Són - 01.01.2006, Blaðsíða 69
„GULLBJARTAR TITRA GÁRUR BLÁRRA UNNA“ 69
meiri kröfur til stórskálda sem í krafti hraðkvæðis gleymdu því stund-
um að þörf væri ögunar til að skáldskapnum yrði langra lífdaga auð-
ið. Þannig verður sonnettum Sigfúsar Benedicts Benedictssonar lík-
lega seint hampað sökum listfengis!
Ljóðform sonnettunnar fól í sér, eins og þegar hefur komið fram,
ákveðna ögun og þörf á markvissri beitingu orðanna. Skáld, sem
þekkt voru fyrir óhaminn og oft og tíðum innblásinn ljóðstíl, þar sem
hver hugmyndin rak aðra í ofhlæði málsins, breyta fullkomlega um stíl
þegar þau fella tjáningu sína að ljóðformi sonnettunnar. Sonnettur
Benedikts Gröndals eru góð dæmi um þessa breytingu. Andstæðurnar
og hin óhamda og taumlausa tjáning, sem oft ríkja í huga skáldsins í
sumum lengri kvæðum þess, víkja fyrir reglufestu, rökvísi og samræmi
í sonnettunum. Allt stillist og kliðmýktin og jafnvægið ráða ríkjum.
2.3.1 Ljóðstafir
Íslenskar sonnettur greina sig frá þeim erlendu að því er varðar
ljóðstafasetninguna. Hún veldur því að hérlendar sonnettur mynda í
raun enn eitt afbrigði þessa fornhelga ljóðforms.
Vafalaust hefur það valdið Jónasi Hallgrímssyni nokkrum vanga-
veltum hvernig hann ætti að skipa niður stuðlunum í sonnettu sinni
Ég bið að heilsa. Leiðin, sem hann valdi, má segja að hafi alla tíð ein-
kennt þá gerð sonnettunnar sem kennd hefur verið við Petrarca í
íslenskum kveðskap enda þótt Jónas hafi ekki fetað sömu slóð og
hann í skipan rímhljómanna.
Grundvallarreglan, sem á við stuðlasetningu flestra sonnettanna á
þessum blöðum, er sú hefðbundna leið að tengja saman tvær
braglínur með ljóðstöfum þannig að tvo stuðla er að finna í fyrri
línunni (A-línu) en höfuðstaf í þeirri síðari (B-línu). Eins og í ljóða-
hætti þar sem 3. og 6. braglína eru sér um stuðla gildir sú meginregla
í íslenskum sonnettum að 11. og 14. braglína eða niðurlagslínur ters-
ettanna eru sér um stuðla.
Jónas fylgir hins vegar ekki sömu reglu um ljóðstafasetninguna í
síðari sonnettu sinni, Svo rís um aldir árið hvurt um sig. Fullyrða má að
ljóðstafasetningin þar þjónar miklu betur því hlutverki að undirstrika
merkingu þeirra orða í ljóðinu sem grundvallarþýðingu hafa fyrir
skilning okkar á því. Samslungnir ríminu skapa ljóðstafirnir í Svo rís
um aldir árið hvurt um sig miklu styrkari heild en einkennir hina fyrri
sonnettu Jónasar: