Són - 01.01.2006, Blaðsíða 39
SÆL OG BLESSUÐ, SYSTIR GÓÐ 39
síðan fréttir af sjálfri sér og nánustu fjölskyldu. Þá taka við almenn
tíðindi af búskapnum og lífsviðurværinu, svo sem heyskap, fuglaveiði
við Drangey, hákarla- og fiskveiði. Allt kemur þetta vel heim og
saman við það sem fram kemur í Annál nítjándu aldar þar sem sagt er
að vel hafi heyjast nyrðra og að fiskafli hafi verið betri þar en syðra.
Þar kemur þó fram að fuglaafli við Drangey hafi verið í minna lagi.19
Solveig segir síðan frá verslun í Hofsósi og gleðst yfir batnandi versl-
unarháttum þar. Í beinu framhaldi segir hún frá giftingum og barn-
eignum í héraðinu sem verða þrátt fyrir að jarðnæðið skorti. Fréttir
Solveigar af því að bændur bæði í Sléttuhlíð og Húnaþingi hafi orðið
fyrir fjárskaða staðfestast í Sögu frá Skagfirðingum þar sem sagt er frá
því að „frá Árbakka og Vindhæli á Skagaströnd hraktist í sjó og
fennti nær 200 fjár“ þann 14. október 1833 og 21. desember „hrakti
líka fé í sjó úr Sléttuhlíð“.20 Í Annál nítjándu aldar er aðeins sagt að
haustið hafi verið „vindasamt og hart frá í október“ og „vetur snjóa-
og frostasamur til ársloka“.21 Eftir lýsingu Solveigar á þessu slæma
tíðarfari og sköðum sem orðið hafa þess vegna segir hún frá öðrum
dauðsföllum. Hún endar bréfið á góðum óskum til systur sinnar, en í
síðustu vísunum kemur fram nafn hennar, ásamt því hvar og hvenær
ljóðabréfið er ort. Bréfið er nokkuð lipurlega ort og oftast eru frétt-
irnar auðskiljanlegar. Þó kemur fyrir í viðkvæmum málum að Solveig
tali þannig að ekki er hægt að skilja hvað hún á við nema þekkja til.
Sem dæmi má nefna að ekki hefur tekist að ráða í hver það var sem
Solveig ætlaði að biðja fyrir bréfið til Arnfríðar.
Við uppskrift bréfsins sem hér fer á eftir er stafsetning samræmd og
aðeins leiðréttar augljósar villur. Þær leiðréttingar eru auðkenndar með
oddklofum og sagt frá þeim í athugasemdum. Þegar eldri stafsetning
skiptir máli vegna ríms er hún látin halda sér. Upplýsingar um fólk og
atburði sem sagt er frá í bréfinu eru fengnar úr ýmsum áttum. Mest er
stuðst við Skagfirzkar æviskrár. Tímabilið 1850–1890, Jarða- og búendatal í
Skagafjarðarsýslu 1781–1958, Manntal á Íslandi 1816 og Íslendingabók auk
þess sem Gísli Þór Ólafsson starfsmaður á Héraðsskjalasafni Skag-
firðinga fletti upp í gögnum safnsins. Færi ég honum bestu þakkir fyrir
hjálpina. Skýringar neðanmáls eru samsettar úr þessum heimildum og
þeirra ekki getið, en þar sem aðrar heimildir eru notaðar, annað hvort
eingöngu eða með þeim áðurtöldu, er vísað til þeirra.
19 Pétur Guðmundsson II (1912–1954:35–36).
20 Jón Espólín, Einar Bjarnason III (1976–1979:33).
21 Pétur Guðmundsson II (1912–1954:35).