Dagblaðið Vísir - DV - 29.07.2011, Side 54

Dagblaðið Vísir - DV - 29.07.2011, Side 54
54 | Viðtal 29. júlí – 2. ágúst 2011 Helgarblað teiknimyndina. „Veiðið bara einn fisk,“ segir Hrafn. „Veiðið hann sam- an.“ Hann stendur upp, opnar ís- skápinn og nær í grillaðan kjúkling sem hann sker litla bita af til að nota í beitu. Þrír litlir strákar með eina veiðistöng, leikstjóri og blaðamaður fara út á pall – sem er gamalt, ryðg- að skipsdekk. Strákarnir klifra niður stiga og að lítilli tjörn á lóðinni þar sem nokkrir urriðar synda. Brátt er einn búinn að bíta á. „Þið skuluð sleppa honum, hann er svo magur,“ segir Hrafn. Annar fiskur bítur fljótlega á og Hrafn sér um að ganga frá honum. Skilur hann síðan eftir á bakka. Það á að grilla hann síðar. Dreymir kvenkyns engla Hrafn býður upp á sýningarferð um húsið áður en viðtalið heldur áfram. Við förum í opið skýli við sjóinn sem Hrafn byggði. Járnblómagarður skreytir þakið. Ryðgað akkeri á litlum hól. Viðarkettir upp við húsið. Heitur pottur í kjallaranum. „Þetta er ekta Benjamin Franklin-ofn,“ segir Hrafn um ofn sem stendur í kjallaranum. Þar er líka hægt að grilla. „Franklin var uppfinningamaður og smíðaði eldingarrofann.“ Gufubað. Gestaherbergi þar sem dýnur liggja á hvítmáluðum klöpp- um. Leynigöng virðast liggja úr vegg þar – hver veit hvert? Þetta hús er eins og völundarhús. Við göngum upp á aðalhæðina og áfram upp á þá næstu þar sem um hundrað leir- englar skreyta veggi. Af hverju safnar hann englum? „Það var verið að selja hluti úr kirkju sem hafði hrunið í eld- gosi á Filippseyjum og þar á meðal engla. Ég keypti þá fyrir slikk. Mér fór að þykja svo vænt um þá að ég fór að kaupa fleiri engla.“ Dreymir Hrafn stundum engla? „Mig dreymir bara kvenkyns engla.“ Síðan förum við upp á þak en leikstjórinn hefur látið útbúa stiga þangað upp. Við horfum yfir. „Holds- veikraspítalinn stóð þar sem kerfill- inn er og allt þetta svæði sem er tyrft hér fyrir ofan var náttúrugalleríið. Ég myndi skilja að það hefði verið rifið ef það væri einhver tilgangur með þessu. En hér er bara enn ein gras- flötin með engu á.“ Trúir á álfa og huldufólk Hrafn talaði um bænir, eða frek- ar kvæði, eftir Hallgrím Pétursson. Hann safnar englum en dreymir kvenkyns engla. Er hann ekki trúað- ur? „Ég trúi á álfana og huldufólkið í steinunum hérna í kring. Því fyr- ir mér er þetta „separate reality“; það er að segja veruleikinn er eins og maður skynjar hann. Það skynja engir tveir sama hlutinn á sama hátt. Það er kannski það sem gerir heim- inn spennandi. Það er alltaf hægt að sjá hann upp á nýtt og á þann hátt er ég kannski trúaður. Ég trúi því að það sé margt fyrir utan sjónsvið okk- ar sem við vitum ekkert um. Ef það er til einhver kraftur sem væri hægt að kalla guð, sem gæti þá verið ein- hvers konar rafmagnsbylgja eða vídd sem við þekkjum ekki, þá trúi ég. En ekki á guð sem er athyglissjúkur og vill láta tilbiðja sig.“ Hefur leikstjórinn orðið var við álfa og huldufólk í steinunum? „Já, það er af því að ég kalla þá fram í minni fantasíu. Ég trúi því. Ég leyfi mér stundum að trúa mínu eigin ímyndunarafli.“ Kúba og Taíland Hrafn Gunnlaugsson var einhverju sinni staddur á kvikmyndahátíð í Pú- ertó Ríkó þegar hann ákvað að dvelja á Kúbu í nokkra daga. Hann hafði lengi heillast af ljóðum Federico García Lorca og Pablo Neruda auk þess sem hann segir spænskar og suðuramerískar bókmenntir spenn- andi. Hann langaði til að geta lesið á frummálinu. Hann heillaðist af Kúbu og í nokkur ár fór hann reglulega þangað til að nema spænska tungu í háskólanum í Havana. Hrafn hefur síðustu ár farið nokkrum sinnum til Taílands til að nema taílensku við Chulalacorn- háskólann í Bangkok. „Taíland hef- ur alltaf heillað mig meira en önnur lönd. Það er kannski þessi afstaða: Að hið mjúka sigri hið harða, sem er einmitt hugmyndin í Hrafninn flýgur; þessi mýkt sem hið búddíska þjóðfélag býr til. Og kannski þetta lífsform – virðingin fyrir lífinu, um- burðarlyndi og tillitssemi sem er svo fjarlægt þessum hrotta sem ég var í gamla daga. Ég hef verið að velta fyrir mér búddismanum og jóganu. Svo finnst mér taílenskur matur besti matur sem hægt er að borða. Hann er svo mikið byggður upp á marineringu í alls konar ediki sem er fengið úr kók- os, ananas, kóríander og fleiru. Það er til svo mikið af kryddum í Taílandi. Þegar ég var í háskólanum í Bang- kok var ég í skólanum frá kortér yfir átta á morgnana til tvö á daginn og svo voru matreiðslukúrsar frá fimm til sjö. Þarna er kominn einn túristi í við- bót, sérðu,“ segir Hrafn. Svartklædd kona með svarta, síða fléttu gengur hægum skrefum fram hjá húsinu og niður að sjó. Gæti verið atriði úr bíó- mynd. Þjófóttur fíll Hann rifjar upp eftirminnilegt at- vik í Bangkok. „Ég stóð á götuhorni og hafði stungið appelsínu í vasann. Ég fann allt í einu að einhver var að róta í vasanum og hélt ég væri að fara að grípa vasaþjóf og sneri mér eldsnöggt við. Þá var þetta fíll sem hafði séð appelsínuna standa upp úr vasanum. Þetta var mjög skrýtin upplifun. Það voru byggingarfram- kvæmdir þarna og fíllinn var notaður til að lyfta staurum. Eigandinn hafði greinilega farið að huga að öðru og þá hafði fíllinn rölt yfir til mín.“ Hrafn segir að eftir því sem hann fari til fleiri landa því skýrari sýn fái hann á eigið land og eigin menn- ingu. „Maður skilur hana betur. Ég skil betur hvað Íslendingasögurnar og þessi arfur sem við eigum er mik- ilvægur ef við ætlum að vera þjóð. Ég held að þetta týnist einn daginn ef við pössum ekki betur upp á arfinn og Ísland verður partur af því sem kallast fjölmenningarþjóðfélag sem ég veit eiginlega ekki hvað er. Ég held að sérhver menning sé merkileg út af fyrir sig en það er ekki nauðsynlegt að hræra þessu öllu saman í einn nornapott.“ Feðgarnir læra á píanó Hrafn lærir ekki bara taílensku. Hann lærir á píanó eins og sonurinn. „Þetta er að koma. Ég æfi mest „theme“ úr kvikmyndum af því að ég þekki þau.“ Hann nefnir Lara’s Theme úr Doctor Zivago og Love Theme úr The God- father. „Ég á frekar auðvelt með að til- einka mér tónlist og læri lög utan að um leið og ég heyri þau.“ Uppáhaldslagið? „Það lag sem mér finnst skemmtilegast að spila á píanó- ið er Famous Blue Raincot eftir Leon- ard Cohen og Love Theme úr The Godfather. Það er alveg yndislegt.“ Vill bæta fyrir misgjörðir sínar Leikstjóri um 30 kvikmynda. Fimm barna faðir. Nemandi. Ferðalangur í þessu lífi. Hver er stærsti draumur- inn í dag? „Það er svo margt sem ég á óuppgert. Mig dreymir um að áður en ég fer frá nái ég að sættast við til- veruna, verði kominn á lygnan sjó og búinn að bæta fyrir misgjörðir mínar; þann hrottaskap sem ég hef stundum sýnt í gegnum lífið. Það þurfti kannski vegna þess að mað- ur hefur ekkert sinn vilja í gegn sem leikstjóri nema stundum að setja hnefann í borðið. Myndirnar hefðu aldrei orðið það sem þær eru nema af því að maður eiginlega lagði lífið að veði í hvert skipti.“ Farmaður á landi Sjórinn er lygn þennan júlídag. „Það er líka gaman þegar brimar. Það er fátt sem hefur heillað mig meira en þegar brimið gengur yfir húsið.“ Hvað er sjórinn í huga Hrafns Gunnlaugssonar? „Þegar ég var krakki ætlaði ég að verða farmaður og sigla um öll heimsins höf. Hafið bláa hafið hugann dregur, hvað er bak við ystu sjónarrönd? Ég hef oft velt því fyrir mér hvað væri bak við ystu sjónarrönd. Það er það sem ég hef oft verið að leita að. Þess vegna hef ég farið um allan heiminn. Það hafa verið forréttindi sem hafa fylgt mínu starfi sem kvikmyndaleikstjóri að mér hefur verið boðið á kvik- myndahátíðir á ótrúlegustu stöðum á jarðkringlunni. Ég sé bara annað fjall fram und- an eftir hvert fjall sem ég hef klifið. Ég hef alltaf verið farmaður í sjálfum mér og að því leyti líka hef ég algjör- lega breytt um stíl eftir hverja mynd. Þá hef ég gert allt öðruvísi mynd. Hrafn Gunnlaugsson hefur aldrei farið að gera myndir eftir Hrafn Gunnlaugsson.“ Er lífið eins og leikrit? Bíómynd? „Lífið er eins og leikari sem fer upp á svið og ólmast þar. Ég upplifi mik- ið lífið á þennan hátt. Það koma kafl- ar og svo skiptist leikritið. Maður er ungur og svo eldist maður. Ég held að vandinn við að vera ungur sé að maður er ekki nógu gamall til að kunna að njóta þess.“ Hrafn Gunnlaugsson er 63 ára. Á ungan son. Er námsmaður. Á sína drauma, hvort sem þeir tengjast mögulegri bíómynd eða kvenkyns englum. „Mig dreymir bara kvenkyns engla. Vill bæta fyrir misgjörðir sínar Hrafn segist stundum hafa sýnt hrottaskap. Miklir vinir Aron og Hrafn á Edduverð- laununum í febrúar. MynD RóbeRT Reynisson

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.