Dagblaðið Vísir - DV - 04.10.2010, Blaðsíða 20

Dagblaðið Vísir - DV - 04.10.2010, Blaðsíða 20
20 fókus 4. október 2010 mánudagur L eikritið um Enron er komið til Íslands. Það er lent á Stóra sviði Borgarleikhússins með glæsibrag. Í afar vandaðri sviðsetningu sem verður ekki annað séð en taki það í meginatriðum réttum tökum. Um verkið sjálft hefur mjög ver- ið deilt. Margir gagnrýnendur hældu því í hástert, þegar það var frumsýnt á Englandi árið 2009, en það kolféll á Broadway á síðasta vori. Út af því hafa spunnist fjörlegar deilur sem menn geta fengið bragð af með því að fara inn á dóm Michael Billingtons á vef Guar- dians. Billington, sem er einn fremsti leikdómari Breta og ég hef áður vitnað til, var einn aðdáendanna (gaf leikn- um heilar fimm stjörnur) og því ekki par hress þegar Bandaríkjamenn sjálf- ir fúlsuðu við leiknum. Hann skrifaði þá grein þar sem hann reyndi að átta sig á því hvað lægi að baki þessum við- tökum – án þess þó að hafa séð Broad- way-sýninguna – og vildi þar ekki síst kenna um afar neikvæðum dómi frá gagnrýnanda New York Times; Bill- ington gengur svo langt að kalla hann „fjandsamlegan og ruglingslegan“. En ekki eru allir sammála þeirri greiningu og í athugasemdadálkn- um við grein hans deila menn meðal annars um það hvort örlög sýningar- innar hafi stafað af lélegum leikhús- smekk Kanans eða því að verkið sjálft sé bara ekki nógu gott. Ég hvet alla sem hafa áhuga til að kíkja á þessi skrif, ekki síst þá sem finna sig knúna til að gera athugasemdir við leik- dóma sem birtast á netinu. ÞARNA kunna menn sem sé að nota tæknina til að halda uppi siðaðri leiklistarum- ræðu, herskárri en málefnalegri, ekki persónulegri og ruddalegri (svoleiðis öllu er líka eytt jafnóðum). Og þó að innleggin séu kannski misviturleg, þá er ljóst að flestir hafa byrjað á því að LESA það sem leikdómarinn skrifaði áður en þeir viðruðu skoðanir sínar. Eftir að hafa lesið leikritið og séð sýningu Borgarleikhússins verð ég að játa að ég hallast fremur á sveif með Kananum í þessari milliríkja- deilu stórveldanna. Bresku sýning- una sá ég ekki, en heyri á öllum að hún hafi þótt mjög góð, ekki síst túlk- un Samuels West á burðarhlutverk- inu. Höfundurinn, Lucy Prebble, er bresk kona um þrítugt og verkið er skrifað af miklum metnaði. Það er að sjálfsögðu gríðarleg áskorun að ætla sér að skila í dramatískum búningi svo flókinni sögu, sögu sem hlýtur að vinna með tæknilegum og viðskipta- fræðilegum hugtökum sem flest eru fyrir utan og ofan sjónhring venjulegs fólks. Þar við bætist að efninu hafa áður verið gerð skil í frábærri heim- ildarmynd sem margir hafa séð. Prebble nálgast efnið frá ýmsum sjónarhornum, beitir fjölbreyttum aðferðum, sem eru ýmist ættaðar úr alþýðlegri bandarískri dægurmenn- ingu og evrópskri framúrstefnu; bæði bandaríska músíkalið og Brecht koma þar við sögu, og sums staðar er ekki laust við að absúrdisminn gamli teygi upp hausinn. Sem er vel við hæfi, því þetta er absúrd saga. Þeg- ar bilið á milli veruleika og ímynd- unar er orðið of breitt, er eiginlega ekkert eftir annað en súrrealism- inn. Leikhúsið sjálft sem listform er í reynd notað sem metafóra um tiltek- ið mannlegt atferli sem bæði hefst og endar í leikhúsi – í neikvæðum skiln- ingi orðsins, samanber þegar við töl- um um „leikhúsið við Austurvöll“. Þetta skilur Stefán Jónsson þegar hann sviðsetur leikinn og þetta skilja allir sem vinna með honum. Þarna er unnið af hundrað prósent fag- mennsku – og natni við smáatriðin. Ég get ekki gert upp á milli leikmynd- ar Barkar Jónssonar, búninga Helgu I. Stefánsdóttur, ljósalistar Þórðar Orra Péturssonar og tónlistar og leik- hljóða (tek fram að ég nota ekki orðið „hljóðmynd“) Helga Svavars Helga- sonar og fleiri snillinga. Þýðing Eiríks Arnar Norðdahl hljómaði líka yfirleitt vel og varpmyndir Gideons Kiers og grafískar útfærslur voru áhrifamiklar. Aðeins eitt – en bara af því að ég er nöldurseggur eins og margir vita og verð að fá að nöldra smávegis: mikið óskaplega er ljótt að sjá hljóðnemana svona utan í ásjónunni á leikendun- um. Ég skil að það þarf að nota þess- ar græjur eins og hér er í pottinn búið og tækni þeirra er vel beitt, en þetta er engu að síður afar truflandi sjón- mengun sem maður hefur vanið sig á að þola í söngleikjum, en pirrar mann mjög í svona – á heildina litið – „streit“ leikritum. En þó að höfundur leiki sér að ýmsum gamalkunnum leikrænum formúlum, þá er verkið fyrst og fremst samið undir formerkjum klassísks harmleiks. Í grundvallaratriðum er þetta saga um ofdrambið og afleið- ingar þess. Flestar aðalpersónurnar eru sannsögulegar: Jeffrey Skilling, Andy Fastow og Ken Lay voru allir að- alleikendur í Enron-dramanu. Skilling og Fastow sitja nú í tukt- húsi, en Ken Lay, sem var ein aðal- sprautan við stofnun Enrons árið 1985 og stjórnarformaður, dó áður en komið varð yfir hann lögum árið 2006. Hann var þá orðinn mað- ur gamall og fór víst úr hjartaslagi. Hann er hér sýndur sem kapítalisti af gamla skólanum, ógnarlegur potari og valdastreðill, með góð sambönd í Hvíta húsinu og hefur nú orðið stór- um meiri ánægju af að rækta þau en sinna fyrirtækinu. Samt er hann með einhverjar leifar af gömlum hugsjón- um, trú á þá köllun kapítalismans að skapa mannúðlegt og lífvænlegt samfélag handa öllum. Hann er barnslegur og sjálfum- glaður patríarki sem útdeilir hundrað dollara seðlum til allra starfsmanna sem hann rekst á, þegar hjólin snúast, veiklundaður málsvari gamalla gilda sem ófreskjurnar, undirmenn hans, skilja ekki og hafa varla nokkurn tím- ann vitað af. Gegnumamerísk týpa og gjörsamlega veruleikafirrtur þegar hér er komið sögu. Hjalti Rögnvalds- son leikur hann með kúrekahatt, sem er vel til fundið, og kemst furðanlega frá því, þó leikarinn sé vissulega sjálf- um sér líkur og léttari leikmáti myndi ekki spilla neinu. Aðalpersónan er þó Jeffrey Skill- ing, maðurinn sem gerði Enron á ör- fáum árum að þeim brauðfætta risa sem féll svo með hrikalegum afleið- ingum árið 2001. Það var þá stærsta gjaldþrot sögunnar þó að brátt yrði það met slegið og nú sé gjaldþrot En- rons númer átta í röðinni samkvæmt yfirliti sem er birt í leikskránni (hún er einkar vönduð og efnismikil að þessu sinni). Skilling er hinn siðlausi „uppi“, maður gæddur óvenjulegum gáfum sem fleyta honum langt, en um leið haldinn djúpstæðum sálar- og skapgerðarbrestum; Billington líkti persónunni við þær hetjur Chris- topher Marlowes – mesta samtíma- skálds Shakespeares – sem sprengja sjálfar sig á ofmetnaði og hroka, og ég hygg að það sé nokkuð góð sam- líking. Það er ekkert áhlaupaverk að túlka slíka persónu og óneitanlega djarft af leikstjóranum að tefla tiltölulega óreyndum leikara fram í hlutverk- inu. Stefán Hallur Stefánsson tekst á við það af einurð og góðum skilningi, en hann nær ekki þeirri breidd sem þarf til að gera manninn verulega hugstæðan; það vantar í hann eitt- hvert demónskt ofstæki sem hlýtur að eiga að vera þarna og líka – oftast nær – þá angist sem heltekur hann þegar á líður, þó að þá gerði Stefán Hallur reyndar víða vel. Getur verið að sá leikhraði sem Stefán leikstjóri kallar fram – og mér finnst að öðru jöfnu eiga fullan rétt á sér – sé Stefáni leikara að einhverju leyti ofviða? Stef- án Hallur má alltaf vara sig á því að verða ekki eintóna í framsögn og mig grunar að leikhraðinn auðveldi hon- um það ekki hér. Á stöku stað þegar leið á fyrri hlutann var eins og hann héldi ekki alltaf nógu skýrum fókusi, þó að vissulega sýndi hann í óttann sem vaknar þegar Skilling fer að átta sig á því hversu fastur hann er orðinn í eigin svikamyllu. Undir lokin var ég þó að mestu búinn að missa áhug- ann á þessum leiðigjarna og sjarma- lausa maníakk, en það kenni ég líka – og eiginlega öllu meir – höfundi en leikara. Það eru ýmsar góðar senur í leik- ritinu, einkum fyrri hlutanum, og þær njóta sín oft vel í höndum leik- enda. Jóhanna Vigdís Arnardóttir var afar sannfærandi í Claudiu Roe, sem er skálduð persóna en myndar nauðsynlegt dramatískt mótvægi við Skilling: hæfilega köld og ófyrirleit- in, en ekki jafn sálarlaus og „strák- arnir“ sem eru frá upphafi kolklikk- aðir í sínum stjörnustríðum. Bergur Þór Ingólfsson var einnig mjög góð- ur í hlutverki handbendisins Andys Fastow. Bergur Þór er vaxandi leik- ari, hægt að vísu, en öruggt. Eitt af því besta í verkinu er hárbeitt gagn- rýni þess á hið sjúka andrúmsloft sem þrifist hefur í fyrirtækjum rekn- um eftir hinu bandaríska módeli, þar sem sleikjuskapur og hnífstungur eru daglegt brauð. En þegar sígur á seinni hlutann missir verkið flugið, kannski af því að við vitum hvernig þetta fer og af því að skáldið nær ekki að við- halda spennunni þegar að því kemur að leiða dramað til lykta. Atriðin með eðlunum í kjallara Fastows urðu of teygð og réttarhöld- in voru litlu betri. Lokaræða Skill- ings, sem botnar leikinn, er eitthvert hálfkjánalegt bull út í loftið sem höf- undur hefði betur strikað út. Er þetta allt saman í raun og veru nokkurt efni í hefðbundinn harmleik? Harð- soðnir höfundar heimildaleikhússins af skóla Tollers, Brechts eða Peters Weiss hefðu alltént farið allt öðru vísi að, búið til eitthvað kalt og fræðandi, en þá er svo sem ekki líklegt að verk- ið hefði átt nokkurn séns í Vesturend- anum, hvað þá á Breiðvangi. Þeg- ar upp er staðið finnst mér það eins og lenda á milli stóla: verða hvorki almennilegt sálfræðilegt drama né kröftugt heimildaleikhús sem legg- ur allt kapp á að miðla staðreyndum, kveikja gagnrýnar spurningar, tala til áhorfenda sem hugsandi fólks. En misskiljið mig ekki, það eru góðir bjórar í þessu; vona að það hafi kom- ið skýrt fram, ef einhver skyldi láta svo lítið að blogga við þennan dóm. Mér finnst ástæðulaust að fjalla um frammistöðu annarra leikenda en þeirra sem nefndir hafa verið – nema hvað Vigdís Gunnarsdóttir á sérlega góða endurkomu í hlutverki hluta- bréfasala og Halldór Gylfason var eft- irminnilegur öryggisvörður, trúverð- ugur fulltrúi hins óbreytta manns í forretningunni. Þarna er bæði ung- um leikurum og eldri teflt fram og þeir ungu standa sig vel, þó að stund- um sjáist svitinn boga af þeim í hin- um fýsísku átökum sem þeir þurfa að inna af hendi. Því þarna er mikil fýs- ík og mikill kraftur og markviss hrynj- andi milli lágstemmdra atriða og há- vaðamikilla. Já, þetta er flott sjó; það má nú segja. Samt virtust áhorfend- ur orðnir dálítið lúnir undir lokin, og klappið fremur borið uppi af vin- semd og virðingu fyrir góðri og vand- aðri vinnu en einlægri og innilegri hrifningu. Í leikskránni les ég að fyrirtæki, sem nefnir sig Eþikos og skilgreinir sig sem „miðstöð Íslands um samfé- lagsábyrgð“ (hvorki meira né minna) verði með fyrirlestra og umræður fyr- ir og eftir sýningar. Þetta hljómar vel og ekki nema sjálfsagt að hvetja fólk til að notfæra sér það. Þrátt fyrir allt finnst mér Leikfélag Reykjavíkur hafa gert rétt að taka Enron til flutnings. Jón Viðar Jónsson Enroná Íslandi LeikféLag ReykjavíkuR: Enron eftir Lucy Prebble Þýðandi: eiríkur Örn Norðdahl Leikstjórn: Stefán jónsson Leikmynd: Börkur jónsson Lýsing: Þórður Orri Pétursson Tónlist: Helgi Svavar Helgason og Sigtryggur Baldursson Hljóðmynd: Helgi Svavar Helgason og Thorbjørn knudsen Danshöfundur: Sveinbjörg Þórhallsdóttir Myndband: gideon kiers lEiklist Enron „Það er ekkert áhlaupaverk að túlka slíka persónu og óneitanlega djarft af leikstjóranum að tefla tiltölulega óreyndum leikara fram í hlutverkinu.“

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.