Hagskýrslur um landbúnað - 01.01.1957, Side 17
Búnaðarskýrslur 1954
15*
Veðurfar árið 1954. Veturinn frá áramótum var veðurmildur og hagstæður.
Meðalhiti í janúarmánuði var í Rvík 2,6° meiri en í meðallagi og 4,1° meiri á Akur-
eyri, meðalhiti í febrúar var í Rvík 0,3° yfir meðallag og á Akureyri 1,6°, í marz
í Rvík 1,1° og á Akureyri 1,3° og í apríl í Rvík 1,8° og á Akureyri 3,4°yfir meðallag.
Víðast var snjólaust í byggðum um sumarmál og gróður að vakna. Sá gróður stöðv-
aðist þó síðustu daga aprílmánaðar og 10 fyrstu daga maímánaðar vegna nætur-
frosta og fremur þyrrkingslegs veðurs. En allan síðari hluta maímánaðar og fram
að sólstöðum var sérstaklega hlýviðrasamt og hagstæð veður fyrir gróður. Um
sólstöður brá til norðanáttar og talsverðra kulda, einkum á Norðurlandi, jafnvel
svo að snjóaði í fjöll, en þá þegar var spretta svo vel á veg komin, að sláttur var
víðast hafinn. Meðalhiti í maímánuði var í Rvík 1,2° meiri en í meðallagi, og á
Akureyri 1,9°, en í júnímánuði var meðalhiti í Rvík 0,6° meiri en í meðallagi, en
á Akureyri 0,7° minni en í meðallagi.
Hinn 5. júlí 1954 brá skyndilega aftur til sunnanáttar. Fylgdi því mjög mikil
úrkoma, einkum 6. júlí, skemmdir á heyjum, vatnavextir, og í Skagafirði stórkost-
leg skriðuföll. Eftir þá stórrigningu brá til þurrviðris norðan lands, en þó eigi góðra
þurrka, en sunnan lands var þriggja vikna óþurrkakafli. Síðustu dagana í júlí og
fram til miðs ágústmánaðar voru ágætis þurrkar sunnan lands með hægri norðan-
átt og bjartviðri, og var svo einnig um sunnanvert Vesturland. En á sama tíma
voru dumbungar norðan lands og kalt í veðri. Dagana 15.—23. ágúst var hlý sunnan-
átt, óþurrkar á sunnanverðu landinu, en þurrkar norðan lands og náðist þá hey,
er safnazt höfðu fyrir fyrri hluta mánaðarins. Síðustu viku ágústmánaðar og allan
septembermánuð var norðlæg kuldatíð um allt land, óþurrkasamt á norðanverðu
landinu og örðug veðrátta til heyskapar, en sunnan lands náðust hey í hlöður
jafnóðum og gras var fellt. Meðalhiti í júlímánuði var í Rvík 0,7° minni en í meðal-
lagi, en á Akureyri 1,5° minni. í ágúst 0,4° meiri en í meðallagi í Rvík og 0,9°
meiri á Akureyri, í september 1,7° minni en í meðallagi í Rvík, á Akureyri 2,7°
minni. Um miðjan september kom mikill snjór í afrétt norðan lands og í efri afréttar-
lönd sunnan lands, og sums staðar norðan lands, einkum í Þingeyjarsýslu, snjóaði
í byggð og fóru liey undir fönn. Sunnan lands frusu kartöflur víða í görðum.
1 októbermánuði og fyrri hluta nóvembermánaðar hélzt enn kuldatíð, og voru
allmiklir snjóar á Norðurlandi, einkum austan til, og fénaður þar allur á gjöf. Um
miðjan nóvembermánuð brá til hlýinda, og komu þá góðir hagar fyrir beitarpening
norðan lands, en liey, sem orðið höfðu undir snjó, náðust að mestu. í desember-
mánuði voru veður umhleypingasöm, en sjaldan stórvond. Meðalhiti í október var
í Rvík 0,7° minni en í meðallagi, en á Akureyri 0,4° minni, í nóvemher var meðal-
liiti í Rvík 1,3° meiri en í meðallagi og á Akureyri 2,6°. í desember var meðal-
hiti í Rvík 0,8° minni en í meðallagi, en á Akureyri 0,2° minni.
Þegar litið er á árið í lieild, verður að telja veðráttu þess betri en í meðallagi.
Meðalhiti ársins var í Rvík 5° og er það 0,5° yfir meðallag, en á Akureyri var meðal-
liitinn 3,9° og er það 0,8° meira en í meðallagi. Úrkoma var 15% minni en í meðal-
lagi í Rvík, en á Akureyri 4,8% meiri en í meðallagi, og er Iivorugt hægt að telja
til skaða. Yeðurfar virtist yfirleitt hagstæðara sunnan lands en norðan, þó að slíkt
verði ekki séð af meðaltali mælinganna. Verður það ekki auðveldlega mælt, hvernig
veður koma við á hverjum tíma, en slíkt skiptir þó miklu fyrir þá, sem við veðrið
eiga að búa.
Veðrátta í Múlasýslum og Strandasýslu er oftast lík og norðan lands, en í
Austur-Skaftafellssýslu og í mestum hluta Vesturlands er veðurfar oftast áþekkt
og á Suðurlandi.