Dagblaðið Vísir - DV - 19.07.2010, Blaðsíða 4
4 fréttir 19. júlí 2010 mánudagur
Betra loft
betri líðan
Airfree lofthreinsitækið
• Eyðir frjókornum og svifryki
• Vinnur gegn myglusveppi og ólykt
• Eyðir bakteríum og gæludýraflösu
• Er hljóðlaust og sjálfhreinsandi
Hæð aðeins 27 cm
Sími 569 3100 • Stórhöfða 25 • www.eirberg.is
Ölvaðir við akstur
á Selfossi
Þrír ökumenn voru teknir fyrir ölv-
unarakstur í umdæmi lögreglunn-
ar á Selfossi aðfaranótt sunnudags.
Liðin helgi var fremur róleg í flest-
um lögregluumdæmum landsins
og komu til að mynda engin sérstök
mál inn á borð lögreglunnar á höf-
uðborgarsvæðinu. Þrír fengu að sofa
úr sér ölvímuna í fangageymslum
lögreglunnar í Reykjanesbæ. Þá var
einn ökumaður stöðvaður vegna
gruns um ölvunarakstur skammt frá
Akureyri á sunnudagsmorgun.
Styðja
verkfallsboðun
Félag íslenskra flugumferðarstjóra
hefur lýst yfir stuðningi við Lands-
samband slökkviliðs- og sjúkraflutn-
ingamanna og sendir því baráttu-
kveðjur í baráttu þeirra fyrir bættum
kjörum. Að óbreyttu munu slökkvi-
liðs- og sjúkraflutningamenn fara í
verkfall næstkomandi föstudag með
ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Í tilkynningu frá Félagi íslenskra
flugumferðarstjóra kemur fram að
slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn
gegni afar mikilvægu hlutverki í
öryggis- og heilbrigðiskerfi lands-
manna. Hvetur félagið launanefnd
sveitarfélaga til að ganga þegar í stað
til samninga.
Steinunn vill
stjórna á
Akranesi
38 sóttu um starf bæjarstjóra
Akraneskaupstaðar en um-
sóknarfrestur rann út ellefta júlí
síðastliðinn. Meðal þeirra sem
sækja um embættið eru Steinunn
Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi
borgarstjóri Reykjavíkur og Árni
Múli Jónasson fiskistofustjóri.
Þá sækja sex einstaklingar um
stöðuna sem áður hafa gegnt
bæjar- eða sveitarstjórastöðum
í öðrum sveitarfélögum. Það eru
Capacent Ráðningar sem annast
umsóknarferlið og mun fyrirtæk-
ið leggja til að rætt verði við þá
fimm umsækjendur sem taldir
eru hæfastir.
Arnaldur Indriðason glæpasagna-
höfundur græddi tæpar 80 milljón-
ir króna á sölu bóka sinna árið 2008.
Þetta kemur fram í ársreikningi eign-
arhaldsfélags rithöfundarins, Gil-
haga ehf., sem samþykktur var á að-
alfundi félagsins fyrir rúmu ári síðan.
Þetta var hagnaður félagsins eftir
að búið var að greiða rúmlega 13,5
milljónir króna í tekjuskatt til ríkis-
ins. Í sama ársreikningi kemur fram
að hrein eign Gilhaga ehf. hafi numið
tæpum 170 milljónum króna í lok árs
2008.
Líklegt má telja að þetta þýði að
Arnaldur sé tekjuhæsti núlifandi rit-
höfundurinn á Íslandi. Ef hagnaði
Gilhaga er deilt niður á alla tólf mán-
uði ársins sést að Arnaldur er með
rúmlega 6,5 milljónir króna í laun á
mánuði. Arnaldur er því með um sjö-
föld laun forsætisráðherra Íslands,
Jóhönnu Sigurðardóttur, og meira en
tuttugufalt hærri mánaðartekjur en
þeir rithöfundar sem þurfa að reiða
sig alfarið á starfslaun listamanna.
Starfslaunin nema tæplega 270 þús-
und krónum á mánuði.
Þó sýna ársreikningar Arnaldar að
hann notar ekki nema hluta af hagn-
aði félagsins til einkaneyslu þar sem
eignirnar eru komnar upp í tæpar
170 milljónir króna. Því er það ekki
svo að Arnaldur sólundi öllum þeim
hagnaði sem hann býr til með skrif-
um sínum. Félag hans á handbært fé
upp á rúmlega 170 milljónir króna
og verðbréf upp á rúmar 7 milljón-
ir króna. Á móti þessum eignum eru
skuldir upp á aðeins tæpar 18 millj-
ónir króna.
Ótrúlegur árangur Arnaldar
Vinsældir og útbreiðsla bóka Arn-
aldar Indriðasonar eru orðin mjög
mikil og má rekja góða fjárhagsstöðu
hans til þess að bækur hans seljast
vel víða um lönd, til dæmis í Frakk-
landi og Þýskalandi. Meðal bóka
hans má nefna Mýrina, Napóleons-
skjölin, Bettý og Harðskafa. Síðast-
liðin tíu ár hefur Arnaldur verið met-
söluhöfundur hér á landi og síðustu
árin hefur hann einnig haslað sér
völl erlendis eins og fjölmargar frétt-
ir af honum bera glögg merki. Bækur
hans seljast í hundruðum þúsunda,
og jafnvel milljónum, eintaka milli
ára. Hann hefur einnig hlotið fjöl-
mörg verðlaun í Evrópu, meðal ann-
ars í Svíþjóð og Englandi.
Arnaldur hefur því náð þeim sér-
staka sess á meðal íslenskra rithöf-
unda að ná að efnast vel á því að
selja bækur sínar erlendis. Afar fáir
íslenskir höfundar hafa náð viðlíka
árangri erlendis að þessu leyti. Með-
al annars má nefna að nóbelskáldið
Halldór Laxness seldi aldrei mikið
magn bóka erlendis þrátt fyrir ótví-
rætt bókmenntalegt gildi margra
verka hans. Enda hafa verðlaunin
ekki verið veitt fyrir vinsældir höf-
unda og þau eru ekki þekkt fyrir að
tryggja þeim háar sölutölur.
Arnaldur virðist því skrifa bækur
sem falla mjög vel í kramið hjá al-
menningi nánast hvar sem er í heim-
inum og má að þessu leyti líkja hon-
um við þekkta glæpasagnahöfunda
eins og Agöthu Christie, P.D. James
og Stieg Larsson. Óháð allri umræðu
um bókmenntalegt gildi glæpasagna
þá virðist Arnaldur gera það sem
hann gerir afar vel.
Mikil hækkun á milli ára
Á ársreikningi Arnaldar fyrir árið
2008 má álykta ýmislegt um hversu
mikið vinsældir hans jukust á milli
áranna 2007 og 2008. Hagnaður Gil-
haga fyrir árið 2007 nam rúmum 36
milljónum króna eða meira en 40
milljónum króna minna en fyrir árið
2008. Því var um að ræða meira en
tvöföldun á hagnaði Arnaldar á milli
ára og má því segja að vinsældir Arn-
aldar hafi meira en tvöfaldast frá
2007 til 2008.
Aðspurður segir Arnaldur að
hann velti þessum hagnaðartölum
ekki mikið fyrir sér en að líklega sé
skýringin á þessum mun mikil breyt-
ing á sölu bóka hans erlendis. „Ég
velti þessu nú ekki mikið fyrir mér ef
ég á að segja eins og er. Ég býst við
að þetta sé aukin sala erlendis á milli
ára,“ segir Arnaldur. Höfundurinn
segir aðspurður að mikill meirihluti
þessa hagnaðar sé tilkominn vegna
sölu erlendis. „Þetta eru markað-
ir erlendis. Nei, ég er ekki klár á því
hvernig skiptingin er á milli Íslands
og útlanda en þetta eru töluvert
miklu meiri tekjur sem eru komnar
frá útlöndum,“ segir Arnaldur.
Arnaldur segir að bækur sínar
njóti hvað mestra vinsælda í Þýska-
landi, þar sem hann hefur selt meira
en milljón eintök af einstaka bókum,
í Frakklandi og eins á Norðurlönd-
unum. „Þýskaland hefur alltaf verið
mjög sterkur markaður fyrir þessar
bækur mínar, Frakkland hefur verið
að koma mjög sterkt inn og Norður-
löndin hafa alltaf verið áhugsöm.“
Hann segist telja að árið 2009 hafi
verið svipað í rekstri Gilhaga og árið
2008, það er að segja að hann hafi
selt álíka mikið af bókum það árið
og 2008. Ársreikningur Gilhaga fyrir
árið 2009 liggur ekki fyrir um þessar
mundir.
„Við kunnum á bækur“
Ársreikningur Gilhaga er mjög ólík-
ur mörgum af þeim ársreikningum
einstaklinga og fyrirtækja sem hafa
verið til umfjöllunar í fjölmiðlum eft-
ir hrunið 2008. Reikningurinn sýnir
sterka eiginfjárstöðu félags Arnaldar
og mjög litlar skuldir á móti eignum
sem slaga upp í 200 milljónir króna.
Sömuleiðis er ekki að finna neinar
bókhaldsbrellur eða einkennileg-
ar færslur í ársreikningi hans sem
benda til að verið sé að reyna að fela
eitthvað eða fegra. Ársreikningurinn
sýnir þvert á móti hvað staða Arnald-
ar sem glæpasagnahöfundar er sterk
og hve skrif hans eru ábatasöm fyr-
ir hann sjálfan, samverkamenn hans
og íslenska ríkið.
Arnaldi hefur því tekist að búa
til það sem kalla mætti vel heppn-
aða útrás sem byggir eingöngu á
hugviti, hugmyndum og vinnu hans
sjálfs og samstarfsmanna hans sem
koma verkum hans á framfæri.
Hann framleiðir afurð, bækur, sem
almenningur í öðrum löndum hefur
áhuga á að kaupa. Þessi útrás Arn-
aldar með glæpasögur sínar er því
afar ólík þeirri útrás sem íslenskt
viðskiptalíf fór í á árunum fyrir hrun
og endaði með falli íslenska banka-
kerfisins.
Þegar þessar pælingar eru bornar
á borð fyrir Arnald segir hann: „Þetta
er útflutningur á íslenskri menningu,
sem er auðvitað jákvætt. Þetta er það
sem við kunnum, við kunnum á bæk-
ur og við kunnum á menningu. Þetta
er okkar arfleifð langt aftur í aldir.“
Arnaldur býr til nærri 80 millj-
óna króna hagnað fyrir sjálfan sig og
meira en 13 milljónir króna í skatt-
tekjur fyrir íslenska ríkið með því
að gefa ímyndunarafli sínu lausan
tauminn sitjandi við skrifborðið á
heimili sínu á Seltjarnarnesinu.
Þetta er það sem við kunnum, við
kunnum á bækur og við
kunnum á menningu.
ingi f. VilhjálMsson
fréttastjóri skrifar: ingi@dv.is
ARNALDUR GRÆDDI
80 MILLJÓNIR KRÓNA
Glæpasagnahöfundurinn Arnaldur indriðason fékk tæplega 80 milljónir króna í hagnað
vegna sölu á bókum sínum árið 2008. Eignir félags hans, Gilhaga, námu 170 milljónum
króna í árslok 2008. Arnaldur segir að meirihluti hagnaðarins sé tilkominn vegna sölu á
bókum í útlöndum og að hann telji að hann hafi selt álíka mikið af bókum í fyrra.
Auðugur Arnaldur Arnaldurgræddium
80milljónirárið2008ogeignarhaldsfélag
hansáeigniruppá170milljónirkróna.
Höfundurinnsegiraðumséaðræða
útflutningáíslenskrimenningu.