Öldrun - 01.11.2008, Blaðsíða 7
Ábyrgðarmaður: Elva Gísladóttir næringarfræðingur
og verkefnisstjóri næringar hjá Lýðheilsustöð
Útgefið: 7/5/08
Hægt er að skoða og panta meira fræðsluefni um næringu hjá: www.lydheilsustod.is - útgáfur
Mikilvægi hollrar fæðu fyrir heilsuna
Þegar aldurinn færist yfir geta matarvenjur og matarlyst breyst.
Fæðið hefur mikil áhrif á heilsu og líðan og því er mikilvægt að það
sé sem hollast og fjölbreyttast.
Eldra fólki, sem er við góða heilsu og hreyfir sig daglega, hæfir
yfirleitt almennt fæði þar sem tekið er mið af ráðleggingum
Lýðheilsustöðvar-manneldisráðs. Hætta á næringarskorti eykst ef
matarlyst minnkar, hvort heldur er vegna líkamlegra eða geðrænna
sjúkdóma. Þá þarf að gera sérstakar og oft einstaklingsbundnar
ráðstafanir. Orkuþörf minnkar með aldrinum, aðallega vegna
vöðvarýrnunar og minni hreyfingar. Þörf fyrir vítamín, steinefni,
prótein og trefjaefni minnkar hins vegar ekki að sama skapi. Því
þurfa öll næringarefni að vera til staðar í minni fæðuskömmtum.
Hér eru almennar ráðleggingar sem henta heilbrigðu eldra fólki. Aðrar ráðleggingar geta
gilt fyrir þá sem þjást af ýmsum sjúkdómum (t.d. sykursýki tegund 1 eða 2, tyggingar- eða
kyngingarvandamál, háþrýstingi, næringarskorti o.fl.). Best er þá að fá ráðleggingar um
næringu á næstu heilsugæslustöð.
Vökvi - Mikilvægt að drekka vel af vökva yfir daginn. Þorstatilfinning minnkar með aldrinum en
þörfin fyrir vökva minnkar ekki að sama skapi. Því er mikilvægt að drekka vel af vökva yfir
daginn samtals um tvo lítra á dag, t.d. 3-4 glös af vatni, 2 glös af fituminni mjólk, ef til vill 1 glas
af hreinum ávaxtasafa og kaffi eða te.
Meiri trefjar í fæðunni - Hreyfingarleysi ásamt skorti á trefjaefnum og vökva veldur því að
margir aldraðir eiga við hægðatregðu að stríða. Ýmsir sjúkdómar og lyf auka enn frekar á þennan
vanda. Hægt er að auka trefjaneyslu með því að:
Borða meira af grænmeti og ávöxtum - Mikilvægt er að grænmeti eða ávextir séu
hluti af hverri máltíð. Hægt er að velja þurrkaða ávexti sem hluta af magninu yfir daginn.
Borða meira af grófum brauðum og öðrum trefjaríkum kornmat t.d. hýðishrísgrjón
og heilhveitipasta, en minna af sætabrauði, kexi, kökum og sælgæti.
Fituminni mjólkurvörur. Ráðlagt er að fá sér tvö glös/diska/dósa af fituminni mjólk eða
fituminni sýrðum mjólkurvörum daglega til að uppfylla þörf fyrir kalk. Fituminni mjólkurvörur
eru t.d. léttmjólk, fjörmjólk, undanrenna, létt AB-mjólk og sýrð léttmjólk. Ostur getur komið í
stað mjólkur að hluta til. Þeir sem ekki drekka mjólk geta tekið kalktöflur.
Þorskalýsi daglega - Ein barnaskeið (10 ml) veitir ráðlagðan dagsskammt af D-vítamíni.
Fiskur - Æskilegt er að fiskur sé á borðum sem aðalréttur a.m.k. tvisvar sinnum í viku, helst
oftar. Gott er að velja bæði feitan (t.d. lax, bleikju) og magran fisk (t.d. ýsu, þorsk).
Ferskt kjöt – Veljið ferskt kjöt fram yfir unnar kjötvörur, farsvörur, saltkjöt og reykt kjöt
(hakkað kjöt telst fersk vara sem og frosið kjöt).
Matarolía – Notið frekar matarolíu við matseld í stað smjörs eða smjörlíkis til að minnka neyslu
á mettaðri fitu.
Salt – Borðið minna af tilbúnum söltuðum vörum svo sem pakkasúpum og sósum. Notið minna
salt við matargerð og borðhald en notið þess í stað önnur krydd sem ekki innhalda salt.