabilinu. Sjúklingar á insúlínmeðferð voru hvattir til að fylgjast vel með blóðsykurgildum sínum en oft er þörf á að lækka insúlínskammta eftir að þjálfunarmeðferð hefst. Engin alvarleg tilvik urðu af blóðsykurföllum eða hjartatengdum áföllum í rannsóknarhópnum á meðferðartímanum. Meðferðin virðist því vera áhættulítil, jafnvel fyrir þennan hóp einstaklinga sem margir eru í ofþyngd og hafa í mörgum tilvikum sögu um langvarandi hreyfingarleysi auk hjartasjúkdóms og sykursýki af tegund 2. Styrkleikar þessarar rannsóknar voru góð þátttaka, en allir sem komu til greina í rannsóknina samþykktu að taka þátt, og einnig að allvel gekk að fá þátttakendur til að mæta í eftirfylgd. Sami hópur starfsfólks sinnti meðferð sjúklinganna á rannsóknartím- anum og meðferðin var vel skilgreind og samkvæmt ákveðnum ferlum. Veikleikar rannsóknarinnar felast einkum í smæð rann- sóknarhópsins sem ekki leyfði samanburð innan hópsins. Einnig var talsvert brottfall í eftirfylgdinni, einkum í sex mínútna göngu- prófunum. Einnig má telja til veikleika að samanburðarhópurinn kom ekki í eftirfylgdarmælingar. Rannsókninni var fyrst og fremst ætlað að lýsa þeim árangri sem næst við núverandi verklag í hjartaendurhæfingu og því var ekki slembað í mismunandi meðferðarhópa, en ópersónugreinan- leg gögn sem liggja fyrir um aðra sjúklinga í hjartaendurhæfingu voru notuð sem viðmið. Meðal þeirra sjúklinga sem komu til hjartaendurhæfingar reyndist sykursýki af tegund 2 talsvert algengari en gengur og gerist í almennu þýði. Þeir sjúklingar sem hafa sykursýki eru að jafnaði þyngri og þrekminni, en árangur þeirra í endurhæfingu var annars að mestu sambærilegur og hjá öðrum hjartasjúkling- um. Ánægjulegt var að endurhæfingin virtist skila sér í bættum daglegum venjum til lengri tíma með aukinni hreyfingu og bættri göngugetu. Æskilegt væri að rannsaka frekar langtímaárangur hjartaend- urhæfingar sykursjúkra hjá enn stærri hópi. Einnig væri áhuga- vert að kanna hvort öðruvísi uppbyggð endurhæfing eða virkari stuðningur eftir útskrift gæti skilað betri árangri. Þakkir Þakkir fær Thor Aspelund tölfræðingur fyrir aðstoð við öflun og úrvinnslu gagna frá Hjartavernd, Vísindasjóður Reykjalundar fyrir styrk til rannsóknarinnar og starfsfólk Hjartateymis Reykja- lundar fyrir aðstoð við framkvæmd rannsóknarinnar.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.