Dagblaðið Vísir - DV - 23.05.2012, Blaðsíða 17

Dagblaðið Vísir - DV - 23.05.2012, Blaðsíða 17
Umræða 17Miðvikudagur 23. maí 2012 Vinsæl ummæli við fréttir DV.is í vikunni „Ég tók það reyndar fram í samtali mínu við blaðamann að DV væri ekki barnanna best í þessum málum. Reglulega með hálfgerðar hetjufréttir um hrotta. Þó þau ummæli hafi ekki skilað sér í blaðið finnst mér í lagi að þau komi þá fram hér.“ Sigurður Hólm Gunnarsson um umfjöllun um að hann hafi hvatt vini sína á Fésbók til að sniðganga tónlistarhátíðina Reykjavík Live vegna auglýsingar hátíðarinnar með Jóni Hilmari Hallgrímssyni í aðalhlutverki, betur þekktum sem Jóni Stóra. „Merkilegt að allt varð brjálað þegar Siv Friðleifs var teiknuð sem „portkona“ að bjóða atkvæði sitt. Allt vitlaust á Alþingi og siðferðispostular öskruðu af reiði og farið var fram á afsökun þeirra sem að því stóðu. Nú var þó æpandi þögn.“ Ebenezer Þórarinn Ásgeirsson um þá frétt að Ólafur Ísleifsson lektor hafi verið ekki sáttur við skopmynd er birtist af forseta Íslands í Fréttablaðinu þann 19. maí síðastliðinn „Er hægt að væla yfir öllu... Finnst bara frábært hjá Kiwanis og Eimskip að gefa krökum hjálma og hvaða máli skiptir hvernig þeir eru á litinn.“ Særún Jónsdóttir um þá frétt að Hildi Lilliendahl finnst það tíma­ skekkja að Eimskip og Kiwanis gefi börnum í 1. bekk bleika og bláa hjálma. „Talandi um að kasta steinum úr glerhúsi, hvað ætli hún hafi sett inn margar óvinsælar fréttir um skilnaði og fleira og Baggalútur er ekkert að hlífa fólki, já sárt á eigin skinni.“ Sæunn Guðmundsdóttir um frétt á DV.is að Tobba Marinósdóttir hafi verið ósátt við umfjöllun Séð og heyrt um að faðir hennar hafi fengið hjartastopp. „Eins og ég ef alltaf sagt. Duft er drasl! Ef þú getur ekki ræktað það eða veitt það þá áttu ekki að borða það!“ Haraldur Dean Nelson um þá frétt að tveir íslenskir læknar séu að rannsaka tengsl lifrar­ skaða og notkunar á fæðubótarefninu Herbalife á Íslandi en þeir hafi fundið tíu tilfelli hjá Íslendingum þar sem talið er að lifrarskaða megi rekja til notkunar á fæðubótarefninu. „Veit ekkert um þessa Berglind, EN mikið djöfull geta heimskir menn og konur komist upp með að skaða aðra, hvílík óværa þessi „skrímsli“! Kæra þjóð sam- stöðu við ÚTRÝMINGU Hjóla Hrotta sem og annara er skaða og skemma fyrir þriðja aðila!“ Gretar Eirikss um viðtal við Berglindi, fórnarlamb tveggja líkamsárása en fjögur sitja enn í gæsluvarðhaldi út af fyrri árásinni sem þótti sérstaklega hrottaleg. 20 175 81 23 85 58 „Ekki tíðkast að aftur- kalla orðuveitingar“ önnum sem felast í embættinu. Ragnar Pétursson: Þú talar um óvissutíma. Felur það í sér að þjóðin og ráðamenn hennar geti að þínu mati farið illa að ráði sínu á næstu misserum, glutrað niður tækifærum eða fært mál til verri vegar? Hvernig þá helst?  Ólafur Ragnar: Óvissa er um nýja stjórnar­ skrá, óvissa um fjölda flokka og stöðuna á Alþingi að loknum næstu þingkosningum, óvissa um samband okkar við Evrópu, ýmiss konar óvissa í efnahagsmálum. Þótt okkur hafi miðað áfram í áttina að endurreisn þarf ennþá að efla sóknina á mörgum sviðum og skapa nýjum kyn­ slóðum fjölda tækifæra. Inga Sörens: Hr. Ólafur, eru einhver 3 atriði sem þú getur nefnt sem þú munir leggja meiri áherslu á en á liðnum kjörtímabilum?  Ólafur Ragnar: Að fjölga tækifærum unga fólksins, nýta þá miklu möguleika sem Ísland býr yfir, efla samstöðu fólksins í landinu og stuðla að því að komið verði í veg fyrir að stór ágreiningsmál séu sífellt á dagskrá. Þjóðin þarf nú samstöðu og sókn. Aðalsteinn Reykjalín: Ertu með eða á móti inngöngu Íslands í Evrópusam­ bandið?  Ólafur Ragnar: Ég hef í áratugi talið að hagsmunum Íslands væri líkt og Noregs betur borgið utan Evrópusambandsins. Ég skil þau sjónarmið sem leiddu til umsóknar eftir hrun bankanna en bendi á að Finnland er eina landið í Evrópu sem er með evru. Öll önnur nágrannaríki og helstu frændþjóðir Íslands hafa talið hagsmunum sínum borgið með sjálf­ stæðum gjaldmiðlum. Kári Jónsson: Í því ljósi að kvótamálið er í öngstræti, telur þú að öll framkomin frumvörp og þingsályktanir eigi/geti farið til þjóðarinnar?  Ólafur Ragnar: Ýmiss konar ruglandi hefur verið í umræðunni varðandi mína afstöðu. Ég hef ekki lýst neinni skoðun á frumvörpunum sem eru nú til umræðu á Alþingi. Enda veit enginn hvernig þau kunna að líta út á endanum. Að því leyti er afstaða mín í fullu samræmi við það sem ég hef sagt áður. Hins vegar taldi ég almennt séð að vilji þjóðarinnar varðandi ráðstöfun mikilvægustu auðlinda hennar væri málefni sem eðlilegt gæti verið að þjóðin ákvæði ef verulegur hluti almenn­ ings óskar eftir því. Ingimar Helgason: Sæll, hvað hyggstu verja hárri upphæð til kosningabaráttunnar og hvernig er hún fjármögnuð?  Ólafur Ragnar: Ég ætla ekki að verja miklum upphæðum í þessa baráttu. Hingað til hefur fjölskyldan og Ólafía komið að henni. Við munum hins vegar eins og aðrir frambjóðendur leita eftir styrkjum frá almenningi í samræmi við gildandi lög. Ingibjörg Stefánsdóttir: Hver er afstaða þín til fjárfestinga Kínverja hér á landi?  Ólafur Ragnar: Í rúm 10 ár hef ég lagt ríka áherslu á að efla tengsl við Indland og Kína enda verða þau helstu aflvélar í efnahagslífi 21. aldar. Það starf er ágætt dæmi um frumkvæði forseta á alþjóða­ vettvangi sem nú þegar hefur skilað miklum árangri. Einstakar fjárfestingar verður að meta eftir efni máls. Nú þegar eiga Kínverjar Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og mér vitanlega hefur enginn mótmælt því. Haukur Hallsson Af hverju vísaðir þú lögum nr. 12, 2003, um Kárahnjúka­ virkjun og álverið á Reyðarfirði, ekki í þjóðaratkvæði – einu mesta átakamáli áratugarins?  Ólafur Ragnar: Það mál kom ekki á mitt borð með þessum hætti og mér bárust engar óskir sem gæfu til kynna að ríkur þjóðarvilji væri á bak við slíka atkvæða­ greiðslu. Að þessu leyti bar fjölmiðlalögin og Icesave að með öðrum hætti. Helgi Björgvinsson: Lítur þú á það sem þitt hlutverk að auka á beint lýðræði í landinu með fleiri þjóðar­ atkvæðagreiðslum, dugar fulltrúalýðræðið ekki lengur?  Ólafur Ragnar: Ég hef í áratugi stutt beint lýðræði og flutt tilllögur um rétt almenn­ ings til að krefjast þjóðaratkvæðis. Það er ekki eðlilegt að það vald sé bara hjá forsetanum. En þannig er núverandi stjórnarskrá. Þangað til henni verður breytt er forsetinn sá eini sem getur fært þjóðinni þennan rétt ef Alþingi er á öðru máli. Sveinn Arnórsson: Myndir þú sem forseti skipta þér af þjóðaratkvæði um aðild að Evrópusambandinu?  Ólafur Ragnar: Aðild að Evrópusam­ bandinu er stærsta mál Íslendinga frá lýðveldisstofnun. Það væri óeðlilegt ef forseti lýsti ekki skoðun sinni í slíku grundvallarmáli sem hefði afgerandi áhrif á fullveldisstöðu þess. Um hvað á forsetinn að tala ef hann á að þegja um stærstu mál þjóðarinnar? Logi Sigurðsson: Af hverju eru ekki lengur kindur á Bessastöðum eins áður var?  Ólafur Ragnar: Því miður eru æðarkoll­ urnar eini búskapurinn á Bessastöðum en Dorrit hefur lengi verið að suða í því að fá hænur og kindur. Brynjar Erluson: Hvaða lið styður þú í ensku knattspyrnunni og hvert er lið þitt hér á Íslandi?  Ólafur Ragnar: Ég hef alltaf stutt Man­ chester United, síðan ég var þar við nám. Dorrit styður Chelsea og fagnaði ógurlega um helgina. Á Íslandi hef ég alltaf stutt Akranes. Enda var það eina utanbæjar­ liðið sem keppti í Íslandsmótinu þegar ég kom strákur að vestan. Bragi Antoníusson: Hver yrðu þín næstu skref næðir þú ekki endurkjöri?  Ólafur Ragnar: Þá færum við Dorrit að huga betur að garðinum á Sámsstöðum, en það kallar Dorrit húsið sem við keyptum í Mosfellsbæ. Hafsteinn Hannesson: Hvað finnst þér um þá hugmynd sem Pétur Blöndal, Jón Baldvin og fleiri hafa komið með, um að leggja niður forsetaembættið ?  Ólafur Ragnar: Það er slæm hugmynd. Nær 100% ríkja heims eru með þjóðhöfð­ ingja og telja að slíkt embætti gagnist þeim á margvíslegan hátt, styrki stöðu þeirra á alþjóðavettvangi, efli samvinnu á mörgum sviðum og skapi tækifæri til sóknar og bættra lífskjara. Sjáum til dæmis hvernig Norðurlöndin nýta sína þjóðhöfðingja. Guðjón Sigurðsson: Munt þú áfram styðja við baráttu fatlaðra fyrir mannréttindum, hér og erlendis?  Ólafur Ragnar: Tvímælalaust. Það hefur veitt mér ánægju og verið lærdómsríkt að styðja baráttu fatlaðra hér heima og á alþjóðavettvangi, bæði með samstarfi við samtök fatlaðra og Special Olympics. Fátt hefur veitt mér meiri ánægju. Sólon Árnason: Herra forseti. Hvað áttu við þegar þú talar um að fjölga tækifærum unga fólksins, hvað gætir þú sem forseti gert í þeim málum?  Ólafur Ragnar: Við Dorrit höfum á marg­ víslegan hátt stutt ungt fólk í atvinnulífi, menningu, hönnun og listum. Stuðlað að samstarfi við erlenda háskóla og opnað nýjar menntabrautir. Margt af þessu var fyrir nokkrum árum litlir sprotar en er nú blómleg starfsemi. Kjarninn í störfum mínum og málflutningi hefur verið að ungt fólk gæti í senn haft rætur á Íslandi en verið heimsborgarar í athöfnum sínum. Níels Harðarson: Sæll. Mig langaði að heyra þína skoðun á krónunni og hvaða gjaldmiðil við ættum að vera með.  Ólafur Ragnar: Aðalatriði eru framfarir í efnahagslífi og velferð. Þar hefur Ísland náð í fremstu röð þrátt fyrir áföll, var áður ein fátækasta þjóð í álfunni. Krónan er tæki, ekki markmið. Allar þjóðir í Norður­ Evrópu nema Finnar eru með sína eigin mynt. Sveinn Kristjánsson: Sæll Ólafur, ertu Apple­ eða PC­maður ?  Ólafur Ragnar: Ég hef lengst af verið PC­maður en hef undanfarna mán­ uði notað iPad sem er galdratæki. Ingibjörg Stefánsdóttir: Hver er afstaða þín til mannréttindabrota Kínverja gagnvart eigin þegnum? Skiptir það máli þegar tekin er afstaða til samstarfs við þá?  Ólafur Ragnar: Á öllum fundum sem ég hef átt með kínverskum ráðamönnum, forsetum Kína, forsætisráðherra og öðrum hef ég ávallt sett mannréttindi á dagskrá. Samræða við Kínverja um mannréttindi er smátt og smátt að skila árangri þótt margt sé enn óunnið. Þeir hafa lýst áhuga á samstarfi við íslenskar fræðastofnanir og samtök varðandi þróun mannréttinda, vilja skilja hvernig okkur hefur tekist að ná í fremstu röð á þessu sviði, þótt við hefðum við upphaf sjálfstæðisbaráttunnar haft lítil sem engin mannréttindi í nútímaskilningi. Brynjólfur Ívarsson: Hvernig tókst þér að komast yfir jafn glæsilega konu? Ertu með einhver ráð fyrir unga menn á þeim buxunum?  Ólafur Ragnar: Að gefast ekki upp og halda sínu striki, lýsa ást og umhyggju en umfram allt vera skemmtilegur. Annars hjálpaði nú Ísland, Dorrit hefur oft sagt að hún hafi fallið fyrir því fyrr en mér. Þorgeir Helgason: Nú er eitt helsta hlutverk forsetaembættisins það að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Telur þú þig, eftir að hafa sundrað þjóðinni í Icesave­málunum, geta nokkru sinni orðið aftur sameiningartákn?  Ólafur Ragnar: Forsetinn hefur mörg hlutverk, bæði að taka erfiðar ákvarðanir og stuðla að einingu þjóðarinnar. Í fyrstu voru margir æfir yfir ákvörðun minni í Icesave en nú telja nær allir og kannski allir að hún hafi verið hárrétt. Þjóðin hefur sameinast í andstöðu við Icesave­ samninginn, sem fyrst var greitt atkvæði um. Þannig gat ákvörðun forseta sem í upphafi var umdeild orðið til að sameina þjóðina. Elís Kjartansson: Hefurðu hugleitt að leysa upp núverandi þing og boða til kosninga?  Ólafur Ragnar: Nei, ég hef ekki hugleitt það. Þingrof kemur aðeins til greina ef störf Alþingis og samstarf flokkanna er komið í öngstræti. Jónas Halldórsson: Er kreppan búin?  Ólafur Ragnar: Kreppan er ekki búin þótt okkur hafi miðað áfram. Það ríkir enn kreppa víða í Evrópu og víðar. Því þurfum við áfram að standa vaktina og beita árangursríkum aðferðum. Ólafur Sindri: Í framhaldi af spurningu Helga um Hollywood­myndina, herra forseti, hvern sæjuð þér fyrir yður í hlutverki Dorritar?  Ólafur Ragnar: Helena Bonham­Carter. Tryggvi Hermannsson: Eru hybrid­bílar eitthvað sem koma skal? Nú ertu sjálfur á einum slíkum. Mætti ekki lækka tolla á þeim bílum?  Ólafur Ragnar: Jú, það er skynsamlegt að efla notkun umhverfisvænna bíla. Ég hef reynt að beita mér sem forseti í því skyni, meðal annars með því að fá rafbíla frá Indlandi og Kína. Kannski koma á næstu árum kínverskar rafmagnsrútur til Íslands. Og margir ferðamenn munu nota þær. Móheiður Geirlaugsdóttir: Hver er afstaða þín til landsyfirtöku Ísraelsmanna og mannréttindabrota þeirra á Palestínumönnum?  Ólafur Ragnar: Ég hef ávallt rætt málefni Palestínumanna við áhrifamenn í Ísrael og margir þeirra hafa ríka samúð með réttindum Palestínumanna. Landsyfir­ tökur hafa oft truflað friðarviðræður og komið í veg fyrir grundvöll sátta. Ólafur Hand: Nú er landkynning eitt af verkefnum forsetans. Makar forseta víðs vegar um heim taka þessu verkefni alvarlega og eru oft meira áberandi í því en sjálfur forsetinn. Á Dorrit enn eitthvað uppi í erminni?  Ólafur Ragnar: Dorrit á margt uppi í erminni. Og kemur sífellt á óvart. Í fyrra fór hún að kynna þorskalifur og nú eiga fjölmargar sjálfbærar vörur sem framleiddar eru á Íslandi hug hennar allan sem og hönnun og ferðaþjónusta á heilbrigðissviði. Ef einhver er svartsýnn á framtíð Íslands þá ætti hann að tala við Dorrit í fimm mínútur. Friðrik Karlsson: Geturðu hugsað þér að setja fjárlög í þjóðaratkvæða­ greiðslu?  Ólafur Ragnar: Nei, ég hef ekki hugleitt það. Höskuldur Sveinsson: Óttastu að þjóðinni verði þröngvað inn í ESB ef þú verður ekki til staðar til að koma í veg fyrir það? Eða er ekki venjan að þjóðar­ atkvæðagreiðslu sé krafist áður en þjóðir ganga þar inn?  Ólafur Ragnar: Það er ekki hægt að þröngva þjóð á þann hátt. Hins vegar er margt óljóst um slíka þjóðaratkvæða­ greiðslu. Sumir segja að hún verði eingöngu ráðgefandi og Alþingi eigi að hafa síðasta orðið. Enda þingmenn bara bundnir af samvisku sinni. Ég mun beita mér fyrir því að slík þjóðaratkvæða­ greiðsla verði afdráttarlaus og endanleg. Ragnar Hjálmarsson: Heill og sæll, gætir þú skýrt betur hvað þú áttir við þegar þú sagðir í Grindavík (skv. fréttum): „Þið treystið þinginu betur en 101 Reykjavík?“ Einkennast samskipti Reykjavíkur og landsbyggðarinnar af átökum?  Ólafur Ragnar: Þetta var spurning vegna ummæla sjómanns sem sagðist ekki treysta fólkinu í Reykjavík til að ákveða stefnuna í sjávarútvegsmálum. Á fundinum kom fram ótti sjómanna og fiskvinnslufólks við vaxandi tortryggni íbúa höfuðborgarsvæðisins gagnvart fólkinu í sjávarútvegi. Þessi ótti kom mér á óvart og ég held að hann sé nýr. Slíka gjá þarf að brúa. Agnar Þorsteinsson: Af hverju hefur embættið ekki afturkallað orðuveit­ ingar til útrásarvíkinganna og af hverju hefurðu ekki enn beðist afsökunar á þjónkun þinni við þá sem gekk langt út fyrir öll mörk sbr. skýrslu RNA?  Ólafur Ragnar: Það hefur ekki tíðkast að afturkalla orðuveitingar. Aðeins tveir af svokölluðum útrásarvíkingum hlutu orð­ una. Ég hef stutt mikinn fjölda íslenskra fyrirtækja og flest þeirra eru enn að skila þjóðinni miklum arði t.d. Össur, Marel, Actavis, CCP, Icelandair, Latibær, Marorka og Mentor, svo fáein dæmi séu nefnd. Um bankana hef ég oft fjallað enda studdu allir þá, bæði stjórnvöld, háskólasamfé­ lagið, fjölmiðlar og menningarstofnanir. Enda bankarnir stærstu fyrirtæki Íslands á sínum tíma. Við hefðum hins vegar átt að hlusta betur á viðvaranir en lærum af þeirri reynslu.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.