Són - 01.01.2006, Blaðsíða 147
147LJÓÐ 2005
íburðar. Þess í stað leikur hann sér með orð, hugtök, hugmyndir og
smellnar samlíkingar, líkt og í ljóðinu „Undir súð“ (bls. 13–14) þar
sem regndropum sem lenda á bárujárni er líkt við ritvélaslátt, uns
rigningin hefur náð að vélrita heilan rímnaflokk. Í ljóðinu leiðir Þór-
arinn lesandann aftur í tímann og leikur sér þannig að því að tengja
saman nútíð og fortíð. Það gerir hann og í öðru snjöllu ljóði, „Askur“
(bls. 25), þar sem lesanda er boðið inn í hinn forna goðheim, þar sem
íkorni á þönum upp og niður stofn asktrés verður að sögufrægum
íkorna, Ratatoski. Þegar lesandinn hefur gengist inn á blekkinguna,
að asktréð í ljóðinu tengi virkilega saman tvo heima og að hann sé í
raun staddur við heimstréð sjálft, ask Yggdrasils, er honum kippt
niður á jörðina aftur, þegar höfundur tekur upp á því að fóðra
Ratatosk með salthnetum og kartöfluflögum. Þetta verða að teljast
snjöll tímaskipti. Að lokum langar mig til að nefna sniðuga ferskeytlu
sem ber heitið „Sumardagurinn fyrsti“ og fjallar um íslenska vorið,
sem er blautt eins og vatnslitamynd (bls. 16). Þarna er á ferðinni sam-
líking sem allir Íslendingar ættu að kannast við. Edda markaðssetti
bók Þórarins sem fimm stjörnu ljóðabók, eftir ritdómi Páls Baldvins
Baldvinssonar, gagnrýnanda DV. Ég er viss um að ýmsum ljóðaun-
nendum hefur brugðið í brún og þótt sem ljóðabækur væru nú dreg-
nar í dilka að hætti amerískra bíómynda. Einhvern veginn finnst
manni stjörnugjöf eiga betur við flest annað en ljóðabækur.
Í ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Dyr að draumi, kveður við nokkuð
annan tón en hjá Þórarni enda ólík skáld á ferðinni. Þótt yfirbragð
bókar Þorsteins sé – svo sem vænta mátti – svolítið í þyngri kantin-
um verður ekki sagt að þar ríki beinlínis svartsýnisandi heldur er
miklu fremur verið að leita svara og í því felst alltaf ákveðin bjart-
sýni. En á sama tíma og bornar eru upp knýjandi spurningar kemur
þó einnig fram ákveðin tortryggni gegn svörum – að minnsta kosti
tekst höfundi að sannfæra lesandann um að það séu ef til vill ekki
endilega alltaf til svo afdráttarlaus svör við spurningum okkar. Þess-
ar vangaveltur gefa bókinni svolítið heimspekilegan undirtón þar
sem myndir eru dregnar upp á draumkenndan máta, jafnvel með
tilvísunum í annan heim. Mig langar rétt að nefna tvö ljóð. Í ljóðinu
„Mynd“ (bls. 13) dregur ljóðmælandi að sér huglæga mynd (ímynd)
annarrar manneskju svo að hún geti lýst upp annars ósýnilega betri
hlið hans. Myndmálið er bæði frumlegt og orkar sterkt. Einnig lang-
ar mig að nefna ljóðið „Maðurinn“ (bls. 16) sem er gott dæmi um
heimspekilegar vangaveltur höfundar. Maður er kannski gjarn á að
líta þannig á hlutina ómeðvitað að maður sé sífellt að bæta við sig á