Náttúrufræðingurinn

Árgangur

Náttúrufræðingurinn - 2011, Blaðsíða 24

Náttúrufræðingurinn - 2011, Blaðsíða 24
Náttúrufræðingurinn 76 þéttum endurvexti74, sem útskýrir eflaust hvers vegna hann raðaðist með myrkvaskeiðinu. Síðasta skeiðið var að finna í elstu ræktuðu skógunum sem hafa verið grisjaðir (L5, G4) og í gömlum birki- skógum á Austur- og Vesturlandi (6. mynd). Í þeim fundust að jafnaði 190 tegundir og var fjöldi tegunda ekki marktækt frábrugðinn því sem var í skóglausu, beittu mólendi (2. tafla). Áhrif skóga á tegundaauðgi viðkomandi svæðis velta því meira á aldri skóganna, framvindustigi og umhirðu en því hvort um er að ræða sjálfsána birkiskóga eða gróðursetta barrskóga. Hér kemur berlega í ljós að það skiptir miklu hvaða framvindustig skóga er valið til samanburðar við mólendi. Niðurstöðurnar sýna að ef aðeins eitt framvindustig hefði verið valið til samanburðar gæti niðurstaðan orðið sú að skógar ýmist auki, minnki eða hafi ekki marktæk áhrif á tegundaauðgi, allt eftir því hvaða framvindustig var valið. Það sama gildir ef birkiskógar á einu framvindustigi eru bornir saman við ræktaða barrskóga á öðru framvindustigi. Þetta er þekkt vandamál í skógvistfræði og veldur að hluta þeim mikla breytileika sem er að finna í niðurstöðum mismun- andi rannsókna á tegundaauðgi þar sem ekki hefur verið tekið tillit til framvindustigs skóga.75,76 Spyrja má hvort það hafi ekki verið mistök í uppsetningu verk- efnisins að taka skóga af mismun- andi framvindustigum og bera þá saman við eina ríkjandi gerð mólendis í hvorum landshluta. Því er til að svara að höfundar telja að hóflega beitt mólendi sé stöðugra framvindustig en skógarvistkerfi sem flytjast á milli framvindustiga 6. mynd. Tegundaauðgi í öllum mæliteigum (meðaltal fimm mælireita). Brotnar línur sýna meðalfjölda tegunda á hverju framvindustigi og örvar sýna einfalda mynd af þeim breyt- ingum sem verða á tegundafjölda þegar mólendi breytist í skóg. Dökkgrænt=barrtré, ljós- grænt=birki, grátt=mólendi. – Total species richness within a study stand. Dashed lines indicate average species richness within a stand and arrows show in a simple way changes that occure as a forest grows up. Darkgreen=conifers, lightgreen=birch, grey=heathland. Framvinda skóga eftir aldri Þegar skóglaust land breytist í skóg með sjálfsáningu eða ræktun hefst ferli breytinga sem nefnist skógarfram- vinda.79,80 Slíkri framvindu er oft skipt upp í fjögur meginskeið: Á nýliðunarskeiði (e. establishment phase) eru trjáplöntur litlar og hafa því nægt vaxtarrými, eiginlegt laufþak hefur ekki myndast. Næg birta er á skógarbotni og lágvaxnar plöntur veita trjáplöntum samkeppni um ljós og vaxtarrými. Lengd þessa skeiðs veltur á þéttleika ungplantna og vaxtarhraða. Myrkvaskeið (e. exclusion phase) hefst þegar trén hafa vaxið upp í vaxtarrými sitt og laufþakið tekur að lokast. Einstök tré keppa um vaxtarrými og ljós. Þá minnkar yfirleitt uppskera og tegundum fækkar á skógarbotni vegna minnkandi birtu. Þetta skeið er mislangt eftir trjátegundum og veltur einkum á hversu skuggþolnar þær eru. Birki er mjög ljóselskt og því stendur skeiðið sjaldan mjög lengi í íslenskum birkiskógum. Gisnunarskeið (e. vegetation reinitiation phase) hefst þegar sjálfgrisjun er hafin í náttúrulegum skógi. Birta eykst aðeins á skógarbotninum og fleiri plöntutegundir geta dafnað þar. Á þessu skeiði myndast yfirleitt runnalag eða aðrar skuggþolnari trjátegundir byrja að mynda laufkrónuna með ríkjandi trjátegund. Á Íslandi er birkið hins vegar eina innlenda trjátegundin sem myndar samfellda skóga og því ekki aðrar trjátegundir sem koma inn. Því eru birkiskógar endastig framvindu hér á landi.81 Í ræktuðum skógum er grisjun beitt til að stytta myrkvaskeiðið og koma skógum beint yfir í gisnunarskeiðið. Með því er unnt að hámarka hlutfall sverra trjáa. Gamalgrónir skógar (e. old-growth phase) er það kallað þegar lundir blandast tegundum og kynslóðum trjáa. Skugginn af eldri trjánum kemur í veg fyrir nýliðun nema laufþakið opnist verulega. Birkiskógar mynda sjaldan kynslóða- blandaða lundi vegna þess hversu ljóselsk tegundin er.82,83 Þeir endurnýja sig yfirleitt með teinungum frá rótarhálsi eftir að stofnar hafa fallið úr elli eða með fræi ef meiriháttar rask (svo sem stormfall, snjóflóð, skriður eða skógareldar) hefur opnað skógarbotninn. Ræktaðir skógar ná sjaldan þessu skeiði vegna nýtingar þeirra. 81_2#profork070711.indd 76 7/8/11 7:41:42 AM

x

Náttúrufræðingurinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.