Læknablaðið - 01.09.2015, Blaðsíða 31
LÆKNAblaðið 2015/101 419
l æ k n a n Á M Í Ö ð R U M l Ö n D U M
Góð fjárfesting í læknanáminu
Bjarni Blomsterberg í Ungverjalandi
Bjarni Blomsterberg lauk 5. ári í lækna-
námi í Debrecen í Ungverja landi í vor. Í
sumar starfaði hann á Land spítalanum
og heldur svo utan í haust til að ljúka
6. og síðasta árinu. Hann segir námið
hafa gengið vel, byrjunarörðugleikar
varðandi framandi land og nýtt tungu-
mál séu sannarlega til staðar en þar sem
námið fari allt fram á ensku hafi það
hentað honum ágætlega.
„Ég lauk stúdentsprófi frá IB-braut í
Menntaskólanum við Hamrahlíð en þar er
kennt á ensku sem hentaði mér ágætlega
þar sem ég bjó í Kaliforníu í 10 ár og flutti
heim þegar ég var búinn með 10. bekk í
High School.“
Hann segist fremur hafa viljað stunda
læknanám þar sem kennt er á ensku vegna
þessa bakgrunns síns og einnig segir hann
möguleika til framhaldsnáms og starfa
erlendis vera síst minni með slíkt nám í
farteskinu. „Ég spáði reyndar í að fara í
inntökuprófið í læknadeild HÍ og tók eitt
ár í HÍ í lífefnafræði en þegar ég var búinn
að taka inntökuprófið í Debrecen og komst
þar inn ákvað ég að taka því.“
Í Debrecen er talsverður hópur af Ís-
lendingum við nám í læknisfræði, eða um
125 manns. Til samanburðar eru um 300
læknanemar við læknadeild HÍ svo þetta
er ekki lítill hópur.
Það hefur stundum heyrst að auðveld-
ara væri að komast inn í læknanám er-
lendis en hér heima og eflaust er eitthvað
til í því. Bjarni segir að kröfurnar séu samt
verulegar og á fyrstu tveimur árunum sé
miskunnarlaust grisjað úr. „Við vorum um
450 sem byrjuðum saman á fyrsta árinu
en núna í lok 5. ársins erum við um 120.
Það segir allt sem segja þarf. Sumir hætta
reyndar af sjálfsdáðum af ýmsum orsök-
um en töluverður fjöldi fellur hreinlega á
prófum og verður að hætta þess vegna. Þó
er ekki verið að fækka nemendum niður
í ákveðinn fjölda. Þeir sem ná prófunum
halda áfram og fjöldinn er því breytilegur
frá einu ári til annars.“
Inntökuprófið sjáft segir Bjarni að hafi
verið bæði munnlegt og skriflegt. „Maður
velur að taka próf í tveimur greinum af
þremur, eðlisfræði, efnafræði og líffræði
og síðan er munnlegt próf og viðtal við
prófessora deildarinnar þar sem fyrst og
fremst er verið að meta hvort maður þurfi
að fara í svokallað BMC fornám (Basic
Medicine Course) við deildina áður en
hið eiginlega læknanám hefst. Fornámið
er ætlað fyrir þá sem hafa takmarkaðan
grunn í þessum þremur greinum sem ég
nefndi.“
Margir hafa talað um að kostnaður við
læknanám fyrir Íslendinga utan Norður-
landanna sé verulegur og Bjarni tekur
undir það. „Þetta hefur verið aukast með
hverju ári og er orðið verulega dýrt. Í til-
felli hvers nemanda geta þeir hækkað
skólagjöldin um 1000 dollara á ári sem
fyrir mig þýðir að heildarskólagjöld fyrir
námsárin sex verða 16.500 dollarar. Það
er hærri upphæð en Lánasjóður íslenskra
námsmanna lánar fyrir skólagjöldum
þannig að maður verður að brúa bilið með
einhverjum öðrum hætti.“
Hann bætir því við að kostnaður þeirra
sem eru að hefja nám núna sé töluvert
hærri en þetta þar sem skólagjöldin hafi
hækkað árlega frá því hann byrjaði.
Aðspurður um námið sjálft segir hann
að það sé mjög gott og að nokkru leyti
frábrugðið því sem hann hafi kynnt sér
um námið hér heima. „Fyrstu tvö árin er
verkleg kennsla mun meiri, sérstaklega í
anatómíunni. Þar erum við sett í miklar
krufningar á raunverulegum líkum, en
það er víst alveg hætt í HÍ. Prófin í líffæra-
fræðinni eru munnleg og skrifleg og fara
fram með krufningu raunverulegs líkams-
parts. Að öðru leyti er námið hefðbundið
og bóklegar greinar nánast hinar sömu
enda er námið alþjóðlega viðurkennt og
próf þaðan gildir nánast alls staðar.“
Hann segir kröfur um kunnáttu í
ungversku vera takmarkaðar en þó samt
nokkrar þegar kemur fram á 3.- 5. ár. „Við
þurfum að geta tekið stöðluð viðtöl við
sjúklinga og sýnt fram á að geta rætt við
sjúkling í klínískri skoðun. Ungverska
er ekkert sérlega auðvelt tungumál og
gjörólík bæði íslensku og ensku en maður
sleppur með það sem teljast verður fremur
lítil kunnátta.“
Bjarni segir að heildarkostnaður hans
við námið í Ungverjalandi verði um 23
milljónir en hann brosir bara og segir að
það sé eins gott að fá sæmilega borgaða
vinnu í framhaldinu. „Það fer megnið af
laununum í að greiða yfirdráttinn til að
byrja með og ég neita því ekki að þetta er
strembið en ég er sannfærður um að þetta
nám sé góð fjárfesting.“
Það liggur beint við að spyrja hvort
Ísland togi eitthvað sérstaklega í mann
sem dvalið hefur meginhluta ævi sinnar
erlendis. „Ég hef sterkar taugar til Íslands
og þykir mjög vænt um það og ég vildi
gjarnan vinna hér í framtíðinni. En það
verður kannski ekki á næstu árum enda
stefni ég á sérnám og svo verður framtíðin
bara að leiða í ljós hvar maður setur sig
niður. Læknisstarfið í dag er reyndar svo
alþjóðlegt að það er hægt að vinna nánast
hvar sem er með þessa menntun. Þetta er
starf þar sem maður þarf ekki bindast einu
landi.“
„Læknisstarfið í dag er svo alþjóðlegt að það er hægt að
vinna nánast hvar sem er með þessa menntun,“ segir
Bjarni Blomsterberg læknanemi í Ungverjalandi.
■ ■ ■ Hávar Sigurjónsson