Dagblaðið Vísir - DV - 03.02.2010, Blaðsíða 22

Dagblaðið Vísir - DV - 03.02.2010, Blaðsíða 22
22 MIÐVIKUDAGUR 3. febrúar 2010 HELGARBLAÐ Karlar hafa hneigð til fjölkvænis, konur eru haldnar kynferðislegri vanmáttarkennd, tíðablóð kvenna er eitrað, smokkar eru varhugaverðir og ófríðar stúlkur fá frekar tíðaverki, samkvæmt bókinni Kynlíf – leiðarvísir um kynferðismál, sem gefin var út árið 1948. DV tók saman nokkra valda kafla úr bókinni sem bera vott um úreltan hugsunarhátt í garð kvenna og bábiljur sem vísindin og samfélagið hafa að stórum hluta upprætt. Kynhvöt karlmannsins Kynhvöt karlmannsins er starfræn, þar sem hann leitar konunnar til þess að bjóða henni kynfrumur sínar. Kynhvöt karl- mannsins kemur honum til þess að gefa gaum að konum, það er að segja hann leggur mat á hinar óbeinu kyneigindir þeirra. Þegar hann hefur fundið einhverja, sem honum fellur vel við, þá fylgir hann henni eftir. Með kænsku veiðimannsins reynir hann að komast yfir bráð sína og lætur sér þá ekki allt fyrir brjósti brenna. Því nær sem hann kemst markinu og því meir sem hormónaframleiðsla kynkirtlanna eykst, því ákafari verður hann og jafnframt hispurslausari í hegðun sinni. Að síðustu verður hann beinlínis ásækinn, og ef svo ber undir, jafnvel ruddalegur. Þar sem karlmaðurinn hefur margar kynfrumur aflögu, er hann ekki sérlega vandfýsinn í vali sínu. Það skiptir ekki mjög miklu máli, hvort konan er honum samboðin eður ei, hvort hann hefur eina konu eða margar. Karlmaðurinn hefur hneigð til fjölkvænis og tilbreytingar í ástamálum. Kynhvöt konunnar Karlmaðurinn gefur frá sér kynfrumur, konan tekur við þeim. Á þessari einföldu staðreynd byggist allur hinn leyndardómsfulli mismunur í gerð og framkomu karla og kvenna. Hann sækist eftir bráðum sigri og hún vill líka láta sigrast. Hann er herinn, hún er vígið. Hann er segulnálin, sem segullinn, sem virðist hlutlaus, en geislar þó frá sér kynorku óaflátanlega. Eins og segullinn er hlaðinn segulafli er konan hlaðin kynorku í svo ríkum mæli, að hún er orðin hennar annað eðli, eða öllu heldur hennar sterkasta eðli. Þar af leiðandi veit hún varla, eða getur varla vitað, um þessa útgeislun fremur en sólin, sem vissulega hefur þó enga hugmynd um að hún skín. Öll tilvera heilbrigðrar og þroskaðrar konu, sem hefur ekki lent á glapstigum, er helguð kynlífinu. Það er kynhvötin, sem gerir fötin að þýðingarmesta viðfangsefni kvenlegrar hugsunar, og það er svo að réttu lagi, þar sem klæðnaðurinn er svo mikill og áberandi hluti hinna óbeinu kyneinkenna konunnar. Kynhvötin gerir val á höfuðfati eða liðun á hári að svo yfirgripsmiklu viðfangsefni, að hún getur hugsað um það dögum saman og jagazt um það við hárgreiðslustúlkuna tímunum saman […] Ef kveneðlið er nógu ríkt, þá hefur hnúturinn á hálsklútnum hennar miklu meiri þýðingu í hennar augum en allt heimspekikerfi Kants. Styrkur kynhvatarinnar Vegna þeirrar þýðingar, sem kynhvötin hefur fyrir viðhald lífsins, er hún óhemju sterk. Heilbrigt fólk hefur mjög sterka kynhvöt, og hver sá, sem ekki vill kannast við það, er annað hvort hræsnari eða sjúklingur. Allir hreinskilnir menn hafa viðurkennt afl kynfýsnar sinnar og þjáðst af henni. […] Það er sannast mála, að óhamingja tilveru vorrar á mjög oft rót sína að rekja til þess, að við höfum skapað siðareglur, sem beinast að því að afneita kynhvötinni sem einhverju ósiðlegu fyrirbæri. Auðvitað árangurs- laust. Kynferðisleg vanmetakennd Margt kvenfólk er haldið kynferðislegri vanmetakennd gagnvart karlmönnum, af því, að þær hafa fengið þá hugmynd, að þær hafi ekki fullkomin kynfæri. […] Þessi duld býr um sig í dulvitund fjölmargra kvenna og eitrar sálarlíf þeirra. Þær harma örlög sín, að þær skuli vera fæddar konur. Þær eru afbrýðisamar gagnvart hinu kyninu og vanmeta hið sanna gildi kvenþjóð- arinnar. Þær reyna eftir öllum mætti að líkja eftir karlmönnum, að keppa við þá og reyna jafnvel að taka þeim fram á eigin eðlissviði þeirra. Í stað þess að reyna að öðlast heilbrigðan þroska og kvenlegan yndisþokka, ber allt lífsviðhorf þeirra merki sálsjúkrar sundrunar og lífslyga, sem kæfa hinar sönnu og eðlilegu eigindir kvenlegs sálarlífs. Við þetta bætast svo alls konar truflanir á kynferðislífi þeirra og jafnvel bein kynvilla. Stinning af völdum annarlegra efna, sem hafa áhrif á heilann Ýmiskonar efni verka á heilann líkt og kynhormónin, og valda stinningu. Áfengi er hið þekktasta slíkra efna; eykur það næmleik heilans fyrir ertingu. Áfengi er því hið útbreiddasta meðal til kynertingar og kynferðisflekunar og því ómissandi fyrir næt- urklúbba og aðrar slíkar stofnanir, sem sjá sér hag í kynfýsn karlmanna. „Sine Baccho friget Venus“ – ef vínguðinn er ekki með, þá verður ástargyðjunni kalt. Stinning vegna flengingar Forðast skal að leggja dreng yfir hné sér til þess að flengja hann, eins og áður tíðk- aðist svo mjög. Er það óheppilegt, ekki einungis frá uppeldislegu sjónarmiði, heldur einnig af sömu ástæðu og áður er talið, þeirri, að flengingin getur auðveldlega vakið kynferðislega notakennd. Meyjarhaftið Munurinn á jómfrú og konu, sem hefur haft samfarir, er sá, að hin síðarnefnda hefur ekkert meyjarhaft. Ýmis stig, bæði líkamleg og siðferðileg, eru þó á milli ósnortinnar meyjar og afmeyjaðrar konu. Stúlkur, sem ekki hafa fullkomlega rofið meyjarhaft, heldur einungis teygt af allskonar fikti eða varfærnislegu samræði, eru kallaðar hálfmeyjar. Er tíðablóðið eitrað? Sú almenna skoðun, að tíðablóðið sé eitrað, og að konan ætti ekki að fást við blóm, eða ávaxtasultun á þessu tímabili, er ekki alveg út í hött. Ekki einungis blóðið, held- ur svitinn, útöndunarloftið og svo framvegis, innihalda skaðlegt efni, meno toxin, meðan á tíðum stendur og getur það haft skaðleg áhrif á blóm á ávexti. Tíðaþrautir eru flestar sálræns eðlis Kátar, fjörugar og skemmtilegar stúlkur hafa sjaldan tíðaverki, hinsvegar eru þeir miklu algengari meðal ófríðra stúlkna og piparmeyja, sem hafa komizt í ranghverfa afstöðu til lífsins. Ófríð stúlka er að sjálfsögðu afbrýðisöm gagnvart laglegri og eftirsóttari kynsystrum. Hún getur ekki vakið eftirtekt á sér með neinum andlegum eða líkamlegum yfirburðum. En einmitt vegna þessa, þráir hún því meir að láta athyglina beinast að sér, og þannig tekur hún tíðunum, vitandi eða óafvitandi, sem velkomnu tækifæri til að láta á sér bera. Hún fær krampa, það líður yfir hana, hún verður að liggja í rúminu, það verður að ná í lækni, „hún varð að fá sprautu“. Hún minnist eins oft á þessa sprautu og með álíka stolti og hún hefði unnið verðlaun í fegurðarsamkeppni, og fyrir hið sjúka sálarlíf hennar er þessi viðburður í rauninni nokkurskonar uppbót fyrir þá gleði og sigra sem henni er fyrirmunað að ná á öðrum sviðum. Biðillinn Karlmaðurinn á upptökin. Hann reynir að vekja eftirtekt konunnar á verðleikum sínum. Hann sýnir krafta sína og dregur heldur ekki fjöður yfir vitsmuni sína og andlegt atgervi, segir henni frá ferðum sínum, ævintýrum og fyrri afrekum (meira og minna sannleikanum samkvæmt), og segir henni frá framtíðarhorfum sínum og fyrirætlunum, til þess að gylla fyrir henni þá framtíð, sem hún megi eiga í vænd- um, ef hún taki honum. Með gjöfum sýnir hann henni smekkvísi sína og peninga- ráð; hann staðfestir dýpt og einlægni tilfinninga sinna með yndislegum bréfum og jafnvel ljóðum og hegðun hans yfirleitt nálgast hið kátbroslega í augum hins „alsgáða“ áhorfanda. Kossinn Kossinn er ákaflega þýð- ingarmikill liður í prófraun ástarinnar og ber því að meta hann þar eftir. Kyssið áður en þér gefið yður á vald eldhugans og látið ekki undan, fyrr en þér hafið kysst af öllum mætti og dómgreind sálar yðar. Og þegar þér lokið aug- unum undir kossaregni elskhugans, þá gerið það til þess að sjá enn betur með augum sálarinnar. Ef kossinn veitir ekki þann konum að kenna“ „Kyndeyfð karla er

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.