Són - 01.01.2006, Síða 10
SÓLVEIG EBBA ÓLAFSDÓTTIR10
höfundur rímnanna sé sá Rögnvaldur blindi er fræðimenn fyrri alda,
svo sem Páll Vídalín, Grunnavíkur-Jón, Hálfdan Einarsson og Einar
Bjarnason, þekktu með nafni, vissu að verið hafði rímnaskáld og
eignuðu honum Brönurímur og Skógar-Krists rímur.4 Harla lítið
annað er vitað um Rögnvald blinda nema að hann er talinn hafa verið
almúgamaður eða bóndi og Björn Karel telur hann vera Vestlending
því málfar rímnanna beri vott um fullkomna afkringingu y-hljóðanna
og það að Brönurímur eru varðveittar í Staðarhólsbók sýni að þær
geti ekki verið ortar síðar en 1540 og fyrir miðja sextándu öld hafi
afkringing y-hljóðanna varla verið afstaðin víðar en á Vesturlandi. Jón
Þorkelsson telur hann hafa verið uppi á síðari hluta fimmtándu aldar
og fyrri helmingi sextándu aldar.5 Björn Karel þrengir þetta enn
frekar og telur hann ekki geta verið fæddan fyrr en um 1480, því þótt
fram komi í mansöng Skógar-Krists rímna að hann kvarti undan elli
þá hljóti hann að hafa lifað fram yfir siðaskipti og geti því varla verið
fæddur fyrr.6
Fræðimenn virðast nokkuð sammála um að telja rímurnar ortar
um eða fyrir siðaskiptin 1550. Elsta handritið sem varðveitir Skógar-
Kristsrímur hefur verið nefnt Selskinna, AM 605 4to, og er það talið
vera frá síðari hluta 16. aldar. Björn Karel telur rímurnar ekki geta
verið ortar fyrir 1546 og rökstyður það með að í mansöng annarrar
rímu stendur:
Salamon spaki í sannleik frekr
soddan dæmi konunum tekr
en illa verri árnun sé
en önnr betri en gull og fé.7
Síraksbók og Orðskviði Salómóns, þar sem bornar eru saman góðar
og vondar eiginkonur, mun Gissur Einarson biskup hafa þýtt 1545 og
1546.8 Um tímamörkin segir Björn Karel:
Ekki er ástæða til að rengja að hann hafi gamall verið, þegar hann
kvað Skógarkristsrímur, og þó að þar finnist áhrif frá þýðingum
eftir Gissur Einarsson, þá er vafasamt um lúthersku skáldsins.
4 Björn K. Þórólfsson (1934:461).
5 Jón Þorkelsson (1888:304).
6 Björn K. Þórólfsson (1934:461–462).
7 Vísa II.8.
8 Björn K. Þórólfsson (1934:460).